A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Nymphomaniac: Volume I | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Nymphomaniac: Volume I (2013)

14. febrúar '14 17:18 Nymphomaniac: Volume I

„Að sjálfsögðu eru drungalegir þunglyndistónar Triers á sínum stað en Nymphomaniac er samt sem áður líka drepfyndin, átakanleg, erfið, falleg, grótesk, harmþrungin, sprellfjörug, útpæld, blaut, gröð og gáfuleg.“

Ég mun seint teljast til aðdáenda leikstjórans Lars von Trier enda manninum einkar lagið að gera leiðinlegar og niðurdrepandi kvikmyndir. Að því ógleymdu að þetta fífl reyndi á sínum tíma að eyðileggja kvikmyndagerð í heiminum með þessu fáránlega Dogma-bulli sínu. Ekki verður samt af djöflinum dönskum tekið að hann á það til að hitta á rétta tóna og þá er hann helvíti góður. Fyrri hluti hinnar alræmdu og umtöluðu Nymphomaniac er skínandi dæmi um hvers Trier er megnugur þegar hann er í góðum gír.

Nymphomaniac hefur verið áberandi í umræðunni víða um heim undanfarið vegna þess hversu grófar kynlífssenur hennar eru og þar er svosem engu logið en fólk ætti samt að varast að stimpla þetta verk sem ómerkilegt klám. Að vísu ber að hafa í huga að Trier skilaði enn grófari mynd og sýndi heildarpakkann eins og hann vill hafa hann í Berlín á dögunum. Milduð útgáfa Nymphomaniac er hins vegar í almennri dreifingu þannig að þeir sem vilja fá enn meira klám verða að bera sig eftir upprunalegu útgáfunni með einhverjum ráðum.

Vissulega er hér samt ekkert skafið utan af einu né neinu í ringulreiðinni sem líf hinnar kynlífsóðu Joe er. Það breytir því heldur ekki að vel má verja að getnaðarlimirnir, píkurnar, brjóstin og rassarnir sem þarna er flaggað þjóni tilgangi sögunnar. Þetta virkar líka heldur ekki eins og klám heldur bara kynlíf, þótt á köflum sé það ruddalegt og ljótt en fólk hefur jú ólíkan smekk í þeim efnum eins og öðrum.

Myndin hefst á því að Seligman, hæglátur og að því er virðist hálf kyndaufur fjölfræðingur og bókaormur, gengur á köldum vetrardegi fram á Joe þar sem hún liggur sundurbarin úti á götu. Hann fer með hana heim, gerir að sárum hennar og gefur henni te. Og eftir það byrjar hún að segja honum sögu sína. Hún hefur greint sig sem kynlífsfíkil og eins og fíklum er tamt hefur hún vaðið áfram án þess að skeyta um nokkurn annan en sjálfa sig til þess að svala fíkn sinni. Sjálfsvirðingin er því í núlli og sagan sem hún segir Seligman er ekki alltaf falleg.

Handrit myndarinnar er snilldin ein og samtöl Seligmans og Joe eru á köflum alveg meiriháttar; fyndin, harmræn og á milli línanna leynist oft hyldjúp merking sem knýr áhorfandann áfram út í alls konar pælingar. Samspil þessara ólíku manneskja er unun á að horfa. Þau tala alveg í kross. Joe ryður upp úr sér blautlegum lýsingum á ótal kynlífsævintýrum sínum en Seligman setur þær jafn óðum í menningarsögulegt og jafnvel stærðfræðilegt samhengi, auk þess sem hann sér margar hliðstæður við stangveiðar í ríðingaferli Joe. Þessi atriði þeirra tveggja eru undarleg en dásamleg upplifun. Undursamleg er sennilega rétta orðið.

Að sjálfsögðu eru drungalegir þunglyndistónar Triers á sínum stað en Nymphomaniac er samt sem áður líka drepfyndin, átakanleg, erfið, falleg, grótesk, harmþrungin, sprellfjörug, útpæld, blaut, gröð og gáfuleg. Trier leyfir sér alls konar takta og frávik í frásagnarhættinum. Kemur eiginlega með sjónrænar neðanmálsgreinar við marglaga og áhugaverða söguna.

Myndin er gegnumsneitt frábærlega leikin en Stellan Skarsgård gnæfir þó yfir leikhópnum þar sem hann túlkar sérvitringinn Seligman af hárfínu næmi með hljóðlátri hægð. Í þessum fyrri hluta mæðir ekki mikið á Charlotte Gainsbourg í hlutverki Joe en hún nær strax föstum tökum á manni og maður bíður spenntur eftir því að sjá hana yfirtaka Volume II og ríða sig í gegnum hana.

Stacy Martin leikur Joe á yngri árum í þessum hluta og á í manni hvert bein þar sem hún túlkar þessa brothættu, skemmdu, kaldlyndu en um leið hörðu konu með slíkum bravúr að mann skortir orð. Christian Slater er meira að segja góður í hlutverki föður Joe og vekur samúð áhorfandans. Uma Thurman á rosalega innkomu í einu allra besta atriði myndarinnar sem er óborganlega fyndið og skelfilega sorglegt í sömu andrá. Þetta atriði súmmerar eiginlega myndina upp. Þetta er tragikómedía löðrandi í kynlífi og vessum. Maður getur helst sett út á að örlagagerpið Shea LaBeouf sé að þvælast þarna en sá maður er mest óþolandi kvikindi sem Hollywood hefur getið af sér í áratugi. Bölvaður sé Steven Spielberg fyrir að hafa gert þann mann óverðskuldað að stjörnu! En hann hefur oft verið verri og nær ekki að eyðileggja neitt að ráði hér.

Í lok Volume I er okkur gefin smá innsýn í hvaða ósköp bíða okkar í mars þegar Volume II  kemur í bíó og allt bendir til þess að þar verði bægslagangurinn í ríðingunum öllu meiri og vel má vera að Trier takist að sjokkera á endasprettinum. Haldi hann aftur á móti sama dampi og í fyrri hlutanum verður maður líklega að viðurkenna að Nymphomaniac sé einhvers konar meistaraverk. Og óháð því hvað gerist næst mun Volume I standa sem stórmerkileg og áhugaverð tilraun sem fólk ætti alls ekki að hlífa sér við að sjá.

Leikstjóri: Lars von Trier
Handrit: Lars von Trier
Leikarar: Charlotte Gainsbourg, Stellan Skarsgård, Stacy Martin, Shia LaBeouf, Christian Slater, Uma Thurman, Sophie Kennedy ClarkSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða