A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Sightseers | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Sightseers (2012)

5. júní '13 15:51 Sightseers

„Sightseers fær þann vafasama heiður að vera furðulegasta kvikmynd sem ég hef séð það sem af er þessu ári.“

Kærustuparið Tina og Chris leggja upp í ferðalag um England. Þegar á fyrsta áfangastað er komið verður Chris fyrir barðinu á dónalegum ferðamanni og skömmu seinna bakkar Chris á manninn og drepur hann. Ferðalangarnir láta þó þetta óhapp ekki stöðva sig og halda ótrauðir áfram og er þetta einungis byrjunin á blóðugu og viðburðaríku ferðalagi þeirra.

Leikstjórinn Ben Wheatley stimplaði sig allrækilega inn hjá undirrituðum með hinni mögnuðu Kill List frá árinu 2011 og heldur áfram að koma á óvart. Hér spreytir Wheatley sig í kolsvörtum húmor en Alice Lowe og Steven Oram skrifa handritið og það vill svo skemmtilega til að þau fara einnig með aðalhlutverkin í myndinni.

Söguþráðurinn í Sightseers er eins kolsvartur og hugsast getur. Ferðalangarnir gera sér lítið fyrir og myrða þá sem standa í vegi þeirra. Eða öllu heldur, þegar öfundsýki, skoðanir eða aðgerðir stangast á við viðhorf þeirra. Þess á milli eru aðgerðir þeirra réttlættar og málin eru „leyst". Gjörðir kærustuparsins eru glettilega grófar og húmorinn er ansi lúmskur á köflum. Myndin er þess eðlis að Edgar Wright hefði hæglega getað leikstýrt henni sem þarf ekki að koma á óvart þar sem hann framleiðir hana.

Handritsparið er þrælgott í hlutverkum Tinu og Chris. Kannski er ekki við öðru að búast þar sem þau sköpuðu persónurnar og Lowe er sérstaklega góð sem sakleysinginn Tina sem er að losna undan skugga móður sinnar. Ástand heimilis Tinu gefur áhorfendum hugmynd um þann botnlausa vorkunnarpytt sem móðir hennar, sem Eileen Davis, er sokkinn ofan í. Bjargvættur Tinu kemur ekki á hvítum hesti, íklæddur brynju og með sverð á lofti heldur mætir Chris á Volvó með hjólhýsi í eftirdragi þegar hann frelsar Tinu frá móður hennar.

Sightseers fær þann vafasama heiður að vera furðulegasta kvikmynd sem ég hef séð það sem af er þessu ári. Hún er svo sannarlega ekki allra enda er hugarfar persónanna ekki beinlínis aðlaðandi en þeir sem fíla svartar kómedíur ættu endilega að sjá Sightseers.

Leikstjóri: Ben Wheatley
Handrit: Alice Lowe, Steve Oram
Leikarar: Alice Lowe, Steve Oram, Eileen DaviesSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða