A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Only God Forgives | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Only God Forgives (2013)

31. júlí '13 18:26 Only God Forgives

„Refn hefur látið þau orð falla í kynningu á myndinni að „ef Drive var eins og gott kókaín, þá er Only God Forgives eins og góð sýra.“ Og þetta eru engar ýkjur því Only God Forgives er ótrúlega sérstök, seiðandi og ánetjandi kvikmynd sem á sér enga hliðstæðu.“

Julian rekur bardagaklúbb með bróður sínum í Bangkok og þar er ekki allt með felldu. Þegar bróðir hans er drepinn ætlar Julian að hafa hendur í hári morðingjans en þegar í ljós kemur að bróðir hans drap unga stelpu ákveður hann að láta kyrrt liggja. Móðir þeirra bræðra er samt á öðru máli og vill ná fram hefndum.

Danski leikstjórinn Nicolas Winding Refn gerði síðast meistarastykkið Drive fyrir tveimur árum og hlaut fyrir vikið verðlaun sem besti leikstjórinn á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Aðdáendur Drive hafa staðið á öndinni af eftirvæntingu eftir nýjasta útspili leikstjórans þangað til Only God Forgives leit dagsins ljós á Cannes í ár. Viðtökurnar voru blendnar í Cannes en líkt og búast mátti við er um einstaka mynd að ræða.

Refn tileinkar leikstjóranum Alejandro Jodorowsky myndinni og þeir sem þekkja til þessa sérkennilega leikstjóra geta gefið sér hugmynd um hvað sé í vændum. Only God Forgives svipar til fyrri myndar Refns, Valhalla Rising, þar sem aðalpersónan var mállaus. Hér segir Julian, sem Ryan Gosling leikur, fátt og flest samskipti fara fram með augngotum og aðgerðum. Refn snertir á ýmsum flötum í myndinni; endurlausn, kvalarlosta, ödipusarduld og baráttu góðs og ills en einhvers staðar þar á milli liggur þungamiðja myndarinnar.

Rétt eins og í Drive er Only God Forgives hæg og þótt atburðarrásin stigmagnist jafnt og þétt er hún jafnvel of hæg fyrir einhverja áhorfendur. Eins og búast má við frá Refn vantar hvorki ofbeldi né blóðsúthellingar og einhver atriði gætu farið fyrir brjóstið á áhorfendum. Refn leikur sér með liti og myndatöku sem er sérlega góð. Þá setur mergjuð og eftirminnileg tónlist Cliff Martinez, þess sama og gerði tónlistina í Drive, svip á myndina.

Eins og í Drive treystir Refn á Gosling í aðalhlutverkinu og hann skilar Julian vel. Hann hefur góð tök á persónunni sem er ekki öll þar sem hún er séð en Julian er sem fyrr segir þögull en að sama skapi sjarmerandi og dularfullur. Vithaya Pansringarm er magnaður í hlutverki lögreglumannsins Chang sem líta má á sem hálfgerðan hefndarengil. Chang heldur jafnvægi milli tveggja heima og trúir á réttlæti, hvort sem því er náð fram með hnefunum, sverði eða öðrum hætti. Kristin Scott Thomas er einnig afar sannfærandi í hlutverki syrgjandi móður í hefndarhug sem fyrirskipar blóðsúthellingar í nafni fjölskyldunnar.

Refn hefur látið þau orð falla í kynningu á myndinni að „ef Drive var eins og gott kókaín, þá er Only God Forgives eins og góð sýra.“ Þetta sagði hann meðal annars kampakátur áður en viðhafnarfrumsýning myndarinnar á Íslandi hófst. Og þetta eru engar ýkjur því Only God Forgives er ótrúlega sérstök, seiðandi og ánetjandi kvikmynd sem á sér enga hliðstæðu.

Leikstjóri: Nicolas Winding Refn
Handrit: Nicolas Winding Refn
Leikarar: Ryan Gosling, Vithaya Pansringarm, Kristin Scott ThomasSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða