A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Teen Wolf | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Teen Wolf (1985)

14. febrúar '13 13:05 Teen Wolf

„Ef Teen Wolf hefur einhverntímann verið góð, þá er hún eflaust betri sem slík í minningunni eða týnd og rykfallin á vídeóleigunni.“

Grunnskólanemandi tekur eftir ýmsum breytingum á sjálfum sér og furðulegur hárvöxtur og vígtennur færa honum heim sanninn um að hann sé í raun varúlfur. Hann tekur þessu illa í fyrstu en þegar samnemendur hans taka honum fagnandi og allt virðist ganga honum í hag breytast viðhorf hans.

Margir staglast á því að gamanmyndir í dag standast ekki samanburð við slíkar myndir frá áttunda og níunda áratugnum. Rétt upp að vissu marki en þó má ekki gleyma því að þær myndir sem okkur þykja slæmar í dag eru okkur ferskari í minni en rusið sem hefur fallið í gleymskunnar dá og safnað ryki á vídeóleigum í áratugi. Tíðarandinn og áherslur breytast gegnum árin auk þess sem markaðsöflin vega stöðugt þyngra í kvikmyndagerðinni.

Eftir vinsældir Back to the Future leit allt út fyrir að Michael J. Fox yrði aðalmaðurinn í Hollywood. Handritin streymdu til hans, þar á meðal Teen Wolf sem hefði betur endað í ruslafötunni hjá Fox. Teen Wolf varð því miður að bíómynd og hennar biðu þau örlög að rykfalla á leigunum þar sem enginn hefur saknað hennar. Markaðsmennirnir sáu þó til þess að myndin fór ekki beint í ruslflokk þegar hún kom út þannig að tvær sjónvarpsseríur voru byggðar á myndinni þar sem Jason Bateman leysti Fox af hólmi.

Það skín í gegn í Teen Wolf að aðstandendur hennar hafa ómögulega getað ákveðið hvort þeir ætluðu að gera gamanmynd eða súrealíska sápu. Svo ófyndin og furðuleg er myndin. Atburðarásin er hefðbundin og leiðinleg og öllu sem gæti flokkast sem fjör er slátrað. Eftir að persóna Fox áttar sig á að hann er varúlfur verður framvindan svo glórulaus að það nær engri átt. Varúlfur í körfubolta? Ekkert mál! Er það eitthvað furðulegt? Nei nei. Á persóna Fox eitthvað að kanna afhverju hann er varúlfur? Nei, hvaða vitleysa. Gott mál þá höldum við bara áfram.

Út myndina glymur hræðinleg eitís-tónlist sem grefur undan hverju atriðinu á fætur öðru og tekst illa með yfirþyrmandi tónum að undirstrika gamansemi eða uppátæki persónanna. Myndin gæti auðveldlega verið lauslegt framhald af Apaplánetunni þar sem Fox líkist meira apa en varúlfi. Þótt Fox sé grafinn undir tonni af sminki virðist hann skemmta sér þokkalega við tilhugsunina um launaseðilinn.

Þær eru ófáar gamanmyndirnar frá níunda áratugnum sem eiga sérstakan sess hjá mér. Sumir eru sammála mér um ágæti þeirra, aðrir ekki, sem er í sjálfu sér alveg í lagi. Ef Teen Wolf hefur einhverntímann verið góð, þá er hún eflaust betri sem slík í minningunni eða týnd og rykfallin á vídeóleigunni.

Leikstjóri: Rod Daniel
Handrit: Jeph Loeb, Matthew Weisman
Leikarar: Michael J. Fox, James Hampton, Susan Ursitti, Jerry Levine, Mark ArnoldSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða