A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Miracle at St. Anna | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Miracle at St. Anna (2008)

21. janúar '13 16:35 Miracle at St. Anna

„Oftar en ekki má finna eitthvað gott eða vel gert í myndunum Lees en Miracle at St. Anna hefur hvorugt og er fyrir vikið langdregin þvæla sem er gerð í þeim eina tilgangi að standa upp í hárinu á öðrum kvikmyndagerðamönnum í stað þess að fara ótroðnar slóðir eins og hann gerði á árum áður.“

Eftir að starfsmaður póstsins drepur viðskiptavin með köldu blóði rannsakar lögreglan híbýli hans og finnur þar ítalskan forngrip. Fjórum áratugum áður var hópur blökkumanna viðskila við herdeild sína á Ítalíu. Í stað þess að fara til baka þræddi hópurinn fjalllendi Toskana og koma sér fyrir í litlu þorpi þar sem þeir kynntust fordómalausum þorpsbúum.

Spike Lee hefur í fjölda ára verið meðal fremstu kvikmyndagerðamanna Bandaríkjanna. Myndir hans, rétt eins og maðurinn sjálfur, hafa verið umdeildar og oftar en ekki haft eitthvað til málanna að leggja eða í það minnsta varpað nýju ljósi á fólk og aðstæður þess. Þá er Lee vægast sagt yfirlýsingaglaður og hefur oftar en ekki fordæmt kvikmyndir annarra fyrir að ganga þvert á pólitíska rétthugsun eða á skjön við skoðanir hans.

Nú síðast var það Quentin Tarantino og Django Unchained sem fór í taugarnar á Lee en þar áður lét hann Clint Eastwood pirra sig með Flags of Our Fathers. Hann gagnrýndi Eastwood fyrir að hafa ekki haft neina þeldökka hermenn á eyjunni Iwo Jima þar sem myndin gerðist að mestu leyti. Lee má eiga það að hann lét ekki þar við sitja, bretti upp ermar og gekk í gerð Miracle at St. Anna þar sem áherslan var á þátttöku blökkumanna í seinni heimstyrjöldinni.

Lee hefur förlast á undanförnum árum og myndir hans sem voru áður hárbeittar þjóðfélagsádeilur eru nú margar hverjar orðnar bitlaust þvaður. Að vísu voru The 25th Hour og Inside Man stórfínar en hvorug þeirra báru þó hin gömlu höfundareinkenni hins beitta samfélagsrýnis. Í Miracle at St. Anna er Lee ekki lengur í bakgarði sínum í New York heldur í hernaði sem er eitthvað sem Lee hefur ekki fengist við áður og hann hefur ekki nægilega sterka stjórn á öllu eins og sést best í hasaratriðunum.

Myndin gerist á tveimur tímabilum. Annars vegar er sagt frá morðinu árið 1983 og hins vegar stríðinu árið 1944. Söguþráðurinn er þrælfinn og þá sérstaklega það sem gerist árið 1983 þar sem morðið og forngripurinn vekja forvitni. Það sem hefði geta verið frásögn er nú endurlit persónunnar sem fremur morðið og kemur atburðarásinni árið '83 ekki við nema í byrjun og enda myndarinnar.

Lee og handritshöfundurinn James McBride stilla upp hermönnunum upp þannig að svartir eru gegn þeim hvítu. Hermönnunum nægir ekki að vera í stríði við Þjóðverja heldur berjast þeir einnig innbyrðis. Fjórmenningarnir eru ekki hermenn heldur „blökkuhermenn" samkvæmt Lee og McBride, og fer allur drifkrafturinn í að sýna þá hjálpsama, duglega og umfram allt, mannlega, sem „hvítu" mennirnir eru ekki. Áformin mistakast hraparlega og verða þeir fjórmenningar að stöðluðum steríótýpum fyrir vikið og missa áform Lees og McBride marks. Lengdin ber líka myndina ofurliði og þegar á líður verður hún ómarkviss og þvæld.

Af fjórmenningunum eru það Derek Luke og Omar Benson Miller sem standa uppúr, ásamt Matteo Sciabordi sem fer með hlutverk lítils drengs sem hópurinn tekur undir sinn verndarvæng. Í heildina hefur leikhópurinn úr litlu að moða enda flest allt staðlaðar steríótýpur sem hafa sést milljón sinnum áður. Joseph Gordon-Levitt, John Turturro, John Hawkes og Walton Goggins koma fram í minni hlutverkum.

Miracle at St. Anna er ofarlega á lista yfir slöppustu myndir Lee. Oftar en ekki má finna eitthvað gott eða vel gert í myndunum hans en Miracle at St. Anna hefur hvorugt og er fyrir vikið langdregin þvæla sem er gerð í þeim eina tilgangi að standa upp í hárinu á öðrum kvikmyndagerðamönnum í stað þess að fara ótroðnar slóðir eins og Lee gerði á árum áður. Fyrir vikið fellur myndin kylliflöt.

Leikstjóri: Spike Lee
Handrit: James McBride
Leikarar: Derek Luke, Michael Ealy, Laz Alonso, Omar Benson Miller, Matteo Sciabordi, Joseph Gordon-Levitt, John Turturro, John Hawkes, Walton Goggins, Kerry Washington, John LeguizamoSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða