A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Oldboy | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Oldboy (2003)

27. desember '11 11:31 Oldboy

„Myndatakan er brjálæðislega stílfærð og miklir fimleikar eru leiknir með tökuvélinni. Þá er þess alltaf gætt að passa upp á töffið, sem lekur nánast af hverjum ramma.“

Glæpamyndin Oldboy frá Kóreu sló í  gegn árið 2003 og hugmyndir um ameríska endurgerð hafa lengi verið á sveimi. Spike Lee ætlar sér að klára það verkefni og ef að líkum lætur mun Josh Brolin leika aðalhlutverkið á móti Christian Bale sem fer með hlutverk illmennisins. Svarthöfði sér því ástæðu til þess að rifja aðeins upp skelfilegar hremmingar  Oh Dae-Su.

Þegar Oh Dae-Su er á fylliríi er honum rænt. Hann rankar við sér í ókunnri íbúð og kemst fljótt að því að hann er lokaður inni í snyrtilegu fangelsi. Sjónvarpið er eini tengiliður hans við umheiminn og í fréttunum kemst hann að því að eiginkona hans og dóttir hafi verið myrtar og hans sé leitað enda grunaður um verknaðinn.

Íbúðinn verður heimili Dae-Su í fimmtán ár en tímann notar hann til að undirbúa flótta og reyna að finna út hver það er sem hefur gert honum þennan óleik. Listinn sem hann gerir yfir óvini sína er langur en enginn virðist þó geta átt svo margt sökótt við hann að hefndin gæti falist í því að svipta hann fjölskyldunni og lífinu, án þess að drepa hann.

Dae-Su er svo skyndilega sleppt eftir fimmtán ár í prísundinni. Þá brýst út fimmtán ára heift og reiði hans fram í trylltum hefndarþorsta þegar hann leitar logandi ljósi að ósýnilega fangaverðinum sínum. Honum verður fljótt ágengt í leitinni og lendir upp á kant við alls konar illþýði í einhverjum mögnuðustu slagsmálaatriðum síðari ára þar sem uppsöfnuð reiðin gefur honum ofurmannlega krafta sem maður efast einhvern veginn ekkert um að þessi undarlegi maður geti búið yfir.

Oldboy er sjónrænt listaverk og það borgar sig því í raun að segja sem minnst um hana. Þetta er mynd sem maður á að upplifa. Myndatakan er brjálæðislega stílfærð og miklir fimleikar eru leiknir með tökuvélinni. Þá er þess alltaf gætt að passa upp á töffið, sem lekur nánast af hverjum ramma. Sagan sjálf er líka í meira lagi bitastæð og átakanleg en það syrtir stöðugt í álinn eftir því sem Dae-Su kemst nær óvildarmanni sínum og sameiginlegu leyndarmáli þeirra sem á rætur í æsku þeirra. Það verður ekki af Asíumönnum tekið að þeir kunna öðrum fremur að búa til svalar hasarmyndir sem eru keyrðar áfram af tilfinningum og stílfærðu ofbeldi.

Oldboy er með því besta sem hefur komið úr þessari átt lengi, hressileg tilbreyting frá hefðbundum spennumyndum. Þetta meistarastykki frá Kóreu er fantavel leikið, fullt af stílfærðum slagsmálum og krassandi ofbeldi.
 

Leikstjóri: Chan-wook Park
Handrit: Garon Tsuchiya, Nobuaki Minegishi
Leikarar: Min-sik Choi, Ji-tae YuSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða