A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Spider-Man 3 | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Spider-Man 3 (2007)

3. júlí '12 11:35 Spider-Man 3

„Fyrsta myndin var stórfín og önnur enn betri en þessi er bara eins. Þar fyrir utan færist Raimi nokkuð mikið í fang og stefnir nú þremur skúrkum gegn hetjunni í stað þess að einbeita sér að einu illmenni í einu.“

Þessi þriðja mynd um Köngulóarmanninn sver sig fullkomlega í ætt við forverana þannig að það er ekki hægt að segja annað en Sam Raimi sé í meginatriðum trúr þeirri stefnu sem hann markaði sér og Köngulóarmanninum. Þrátt fyrir þetta olli Spider-Man 3 ákveðnum vonbrigðum en fólust aðallega í því að Raimi náði ekki að toppa það sem hann hafði gert áður.

Fyrsta myndin var stórfín og önnur enn betri en þessi er bara eins. Þar fyrir utan færist Raimi nokkuð mikið í fang og stefnir nú þremur skúrkum gegn hetjunni í stað þess að einbeita sér að einu illmenni í einu.

Nú situr Lói uppi með nýjan Green Goblin, Sandman og Venom þannig að fókusinn er óljósari en áður og kjötið á beinum illmennanna er rýrara. Þar fyrir utan fer drjúgur tími í innri baráttu Peters Parker sem er að missa tökin á tilverunni vegna vinsælda Köngulóarmannsins og hann missir sjónar á ástinni og því sem máli skiptir í lífinu, blindaður af hroka og ofmetnaði.

Þessar neikvæðu tilfinningar gera hann að auðveldu fórnarlambi svartrar geimdrullu sem kemst langleiðina með að breyta honum í skúrkin Venom. Hann hristir þó óværuna af sér sem leggst þá á leiðinlegan samstarfsmann hans á The Daily Bugle sem sprettur fram sem fullmótaður Venom.

Venom er flottur skúrkur en vegna alls sem gengur á mætir hann ansi seint til leiks sem er synd. Venom er að öðru leyti býsna vel heppnaður og fígúran er þrælflott sem gerir vonbrigðin enn meiri ef eitthvað er.

Myndin er tæpir þrír tímar og það er á mörkunum að hún þoli lengdina en hún sleppur fyrir horn. Ástamál og tilfinningaflækjur Peters taka drjúgan hluta tímans og einhverjir hafa fundið því allt til foráttu. Slíkar aðfinnslur eiga þó vart við þar sem saga Köngulóarmannsins er ekki síst unglingadrama með öllu því veseni sem slíku fylgir. Myndin lagðist því betur í heittrúaða aðdáendur Köngulóarmannsins á meðan öðrum fannst tilfinningavællinn koma niður á spennunni.

Hasarinn er hins vegar keyrður hressilega upp inn á milli og sum bardagaatriðin eru ansi tilkomumikil og jafnast fullkomlega á við hápunkta fyrri myndanna.

Tobey Maguire er í fínum gír í aðalhlutverkinu og bregður skemmtilega á leik þegar Venom gefur honum tækifæri til að sýna skuggahliðar Peters. Kirsten Dunst fær hins vegar úr öllu minna að moða í hlutverki kærustunnar Mary Jane sem þarf enn eina ferðina að berjast grátandi fyrir lífi sínu og bíða eftir að kærastinn komi að bjarga henni.

Sem lokamynd í sterkum þríleik er þessi mynd veikust.

Leikstjóri: Sam Raimi
Handrit: Sam Raimi, Ivan Raimi
Leikarar: Tobey Maguire, Kirsten Dunst, Topher GraceSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða