A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Sinister | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Sinister (2012)

8. janúar '13 11:45 Sinister

„Myndin er betur leikin en maður á að venjast í þessari deild og þótt efniviðurinn sé þvældur eru teknir ferskir og skemmtilegir vinklar á ýmislegt í sögunni og viðbjósleg fjölskyldumorðin sem myndin hverfist um eru sett fram á skemmtilega ónotalegan og ógeðslegan hátt.“

Fátt er sálinni jafn hollt og góður hryllingur sem skýtur áhorfandanum skelk í bringu með réttri blöndu óhugnaðar, ógn, dálitlum viðbjóði og slatta af bregðuatriðum. Því miður eru slíkar myndir fágætar þótt hryllingsmyndum sé dælt út á markaðinn af mikilli elju. Megnið er bara illuheilli metnaðarlaust rusl þar sem áherslan er oftar en ekki á ódýran viðbjóð og splatter. Svoleiðis virkar ágætlega fyrir sinn hatt en skilur ekki mikið eftir sig, allra síst gæsahúð og hroll.

Sinister er því kærkomin sending í kvikmyndahús í byrjun þessa leiðinlegasta mánaðar ársins og er ansi hreint hressandi fyrir sálartetrið. Frumleikanum er þó ekki fyrir að fara frekar en í hryllingi almennt og hér er boðið upp á allar helstu klisjur sem hægt er að hugsa sér í sambandi við púka, andsetningar, draugahús og fjölskyldu sem sest þar að og er í bráðum háska.


Útfærslan á þessu er hins vegar býsna góð í Sinister. Myndin er betur leikin en maður á að venjast í þessari deild og þótt efniviðurinn sé þvældur eru teknir ferskir og skemmtilegir vinklar á ýmislegt í sögunni og viðbjósleg fjölskyldumorðin sem myndin hverfist um eru sett fram á skemmtilega ónotalegan og ógeðslegan hátt.

Sá ágæti leikari Ethan Hawke leikur rithöfundinn Ellison Oswald. Hann skrifar bækur um sönn sakamál en hefur ekki skilað af sér metsölubók í tíu ár. Í örvæntingu flytur hann með eiginkonu sína og tvö börn í hús sem á sér ljóta sögu en fjórir af fimm meðlimum fjölskyldunnar sem bjó þar áður voru hengdir í tré í bakgarðinum. Þá hvarf yngsta barnið sporlaust eftir ódæðisverkið og síðan þá hefur ekkert til þess spurst. Oswald gerir sér vonir um að innblásturinn sem húsið veiti honum muni skila sér í góðri bók auk þess sem hann ætlar sér að leysa ráðgátuna um hvað varð um barnið. Hann lætur þó eiga sig að upplýsa eiginkonu sína um skuggalega fortíð hússins.

Eftir að Oswald finnur pappakassa með gamalli sýningarvél og 8mm filmum sem eru merktar eins og ósköp venjulegar heimilisupptökur fikrar hann sig inn á vægast sagt háskalega braut. Á filmunum eru nefnilega upptökur sem sýna ógeðsleg morð á heilu fjölskyldunum. Samkvæmt merkingu er elsta filman frá 1966 en sú nýjasta er af fjöldahengingunni í garði Oswalds. Óhuggnaðurinn er slíkur að Oswald kemst ekki í gegnum filmurnar án þess að svolgra í sig viskí af stút og eftir glápið verður hann svo tæpur á taugum að hann skilur varla flöskuna við sig.

Með aðstoð ungs lögreglumanns í bænum tekst Oswald að bæta við púslum í ráðgátuna og þegar hann fer að sjá heildarmynd bendir allt til þess að kengruglaðaur raðmorðingi sé búinn að stunda í áratugi að drepa fjölskyldur og ræna alltaf einu barnanna. Óhugnaðurinn og það sem virðist ofskynjanir sem herja á Oswald innan veggja heimilisins verða síðan til þess að hann getur ekki útilokað að á bak við morðin standi illur andi.

Allt er þetta spunnið vel og óhugnaðurinn og feigðin stigmagnast eftir því sem líður á myndina og jafnvel þeir sjóuðustu í hryllingnum komast varla hjá því að finna gæsahúðina hríslsast um sig af og til. Sem verður að teljast nokkuð gott.

Leikur Hawke eflist líka eftir því sem óttinn nær sterkari tökum á Oswald og hann ber myndina uppi að mestu einn og óstuddur. James Ransone er líka fjandi góður í hlutverki löggunnar ungu og gömlu Law&Order-jaxlarnir Fred Dalton Thompson og Vincent D'Onofrio setja sterkan og skemmtilegan svip á myndina í litlum hlutverkum lögreglustjórans í bænum og sérfræðings í dulspeki. Þannig að þótt yrkisefnið sé hvorki ferskt né frumlegt hefur leikstjórinn Scott Derrickson (The Exorcism of Emily Rose) góð tök á öllum þráðum og skilar hryllingsmynd sem er langt yfir meðallagi og skilar sínu með gæsahúð og sóma.

Leikstjóri: Scott Derrickson
Handrit: Scott Derrickson, C. Robert Cargill
Leikarar: Ethan Hawke, Juliet Rylance, James RansoneSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða