A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Rambo: First Blood Part II | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

DVD: Rambo: First Blood Part II (1985)

30. mars '12 12:14 Rambo: First Blood Part II

„Stallone er sennilega það besta við myndina, og ber hana hreinlega á breiðum herðum sínum.“

John Rambo situr í fangelsi fyrir að hafa nánast jafnað bandarískan smábæ við jörðu í First Blood. Trautman, eini vinur hans, þjálfari og félagi úr Víetnam-stríðinu, sækir Rambo í grjótið til þess að senda hann í leynilega sendiför til helvítis á jörðu en Rambo er ætlað að fara aftur til Víetnam, vopnaður ljósmyndavél að þessu sinni, þar sem honum er ætlað að finna faldar fangabúðir og sanna með myndum að þar séu bandarískir stríðsfangar enn í haldi. Hann á bara að taka myndir og koma sér síðan í burtu. Okkar maður fer vitaskuld ekki eftir þeim fyrirmælum og fyrr en varir er hann byrjaður að stráfella vonda kalla hægri og vinstri.

Frægðarsól Sylvester Stallone var í hádegisstað á níunda áratugnum í kjölfar vinsælda Rocky-myndanna og eftir hina fantagóðu First Blood, þar sem Rambo var kynntur til sögunnar, kom ekki annað til greina en að gíra sig upp fyrir framhald. Útkoman, Rambo: First Blood Part II, er ótrúlega ólík forveranum, sem byggði á stórgóðri skáldsögu Davids Morrell. Þar var Rambo hundeltur af lögreglu og þjóðvarðliðum, lengst af óvopnaður. Hér snýst leikurinn við og Rambo ofsækir rússneska og víetnamska hermenn, grár fyrir járnum og svo virðist sem hríðskot andstæðinganna geygi af ótta við kappann.

Stallone virðist hafa stjórnað öllu við gerð myndarinnar og munar ekkert um að senda Rambo, einan síns liðs, til Víetnam til þess að sigra stríð sem Bandaríkjamenn höfðu tapað fyrir all nokkru síðan. Að sögn þeirra sem unnu að gerð First Blood II greip Stallone stöðugt fram fyrir hendurnar á leikstjóranum George P. Cosmatos og gleypti framleiðsluna með húð og hári. Við handritsgerðina fékk Stallone sjálfan James Cameron til liðs við sig en sá var funheitur og kom ferskur frá því að hafa skrifað og leikstýrt The Terminator. Stallone tók sig síðan til og endurskrifaði handritið með þungum gagnrýnistón á framkomu bandarískra stjórnvalda í garð hermanna úr Víetnam-stríðinu og þeim tökum sem eftirmálar stríðsins voru tekin í Bandaríkjunum.

Stallone er að vitaskuld þrælgóður sem Rambo þegar höggin eru látin dynja á honum og ekki er annað hægt en að kaupa hann í þessu hlutverki. Líkamlegir burðir, hegðun og útlit hans smellpassa fyrir hlutverk Rambo. Þegar undirritaður hugsar til þess þá er Stallone sennilega það besta við myndina, og ber hana hreinlega á breiðum herðum sínum.

Rambo: First Blood Part II virkaði betur á mig í minningunni en nú. Almennt séð er myndin ekkert sérstaklega vel gerð og handahófskenndar sprengingar, skotbardagar og efnistök Stallones fóru dálítið í mig. Áróðursþema myndarinnar fer Rambo líka illa þar sem hann er upphafinn sem stríðsmaskína sem berst gegn meðhöndlun Bandaríkjahers á eigin mönnum á meðan hann stráfellir hermenn/skæruliða/uppreisnarseggi í öðrum löndum. Og ekki skánar þetta í Rambo III. Það besta sem hefur komið úr þessum tveimur arfaslöku framhöldum af First Blood er án efa fjórða framhaldsmyndin, Rambo, og Hot Shots: Part Deux en í henni er gert fyrsta flokks stólpagrín að Rambo og vanhæfi bandarískra yfirvalda.

Leikstjóri: George P. Cosmatos
Handrit: James Cameron, Sylvester Stallone
Leikarar: Sylvester Stallone, Richard Crenna og Charles NapierSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða