A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Public Enemies | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

DVD: Public Enemies (2009)

20. janúar '12 07:36 Public Enemies

„Þrátt fyrir slíka þungavigtar leikara og leikstjóra er Public Enemies langt frá því að standa undir væntingum.“

Árið 1933 reið glæpaalda yfir götur Chicago. J. Edgar Hoover, stjórnandi bandarísku Alríkislögreglunnar, stofnaði sérstaka deild sem sérhæfði sig í að stöðva bankaræningjann John Dillinger. Hoover fól alríkislögreglumanninum Melvin Purvis það verk að leiða þessa sérstöku deild, og innan skamms var hann kominn fast á hæla Dillingers.

Það fer ekkert á milli mála að það er sannkallaður Óskarsbragur yfir Public Enemies með leikstjórann Michael Mann við stjórnvölinn og Johnny Depp í hlutverki Dillingers. En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Mann hefur fyrir löngu sannað sig sem sterkur og öruggur leikstjóri. Kvikmyndir á borð við The Last of the Mohicans, Heat og The Insider eru meðal hans bestu mynda. Honum tekst að ná því besta fram úr aðalleikurum sínum eins og sést í fyrrnefndum myndum, og á það áfram við hérna.

Mann hefur þróað nýjan stíl sem hefur verið styrkur hans í síðustu myndum, Miami Vice og Collateral, sem fór þeim vel en passar alls ekki við tímabilsmynd á borð við þessa. Handritið er óhnitmiðað, stiklað er á stóru og jafnvel hoppað yfir nokkur atriði, þá sérstaklega ástarsamband Dillingers og Billie Frechette. Samband þeirra þróast ekki almennilega og verður enginn grundvöllur fyrir því. Samtöl þeirra eru auk þess ótrúverðug og þvinguð. Enginn fókus virðist vera á hvort það eigi að fjalla um Dillinger, ástarsamband hans eða hvers konar áhrif Dillinger hafði á bandaríska sögu. Í lok myndarinnar er farið í eftirmála um hvað varð um Frechette og þá sem tóku þátt í fyrirsátinni gegn Dillinger, en ekkert fjallað um hvað varð um Purvis eða deildina sem hann rak eða hvernig Dillinger hafði áhrif á þróun bandarísku Alríkislögreglunnar.

Myndatakan er einhver sú versta sem ég hef séð í kvikmynd í langan tíma. Það er hvergi stuðst við kyrran flöt og ramminn er á fleygiferð alla myndina. Stórfurðulegt að fara þessa nýstárlegu leið í tímabilsmynd á borð við þessa. Búningar og sviðsmynd eru í anda tímabilsins, þá er tekin sú ákvörðun að hafa myndatökuna alla í nærmynd og hvergi rými til þess að njóta atriðanna.

Það verður ekki frá Depp tekið að hann lifir sig svo sannarlega inn í hlutverk Dillingers og gerir það að sínu eigin. Þrátt fyrir að vera„óvinur almennings" hafði Dillinger vissan sjarma yfir sér sem almenningi líkaði, og nær Depp honum vel. Að vera viðkunnanlegur glæpon er ekki sjálfgefið. Christians Bale hefur átt betri daga, og sést það best þegar hann er kominn meðal leikara á borð við Depp og Billy Crudup, sem hann deilir atriði með. Crudup er alveg dúndurgóður sem Hoover þótt hann eigi ekki margar senur í myndinni.

Þrátt fyrir slíka þungavigtar leikara og leikstjóra er Public Enemies langt frá því að standa undir væntingum. Góð frammistaða Depps nær ekki að halda myndinni gangandi, handritið er ekki gott og myndatakan úr takti við alla myndina. Það er á hreinu að myndin er langt í frá að vera það meistaraverk sem hún hefði getað orðið.

Leikstjóri: Michael Mann
Handrit: Ronan Bennett, Michael Mann og Ann Biderman
Leikarar: Johnny Depp, Christian Bale, Billy CrudupSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða