A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Olympus Has Fallen | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Olympus Has Fallen (2013)

20. apríl '13 15:06 Olympus Has Fallen

„Þótt Olympus Has Fallen sé keimlík ævintýrum Johns McClane í Nakatomi-byggingunni í Die Hard reynist hún vera þokkalegasta skemmtun.“

Ósvífnir hryðjuverkamenn gera allsherjarárás á Hvíta húsið, ná því á sitt vald og handsama forseta Bandaríkjanna. Þeir reikna þó ekki með brottreknum lífverði forsetans sem stendur einn í vegi þeirra og gæti sett áætlanir þeirra í uppnám.

Olympus Has Fallen er önnur tveggja mynda sem koma út á þessu ári og mætti stimpla sem „Die Hard í Hvíta húsinu” en hin er White House Down með Channing Tatum og Jamie Foxx í sviðuðum aðstæðum og Gerard Butler er hér í. Antoine Fuqua leikstýrir þessari hasarveislu sem Íslendingurinn Katrin Benedikt skrifar ásamt Creighton Rothenberger.

Uppbygging Olympus Has Fallen minnir um margt á Die Hard þar sem John McClane sallaði niður óþverra eins síns liðs. Atburðarásin er afar hröð og þétt og aðstandendur fá prik fyrir að halda spennunni gangandi. Þeir ganga skrefinu lengra í ofbeldi og fantaskap en gengur og gerist í myndum af þessu tagi þannig að á köflum jaðrar ofbeldið við hreinan subbuskap sem er svosem í lagi fyrir reyndustu hasarfíkla.

Butler hefur ekki átt sjö daganna sæla síðustu misseri þar sem hann hefur spólað í hverju miðjumoðinu á fætur öðru en stimplar sig aftur rækilega inn með Olympus Has Fallen. Hlutverk brottrekna lífvarðarins reynir þó lítið á Butler þar sem þetta gengur mestmegnis út á byssuhasar og slagsmál og hann er seigur í síkum málum. Aaron Eckhart leikur forsetann og Morgan Freeman þenur sig sem forseti fulltrúadeildar þingsins en er almennt illa nýttur.

Þótt Olympus Has Fallen sé keimlík ævintýrum Johns McClane í Nakatomi-byggingunni í Die Hard reynist hún vera þokkalegasta skemmtun. Sé sérstakur vilji fyrir hendi má auðvitað taka myndina niður á gloppum í handritinu en höfundarnir teygja sig ansi langt til þess að koma hasarnum í gang. Þannig má til dæmis spyrja sig hvernig í ósköpunum sé hægt að fljúga risastórri flugvél inn í lofthelgi Bandaríkjanna og lenda henni í túnfætinum hjá forseta landsins en ef komið hefði í veg fyrir það með eðlilegu eftirliti hefði grundvöllur myndarinnar gufað upp.

Leikstjóri: Antoine Fuqua
Handrit: Katrin Benedikt, Creighton Rothenberger
Leikarar: Gerard Butler, Aaron Eckhart, Morgan Freeman, Dylan McDermott, Angela Bassett, Melissa Leo, Cole HauserSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða