A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Pacific Rim | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Pacific Rim (2013)

18. júlí '13 13:17 Pacific Rim

„Hér er ekkert verið að flækja hlutina; þetta eru risastór vélmenni að berjast við risastór skrímsli. Sem sagt sumarsmellur í orðsins fyllstu merkingu.“

Þegar hersveitir risavaxinna skrímsla rísa upp úr sjónum og herja á mannkynið er gripið til þess ráðs að smíða vélmenni til þess mæta skrímslunum.

Mexíkóski leikstjórinn Guillermo del Toro hefur skapað sér nafn sem einn af frumlegustu kvikmyndagerðamönnum samtímans með myndum eins Pan's Labyrinth og The Devil's Backbone. Þær tvær eru án efa bestu myndir leikstjórans en þá hefur hann einnig sent frá sér myndir eins og Hellboy og framhald hennar ásamt Blade II sem hafa fallið í misgóðan farveg. Del Toro virkar á mann eins og dellukall (í jákvæðustu merkingu þess orð) sem gerir kvikmyndir sem hann sjálfur vill sjá, og sést það langar leiðir í Pacific Rim.

Del Toro býður áhorfendum upp á mikið sjónarspil og hvergi er slakað á kröfunni um skemmtanagildi. Að sjá hvernig þessir risajötnar tuska hvern annan til og traðka niður byggingar og aðra hluti sem verða í vegi þeirra, er afar góð skemmtun. Fjölbreytt bardagaatriði og ofursvalur bardagastíll vélmennanna og skrímslanna er eins og að sjá samsuðu af fjölbragðaglímu og samúræja að berjast við Godzilla.

Í byrjun myndarinnar er áhorfendum sagt frá hvernig ástandið er eftir innrás skrímslanna og gefin góð hugmynd um hvernig vélmennunum er stjórnað. Það er ekki verið að draga áhorfendur í gegnum þreytandi og óþarfa upprunasögu þar sem farið er í saumana á hvernig þjálfun stjórnenda vélmennanna fer fram. Heldur rokið beint í hasarinn og hann stendur svo sannarlega undir nafni.

Vélmennin og skrímslin varpa skugga á leikarana þannig að vandséð er hverjir eru í raun í aðalhlutverki. Stórglæsileg og fjölskrúðug hönnun skrímslanna og ofursvalt útlit vélmennanna spilaa ansi stórt hlutverk. Tæknibrellurnar eru virkilega flottar og má hvergi finna veikan hlekk á tæknilegu hlið myndarinnar.

Charlie Hunnam og Rinko Kikuchi fara með hlutverk samstiltra stjórnenda vélmennis og skila sínu vel. Idris Elba stelur þó senunni sem þaulreyndur yfirmaður vélmennahópsins og Ron Perlman á góða innkomu sem svartamarkaðsbraskari á skrímslakjöti og öðrum skrímslaafurðum.

Hér er ekkert verið að flækja hlutina; þetta eru risastór vélmenni að berjast við risastór skrímsli. Sem sagt sumarsmellur í orðsins fyllstu merkingu. Ef það heillar ekki þá er Pacific Rim ekki fyrir viðkomandi, svo einfalt er það.

Leikstjóri: Guillermo del Toro
Handrit: Guillermo del Toro, Travis Beacham
Leikarar: Charlie Hunnam, Idris Elba, Rinko Kikuchi, Charlie Day, Clifton Collins Jr., Ron PerlmanSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða