A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Oblivion | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Oblivion (2013)

15. apríl '13 10:51 Oblivion

„Ísland stendur sig frábærlega í mikilvægu aukahlutverki og líklega hefur aldrei sést jafn mikið af fósturjörð vorri í stórri Hollywood-mynd. “

Jörðin er orðin eyðiland á síðari hluta 21. aldarinnar eftir náttúruhamfarir og kjarnorkustríð við innrásarher utan úr geimnum. Þeir sem lifðu hörmungarnar hafa yfirgefið plánetuna og komið sér fyrir á Títan, einu tungla Satúrunusar. Einhverra hluta vegna þarf mannkyn samt að viðhalda þeim náttúruauðlindum sínum sem ekki eru ónýtar og virkja heimshöfin sem með einhverjum fáránlegum rökum gagnast nýlendunni í grennd við Satúrnus og eru þeim sem þar halda til lífsnauðsynleg.

Tom Cruise og  Andrea Riseborough leika hjónin Jack og Victoriu sem voru skilin eftir í auðninni til þess að sjá um viðhald á þeim endurvinnslugræjum sem þar eru í gangi og ekki síst halda gangandi svífandi drápsvélum, sem kallast víst „drónar“ í daglegu tali, sem svífa um og uppræta leyfarnar af innrásarhernum illa.

Jack þykir ósköp vænt um jörðina sína og vill tregur fara til Títan en brottför er yfirvofandi þar sem verki hjónanna er að ljúka. Victoria getur hins vegar ekki beið eftir því að komast burt. Skiljanlega þar sem jarðvist þeirra tveggja er að vonum tíðindalítil, hreint út sagt bara drepleiðinleg. Fábreytileg tilvera Jacks fer á hliðina og hann í talsvert uppnám þegar kona, sem hann kannast við úr draumum sínum, fellur af himnum ofan og byltir hugmyndum hans um tilgang hans á jörðinni. Olga Kurylenko leikur þessa dularfullu konu en í kjölfar hennar skýtur sjálfur Morgan Freeman upp kollinum með sólgleraugu og vindil og Jack sannfærist þá um að hann er ekki eins einn í heimunum og hann hélt og að ekki er allt sem sýnist.

Leikstjórinn Joseph Kosinski (TRON: Legacy) byggir Oblivion á eigin myndasögu sem hefur ekki enn verið gefin út og ekki er nú frumleikanum fyrir að fara þótt hann bjóði upp á ágætis sjónarspil. Engu líkara er en hann hafi tekið Total Recall og Logan´s Run og skelt í blandara með smá slettu af The Matrix og grautað þessu öllu saman í loðmulluna sem Oblivion er.

Hann hefur því óhjákvæmilega úr ansi mörgum hugmyndum að vinna sem skilar sér því miður fyrst og fremst í því að myndin er of löng og það sem verra er fremur langdregin framan af. Leikstjóranum tekst að vísu að gera leiðnlega dvöl hjónanna á jörðinni nokkuð áþreifanlega með því að láta áhorfendur leiðast með þeim og þegar það sem kalla má hasar hrekkur í gang er það allt saman ósköp staðlað og fyrirsjáanlegt.

Kosinski langar greinilega að segja mjög stóra sögu með sígildum klisjum um styrk mannsandans en þar sem sagan er honum greinilega miklu mikilvægari en persónurnar verður þetta allt saman frekar andlaust og ristir grunnt. Cruise er auðvitað bara Cruise, alltaf sama pappaspjaldið í mismunandi aðstæðum, og Kurylenko nær heldur ekki að smeygja sér innundir hjá áhorfendum. Morgan Freeman er jafn ábúðarmikill og gáfulegur og venjulega. Þegar sá maður talar hlustum við en hann hefur ekkert rosalega margt skemmtilegt til málanna að leggja að þessu sinni.  Andrea Riseborough kemur hins vegar krepptum tilfinningum Victoriu ágætlega til skila og tekst að skapa einu persónuna í myndinni sem maður veit ekki alltaf nákvæmlega hvar maður hefur.

Ísland stendur sig frábærlega í mikilvægu aukahlutverki og líklega hefur aldrei sést jafn mikið af fósturjörð vorri í stórri Hollywood-mynd. Þeir sem hafa verið duglegir að ferðast um landið ættu því að kannast við sig víða í heimsendalandi Oblivion og Kosinski á að sjálfsögðu hrós skilið fyrir að bjóða frekar upp á alvöru landslag heldur en tölvugerðan heim. Þetta er allt saman mjög smart og í raun gæðir landslagið myndina meira lífi en persónur og leikendur.

Oblivion er þannig vönduð og áferðarfögur mynd, á sína spretti en nær aldrei almennilega flugi eða tökum á manni og hún er svo stefnulaus að maður spyr sig hvaða erindi Kosinski taldi sig eiginlega eiga með henni. Það gerir manni svosem ekkert að horfa á hana en hún skilur lítið eftir sig og maður hefði ekki verið að missa af neinu þótt hún hefði aldrei verið gerð og hlotið sömu örlög og myndasagan sem hún byggir á og kom aldrei út.

Leikstjóri: Joseph Kosinski
Handrit: Joseph Kosinski, Karl Gajdusek
Leikarar: Tom Cruise, Olga Kurylenko, Andrea Riseborough, Morgan Freeman, Nikolaj Coster-WaldauSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða