A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Red | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Red (2010)

31. júlí '13 15:48 Red

„Ekki er hægt að kvarta yfir vel völdum mannskapnum í myndinni sem er stórgóð skemmtun þar sem spennu, ofbeldi og gríni er blandað saman í nokkurn veginn réttum hlutföllum.“

Bruce Willis er mættur til leiks á ný ásamt vösku gengi roskinna njósnara í RED 2 en fyrri myndin gerði það nokkuð gott fyrir örfáum árum. RED byggir á samnefndri myndasögu sem hverfist um fyrrum njósnarann Frank Moses sem þarf að rifja upp gamla takta þegar dularfullur mannskapur vill hann skyndilega feigan.

RED var prýðileg spennumynd og ekki algalið að skoða hana aftur áður en haldið er til fundar við Bruce og félaga á ný. Hjá CIA stendur skammstöfunin RED fyrir Retired and Extremely Dangerous – Á eftirlaunum og stórhættuleg. Og það er víst óhætt að segja að aðalpersónum RED verði ekki mikið betur lýst en einmitt með þessum orðum.

Bruce Willis leikur klárasta leyniaðgerðagaurinn í gervallri sögu CIA. Hann er sestur í helgan stein en þegar hópur morðingja ryðst inn á heimili hans eina nóttina hrekkur hann í gamla gírinn, snýr vörn í sókn og ræðst gegn andskotum sínum.

Hann byrjar á því að smala saman gamla genginu sínu; öldungi sem kominn er á elliheimili (Morgan Freeman), snarbiluðum vænisjúklingi sem felur sig í fenjum Flórída (John Malkovich) og breskri heldri konu sem var áður færasti morðingi bresku leyniþjónustunnar en rekur nú gistiheimili (Helen Mirren). Þau kippa svo einnig fornum rússneskum fjanda úr gamla KGB (Brian Cox) um borð.

Þegar á hólminn er komið hefur þetta fólk engu gleymt varðandi vopnaburð og dráp. Vondu kallarnir mega því hafa sig alla við gegn gamlingjunum sem komast að því að þeir eru flæktir í samsæri sem teygir sig langleiðina í Hvíta húsið.

Sagan er í raun ósköp stöðluð og fátt sem kemur á óvart en myndin er samt sem áður prýðileg skemmtun. Willis er alveg jafn harður og svalur og hann var í Die Hard 1989 og heldur kúlinu út í gegn. Morgan Freeman fer blindandi með sína rullu og John Malkovich fer á sínum alkunnu kostum og lyftir myndinni upp í hlutverki geðsjúklingsins sem engum treystir. Helen Mirren og Brian Cox eru bæði dásamlegir leikarar og renna sér í gegnum myndina á gamalkunnum sjarma þannig að ekki er hægt að kvarta yfir vel völdum mannskapnum í myndinni sem er stórgóð skemmtun þar sem spennu, ofbeldi og gríni er blandað saman í nokkurn veginn réttum hlutföllum.

Leikstjóri: Robert Schwentke
Handrit: Jon Hoeber, Erich Hoeber
Leikarar: Bruce Willis, Mary-Louise Parker, Morgan Freeman, John Malkovich,Brian Cox,Helen Mirren, Richard DreyfussSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða