A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Sideways | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Sideways (2004)

24. janúar '12 11:40 Sideways

„Sidways er gamanmynd fyrir fullorðna með góðri fyllingu og fínu eftirbragði. “

Eitt elsta trix í bókmenntum og frásagnartækni er að láta persónur leggja land undir fót og verða einhvers vísari um sjálfar sig og lífið áður en þær ná leiðarenda og fá umbun erfiðis síns í einhverju formi, til dæmis dýpri sjálfsskilningi, ást eða auði.

Þeim félögum Alexander Payne og Jim Taylor nota þetta sígilda ferðalag sem grunn að þrælskemmtilegum bíómyndum. Fyrst sendu þeir Jack Nicholson af stað út á þjóðveginn í About Schmidt og síðan þá Thomas Haden Church og Paul Giamatti sem leika miðaldra karlmenn í krísu sem þræða vínsmökkunarhéröð Kaliforníu í leit að lífsfyllingu og gleði.
Báðar þessar myndir eru skemmtilegur viðsnúningur á vegamyndaformið þar sem ekki er keyrt hratt í þeim og bíltúrarnir eru í raun eins óspennandi og hugsast getur. Kostulegar persónur og vel skrifuð samtöl halda myndunum svo gangandi og áhorfendum við efnið. Það sem gerir þetta svo enn betra í tilfelli Sideways er að þetta ferðalag er í raun hundleiðinlegt og ferðalangarnir báðir ömurlegar persónur.

Það er einhver óræð snilld fólgin í því að geta gert bráðskemmtilega gamanmynd um tvo einstaklega óaðlaðandi menn sem eiga varla inni fyrir snefil af samúð áhorfenda. Annar (Haden Church) er sjálfumglaður, egósentrískur vitleysingur en hinn (Giamatti) þunglyndur, þrasgjarn og leiðinlegur aumingi.

Þessir eðalleikarar fara hins vegar létt með að gæða þessa leppalúða lífi og Giamatti fer á sínum alkunnu kostum enda er maðurinn sérfræðingur í að túlka vonlausa menn.

Rauði þráðurinn í gegnum þetta allt saman er vínsmökkunarferðin en Giamatti reynir að sækja huggun og sálarró í daður sitt við eðalvín á meðan Haden Church hugsar um það eitt að detta íða og er þá slétt sama úr hvers konar þrúgum vínið er kreist. Andstæður þessara ólíklegu vina kristallast í viðhorfum þeirra til vínsins þar sem annar á enn möguleika á að þroskast eins og gott vín á meðan hinn mun alltaf standa í stað.

Bíómyndin um þessa tvo vitleysinga er eins og eðalvín, bragðgóð, þægileg og skilur eftir sig notalega trú á það að öllu illu fylgi eitthvað gott. Sidways er gamanmynd fyrir fullorðna með góðri fyllingu og fínu eftirbragði.
 

Leikstjóri: Alexander Payne
Handrit: Alexander Payne, Rex Pickett (skáldsaga)
Leikarar: Paul Giamatti, Thomas Haden Church, Virginia MadsenSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða