A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Stand Up Guys | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Stand Up Guys (2012)

24. nóvember '13 15:53 Stand Up Guys

„Stand Up Guys bjargast og flýtur á því að hún er lögð á traustar herðar algerra toppmanna, sérstaklega Walken sem er æði og splæsir meira að segja í nokkur dansspor en slíkar sýningar frá þessum manni eru einar og sér ætíð bíómiðans virði.“

Stand Up Guys var frumsýnd ytra í fyrra og er því frekar seint á ferðinni í kvikmyndahúsum á Íslandi. Slíkt veit sjaldnast á gott og því miður er þessi glæpamynd engan veginn nógu góð. Hins vegar skartar hún þremur frábærum leikurum í aðalhlutverkum: Al Pacino, Christopher Walken og Alan Arkin, sem hefur verið á góðu róli síðan hann átti eftirminnilega endurkomu í Little Miss Sunshine árið 2006.

Allir eru þeir sjálfum sér líkir og svíkja ekki. Arkin skemmtilega kaldlyndur, Pacino sjúskaður og svalur og Walken er ómótstæðilegur gamall töffari með harmræna taug. Bara flottastur eins og alltaf. Sá baneitraði leikari Mark Margolis (mállausi dópkóngurinn í hjólastólnum í Breaking Bad) er öflugur í litlu hlutverki glæpaforingja sem gerir þremenningunum lífið leitt. Þá setja leikkonurnar Julianna Margulies, Lucy Punch, Addison Timlin og Vanessa Ferlito (fáránlega töff) allar sitt mark skemmtilega á myndina í hlutverkum ungra kvenna sem ellismellirnir hafa margvísleg afskipti af.

Gömlu brýnin leika félaga sem stunduðu vopnuð rán saman þegar þeir voru í blóma lífsins. Arkin er flóttabílstjórinn en hinir tveir sáu um ofbeldið. Al er að losna úr fangelsi þar sem hann hefur dúsað í 28 ár, án þess að kjafta frá félögum sínum. Walken tekur á móti honum og auðvitað kemur ekkert til greina annað en leyfa þeim gamla að sletta ærlega úr klaufunum. Þeir djúsa, dópa, redda viagra og koma við á hóruhúsi. Síðan ákveða þeir að frelsa Arkin, sem er í öndunarvél á elliheimili. Hann er furðru fljótur að hrökkva í gamla gírinn þegar hann fer að anda á eigin spýtur og keyrir sportbíl sem þeir stela eins og sannur ökuþór.

Skuggi er þó yfir gleðinni. Það er ekki nóg með að gæjarnir eru staðnaðar risaeðlur sem eru úr öllum takti á djamminu, heldur hefur glæpaforingi í hefndarhug skipað Walken að kála Pacino áður en nóttin er öll. Að öðrum kosti verði hann drepinn líka. Og til þess að fullkomna tragedíuna er Pacino meðvitaður um hvað bíður hans og reynir að njóta hverrar mínútu.

Næturgölt „strákanna“ er á köflum bráðskemmtilegt, uppátæki þeirra sum hver ferlega töff og fyndin. Þeir eru í stuði og það er synd að betra handrit hafi ekki legið fyrir þegar þessum þremur æringjum er loks smalað saman í eina og sömu myndina. Sagan er sundurlaus og þvæld, grautur af skemmtilegum senum og töffaratöktum gamalmenna, fyndnum og á köflum næmum og sorglegum atriðum. En heildin er veik. Allt of veik.

Stand Up Guys bjargast og flýtur á því að hún er lögð á traustar herðar algerra toppmanna, sérstaklega Walken sem er æði og splæsir meira að segja í nokkur dansspor en slíkar sýningar frá þessum manni eru einar og sér ætíð bíómiðans virði. Gæsahúð er síðan óhjákvæmileg þegar Al og Chris gera málin upp, guns blazing, í lokin. Ferlega sætt flassbakk til Butch og Sundance og maður skilur sáttur við þá. Sem verður að teljast nokkuð gott þegar um miðlungsmynd er að ræða.

Það er bara ekki annað hægt en að elska þessa menn.

Leikstjóri: Fisher Stevens
Handrit: Noah Haidle
Leikarar: Al Pacino, Alan Arkin, Christopher Walken, Julianna Margulies, Mark Margolis, Lucy Punch, Vanessa FerlitoSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða