A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Pain & Gain | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Pain & Gain (2013)

19. júní '13 17:47 Pain & Gain

„Pain & Gain er án efa furðulegasti kokteill sem Bay hefur hrært saman en jafnframt virkilega skemmtileg og snargeggjuð mynd. “

Vöðvatröllið Daniel Lugo er orðinn þreyttur á stöðu sinni í lífinu og ákveður að gera eitthvað í málunum. Hann sannfærir tvo vini sína um að ganga til liðs við sig og ræna auðugum viðskiptamanni og hafa þannig af honum fé. Vöðvabúntin sjá fyrir sér bjarta framtíð en missa fljótlega allt niður um sig og eru í enn verri málum en áður.

Sprengjusérfræðingurinn Michael Bay tekur sér frí frá yfirkeyrðum brellumyndum en er þó sjálfum sér líkur í svörtu kómedíunni Pain & Gain. Eins ótrúlega og það kann að hljóma þá er viss Coen-bræðra bragur yfir myndinni og í upphafi er áhorfendum gerð grein fyrir því að myndin sé „því miður byggð á sönnum atburðum".

Bay meðhöndlar efniviðinn þannig að ekki fer á milli mála að verið er að gera grín að steraboltunum og takmörkuðum vitsmunum hinna stæltu félaga. Þannig eru miður geðslegir atburðir einfaldaðir og mildaðir en þetta er auðvitað bíó og því allt leyfilegt. Sé horft fram hjá ömurlegum rauneruleikanum sem myndin sækir innblástur til þá er Pain & Gain, furðuskemmtileg og fyndin. Bay heldur sig við stílbrögð sín sem ganga út á að keyra allt áfram á yfirsnúningi og hér sleppir hann fram af sér beislinu og fellur myndtakan og klippingin vel að efninu.

Áhorfendur fá að horfa upp á ýmsan viðbjóð í gegnum myndina en oftast nær er hann settur fram á fyndinn hátt. Aðgerðir þremmenninganna eru vitaskuld hlægilegar en þó má ekki gleyma því að myndin byggir á raunverulegum atburðum og þótt aðstandendur taki sér óhjákvæmilega skáldaleyfi hér og þar þá myrtu líkamsræktartröllin raunverulegt fólk með köldu blóði.

„Ameríski draumurinn" í allri sinni dýrð er áberandi leiðarstef í myndinni. Lugo, sem Mark Wahlberg leikur, segir að Tony Montana úr Scarface, kvikmynd Brians De Palma, sé ein af fyrirmyndum hans. Scarface-heilkennið, sem hrjáir fjölda glæpamanna og þá sem þrá hið ljúfa líf glæponanna, ætti í raun að vera viðurkenndur geðsjúkdómur. Ljósaböð, Adidas-joggingföt og sterar eru helstu birtingarmyndir þessa andlega meins.

Vöðvatröllin þrjú eru vissulega vond og Bay er ekkert að fegra það. Ákvarðanir og gjörðir þeirra eru réttlætar í nafni þess að þeir eigi rétt á að upplifa „ameríska draumnum". Hegðun persónanna og þær sjálfar, að vissu leyti, eru því upphafnar í myndinni. Þar kemur Scarface-heilkennið sterkt inn og áhorfendur þurfa að sjá í gegnum glamúrinn og ruglið og átt sig á að ákvarðanir persónanna eru vitaskuld siðferðilega kolrangar og jaðra oft við að vera sturlaðar.

Leikhópurinn er stórgóður og má með vissu segja að Bay hafi aldrei leikstýrt jafn hæfileikaríkum leikurum og hér. Þeir Dwayne Johnson, sem eitt vöðvabúntanna, og Tony Shaloub, sem fórnarlamb þeirra þremenninga, stela senunni. Johnson er grjótharður að vanda og þess á milli ljúfur sem lamb sem þiggur gylliboð siðblindingjans Lugo sem Wahlberg leikur. Wahlberg hefur massað sig ótrúlega upp fyrir myndina sem honum furðuvel. Anthony Mackie leikur þriðja vöðvabúntið í teyminu og Ed Harris kemur sterkur inn sem spæjari sem rannsakar þá kumpána

Pain & Gain er án efa furðulegasti kokteill sem Bay hefur hrært saman en jafnframt virkilega skemmtileg og snargeggjuð mynd. Ekki hægt að segja að myndin sé fyrirsjáanleg eða tilgerðarleg þar sem þessi saga er lyginni líkust. Lugo segist í byrjun myndarinnar trúa á hreysti og þar með er búið að festa takmarkanir hans rækilega niður í hugum áhorfenda. En ég get rétt eins sagst trúa á Michael Bay en áhorfendur þurfa í raun ekki annan mælikvarða á myndina en álit þeirra á Bay eða hans mynda. Trúaðir og trúlausir vita nákvæmlega að hverju þeir ganga og hvort þeirra bíði erfiði eða ágóði.

Leikstjóri: Michael Bay
Handrit: Christopher Markus, Stephen McFeely, Pete Collins
Leikarar: Mark Wahlberg, Dwayne Johnson, Anthony Mackie, Tony Shalhoub, Ed Haris, Rob Corddry, Rebel Wilson, Ken JeongSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða