A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Porky's | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Porky's (1982)

13. mars '12 13:07 Porky's

„Dugi sturtusenan ekki til má vera að plottlykilorðin sem Imdb.com nefnir fyrir Porky´s, Bare Breasts / Bare Butt / Crude Humour / Cult Comedy, kveiki áhuga hjá einhverjum. Gerðu það í það minnsta hjá mér fyrir þrjátíu árum.“

Ekki alls fyrir löngu keypti ég í einhverju nostalgíukasti unglingamyndirnar Porky's og Porky's II: The Next Day saman á DVD. Líklega í þeirri góðu trú að ég gæti haft gaman að því að horfa aftur á Porky´s sem maður svindlaði sér inn á í Bíóhöllinni á tólfta aldursári í góðri von um að sjá glitta í konubrjóst í bíó.  Porky's sveik svosem ekki hvað það varðaði og við strákarnir sem vorum rétt komnir með hvolpavit fengum heldur betur glaðninginn þegar aðalpersónur myndarinnar gægðust inn í stelpusturtuklefann í skólanum.

Þetta hefur sennilega dugað til þess að manni hafi  bara fundist Porky´s vera ferlega góð mynd og í raun kom mér á óvart, tæpum þremur áratugum síðar, hversu skelfilega leiðinleg myndin er. Hef ekki einu sinni nennt að kíkja aftur á  Porky's II, sem ég man ekkert eftir, og mun sjálfsagt aldrei gera það.

Porky's er eina mynd þessarar gerðar frá þessum árum sem er þó það nafntoguð að fólk á mínum aldri veit hvað um er rætt þegar nafnið skýtur upp kollinum. Myndin gerist árið 1954 og segir frá hópi skólastráka sem finnst mikilvægast af öllu í lífinu að fara nú að drífa í því að missa sveindóminn. Þeir nurla því saman peningum og halda á næturklúbbinn Porky´s í útjaðri bæjarins vongóðir mjög um að stúlkurnar sem þar dansa muni leysa þá úr viðjum reynsluleysis í kynlífinu.

Eigandi Porky´s heitir einmitt Porky og er einhvers konar Geiri Goldfinger með kúrekahatt. Þéttholda karl sem hefur sérlega gaman að því að féflétta unga vitleysinga þannig að um leið og hann hefur náð fénu af drengjunum lætur hann þá gossa ofan í fúafen undir staðnum án þess að þeir fái neitt fyrir sinn snúð. Og þar sem bróðir Porky´s er löggustjórinn í bænum er vitavonlaust fyrir strákana að leita réttar síns. Þeir hyggja því á hefndir og tekst með samstilltu átaki að launa Porky lambið gráa.

Í dag er Porky´s langdregin, frekar leiðinleg og ósköp lítið spennandi. Hún hefur þó dálítið sagnfræðigildi og þar má til dæmis sjá unga Kim Cattrall (sem varð löngu síðar hin spólgraða Samantha í Sex and the City), dökkhærða í hlutverki leikfimikennarans Honeywell. Hún er uppnefnd Lassie vegna þess hversu innilega og ákaft hún spangólar í samförum og sjálfsagt á atriði þar sem frygðaróp hennar bergmála um skólann að vera vandræðalega fyndið. Var það kannski í den en ekki lengur.

Porky´s er annars, líkt og Psycho, þekktust fyrir sturtusenu þótt ólíkar séu en myndin nær hápunkti þegar strákarnir finna gægjugat á sturtuklefa stelpnanna og kíkja á þær eftir leikfimi. Einn þeirra bregður á leik og skemmtir stúlkunum með því að stinga fermingarbróðurnum í gegnum gatið en fær meir en hann reiknaði með þegar hin mjög svo íturvaxna leikfimikennslukona Balbricker kemur aðvífandi, grípur í vininn og togar hraustlega í. Það atriði er enn pínu sniðugt og kannski vel þess virði að renna myndinni í gegn.

Dugi sturtusenan ekki til má vera að plottlykilorðin sem Imdb.com nefnir fyrir Porky´s, Bare Breasts / Bare Butt / Crude Humour / Cult Comedy, kveiki áhuga hjá einhverjum. Gerðu það í það minnsta hjá mér fyrir þrjátíu árum.

Leikstjóri: Bob Clark
Handrit: Bob Clark
Leikarar: Dan Monahan, Mark Herrier, Wyatt Knight, Kim CattrallSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða