A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Point Break | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Point Break (1991)

7. janúar '13 15:20 Point Break

„Þrátt fyrir nokkuð góð og traust hasaratriði þá er lítið meira varið í myndina. Arfleið Point Break er að hafa verið stæld á óborganlegan máta í Hot Fuzz og lifir hún því góðu lífi í minningunni og þannig er best að halda henni.“

Alríkislögreglan reynir að hafa hendur í hári bankaræningja sem fela andlit sín bak við grímur af andlitum fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Ungur og efnilegur alríkislögreglumaður siglir undir fölsku flaggi og reynir að komast í kynni við ræningjanna og vinnur út frá þeirri kenningu að þeir séu brimbrettakappar.

Það er hægara sagt en gert að troða Point Break niður í einhverskonar flokk eða flokka. Brimbretta-fallhlífastökks-ráns-mynd gengur seint en svona til þess að halda boltanum gangandi þá gerir Point Break það sama fyrir brimbrettasportið og The Fast and the Furious gerir fyrir kappakstur.

Kathryn Bigelow, sem síðar átti eftir að landa Óskarsverðlaunum fyrir The Hurt Locker, leikstýrir myndinni og sterk tök hennar á hasaratriðum eru það besta við myndina. Hvort sem um er að ræða bílaeltingaleiki, skotbardaga eða brimbrettaatriði þá hefur Bigelow góða stjórn á öllu saman. Handritið er hins vegar afleitt. Söguþráðurinn er algjörlega út í hött og er varla þverfótandi fyrir réttlætingum á adrealín-atriðum, hvort sem það eru brimbretta- eða fallhlífastökksatriði, sem myndin er skrifuð í kringum. Sum atriðanna leiða ekki til neins og fer síðasti hálftíminn í tóma þvælu.

Leikurinn er á pari við handritið með ungum Keanu Reeves í hlutverki alríkislögreglumannsins. Hann dettur inn og út úr karakter sem virðist álíka gáfaður og pappakassi og vandséð hvernig hann á að hafa komist í gegnum hæfnispróf FBI.
Patrick Swayze er öllu skárri en það er varla hægt að halda aftur glottinu yfir þeim atriðum sem þeir félagar eiga saman. Ótrúlegt en satt þá á gamla kempan Gary Busey bestu atriðin í myndinni og er kærkomin tilbreyting að hafa hann í öðru hlutverki en hlutverk skúrksins eða handbendi illmenna.

Þrátt fyrir nokkuð góð og traust hasaratriði þá er lítið meira varið í myndina. Arfleið Point Break er að hafa verið stæld á óborganlegan máta í Hot Fuzz og lifir hún því góðu lífi í minningunni og þannig er best að halda henni.

Leikstjóri: Kathryn Bigelow
Handrit: Rick King & W. Peter Iliff
Leikarar: Patrick Swayze, Keanu Reeves, Gary Busey, Lori Petty, John C. McGinleySvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða