A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Need for Speed | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Need for Speed (2014)

21. mars '14 13:21 Need for Speed

„Hér er aðalatriðið að tefla fram flottum bílum og hverfist söguþráðurinn einungis um stórhættulegan kappakstur, handbremsubeygjur og stingandi augnaráð milli bílstjóra.“

Bifvélavirkinn og ökuþórinn Tobey er ranglega dæmdur í fangelsi fyrir aðild að manndrápi af gáleysi. Að afplánun lokinni er hann staðráðinn í því að koma þeim sem sveik sig fyrir kattanef og hreinsa nafn sitt.

Tölvuleikjabálkurinn Need for Speed hefur malað gull í gegnum árin og það hlaut að koma að því að kvikmynd byggð á leikjunum yrði gerð. Eins og nafn leikjanna og myndarinnar gefur til kynna þá er hraðinn fyrir öllu og í Need for Speed er hvergi slegið af. Leikstjórinn Scott Waugh setur allt í fimmta gír í hasarnum og gerir það vel þótt ekki sé hægt að segja hið sama um leikstjórn sem snýr að leik.

Hér er aðalatriðið að tefla fram flottum bílum og hverfist söguþráðurinn einungis um stórhættulegan kappakstur, handbremsubeygjur og stingandi augnaráð milli bílstjóra. Rökhugsun er almennt ýtt til hliðar og allar klisjurnar í bókinni eru dregnar fram en það skiptir litlu enda fórnarkostnaður í nafni þess að koma sögunni áleiðis, eða það er að segja, koma ökuföntunum frá A til B.

Bílahasarinn er virkilega vel gerður og ólíkt Fast and the Furious-myndunum virðist megnið atriðunum í þessari mynd byggja á raunverulegum aksturstilþrifum frekar en tölvugerðum bílahasar. 

Aaron Paul, sem er þekktastur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Breaking Bad þar sem hann fór með mikinn sem Jesse Pinkman, leikur ökufanturinn Tobey. Þótt það sé heilmikið spunið í Paul þá virðist honum ætla að ganga illa að hrista af sér hlutverkið úr sjónvarpsþáttunum góðu og mátti glitta í Jesse á þónokkrum stöðum í myndinni.

Hinn æðisgengni og trausti Michael Keaton er glæpsamlega vannýttur sem keppnisstjórnandi sem talar beint í upptökuvélina og lætur línur eins og „kappakstur er list," flakka við hvert tækifæri. Auk Pauls og Keatons þá leika Imogen Poots, Scott Mescudi, Dominic Cooper og Ramon Rodriguez einnig í myndinni.

Þær myndir sem byggja á vinsælum tölvuleikjum og hafa reynst góðar má telja á fingrum annarrar handar og þótt að Need for Speed eigi lítið sameiginlegt með tölvuleikabálknum þá reynist hún vera þessi fína skemmtun. Jafnvel þótt að myndin gangi út á það eitt að áhorfendur fylgist með fólki að brjóta sem flest umferðarlög og spæna upp malbik.

Leikstjóri: Scott Waugh
Handrit: George Gatins, John Gatins
Leikarar: Aaron Paul, Dominic Cooper, Imogen Poots, Scott Mescudi, Rami Malek, Ramon Rodriguez, Dakota Johnson, Michael KeatonSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða