A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Paranormal Activity | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Paranormal Activity (2007)

21. september '12 12:34 Paranormal Activity

„Ekki eru þær margar hrollvekjurnar sem hafa látið mig ríghalda í armana á sætinu og langað að skrækja eins og smástelpa, en Paranormal Activity er ein þeirra.“

Hjón verða vör við ýmsa yfirnáttúrulega hluti í húsinu sínu að næturlagi: raddir, andardrátt og klór á veggjum. Katie er sannfærð um að þar sé einhver vera sem vill þeim illt, og ákveður Micah að setja upp myndavél í svefnherbergi þeirra til þess að fylgjast með verunni.

Paranormal Activity er ansi tilkomumikil frumraun leikstjórans og handritshöfundarins Oren Peli. Líkt og í kvikmyndinni Blair Witch Project er áhorfendum talið trú um að hér sé á ferðinni raunverulegt myndefni. Allir leikarar myndarinnar eru óþekktir og myndin er öll tekin upp á handhelda myndavél sem er meðhöndluð af aðalleikurunum. Í raun er uppsetning myndarinnar eins einföld eins og hægt er að hugsa sér. Áhorfendur fylgjast með daglegum hlutum í lífi þeirra hjóna og að næturlagi heimsækir yfirnáttúruleg vera þau.

Leikstjóranum Peli tekst með persónulegu útliti og áferð myndarinnar að skapa eitt magnaðasta andrúmsloft í hrollvekju sem ég hef upplifað í langan tíma. Hjónakornin eru leikin af nýstirnunum Katie Featherston og Micah Sloat, og eru þau virkilega sannfærandi í hlutverkum sínum. Taugaveiklun og óðagot þeirra eru ekki frábrugðin þeim sem maður einmitt hefði haldið að fólk myndi grípa til við samskonar aðstæður.

Nánast allar hrollvekjur í dag einblína á snögga klippingu, hraða myndatöku og virðast aðstandendur alltaf stíga sama feilskrefið: að afhjúpa andstæðinginn of snemma, en það gerist ekki í Paranormal Activity. Ekki eru þær margar hrollvekjurnar sem hafa látið mig ríghalda í armana á sætinu og langað að skrækja eins og smástelpa, en Paranormal Activity er ein þeirra.

Leikstjóri: Oren Peli
Handrit: Oren Peli
Leikarar: Katie Featherston, Micah Sloat og Mark FredrichsSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða