A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Act of Killing | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: The Act of Killing (2012)

5. september '13 16:12 The Act of Killing

„Sviðsetningar morðingjanna á eigin illvirkjum eru svo óbærilega hallærislegar að þær verða nánast gróteskar á köflum. Slagkrafturinn í þeim er samt ótrúlegur og sú nístandi þjáning og viðbjóður sem býr þeim að baki hitta áhorfandann í hjartastað.“

Í kjölfar misheppnaðs valdaráns í Indónesíu árið 1965 hófst blóðug þjóðernishreinsun þar sem stjórnarandstæðingum var miskunnarlaust slátrað undir því yfirskyni að þar væru kommúnistar á ferð. Skæðar dauðasveitir fóru hamförum og talið er að um 500.000 manns hafi fallið fyrir þeim frá 1965 til 1966.

Leikstjórinn Joshua Oppenheimer eyddi átta árum með eftirlifendum hreinsananna sem og meðlimum dauðasveitanna með myndavélina á lofti. Niðurstaðan er þessi stórmerkilega og áhrifaríka heimildarmynd sem veitir einstaka og um leið óvenjulega sýn ofan í dýpstu myrkur mannssálarinnar.

Oppenheimer valdi þá stórsniðugu leið að bjóða gömlum böðlum dauðasveitanna að endurskapa voðaverk sín á filmu og nota hvaða aðferðir sem þá helst langaði til í frásögnum sínum. Grobb og stærilæti eru ríkur þáttur í fari skúrkanna og með því að bjóða þeim að gera bíó magnar Oppenheimer upp í þeim belginginn og fær þá til þess að segja miklu meira en þeir hefðu ef til vill annars gert. Sumir þeirra hafa þó rænu á því að kannski séu þeir að varpa neikvæðu sögulegu ljósi á sjálfa sig og það væri nú afleitt ef þeir staðfestu að það hefðu í raun verið þeir sem voru skepnurnar en ekki kommarnir sem þeir sálguðu af svo miklum móð.

Þegar blóðbaðið hófst á sínum tíma virkjaði herinn glæpamenn í dauðasveitirnar en það þótti bráðsnjallt það sem þeir kunnu ýmislegt fyrir sér í ofbeldisverkum. Þessir krimmar stunduðu ekki síst svartamarkaðsbrask með bíómiða og voru uppteknir af gangster-myndum frá Hollywood. Og áhrif kvikmyndanna á þá eru svo mikil að þegar þeir byrja að brasa við kvikmyndagerðina sækja þeir í stíl bandarískra glæpamynda og söngleikja.

Myndin hverfist að mestu um böðulinn Anwar Congo sem talinn er hafa þúsund mannslíf á samviskunni. Hann er merkilega brattur og ánægður með afrek sín og þá ekki síst hversu flinkur hann var að kyrkja fólk með vír að hætti mafíósa.  Hann á þó stundum erfitt með svefn og samviska hans er þó ekki alveg róleg en hana segist hann friða með áfengi, marijúana, dansi og e-pillum.

Heimsmynd böðlanna er með mestu ólíkindum og þeir koma manni fyrir sjónir sem algerir fábjánar, einfaldar sálir sem búa í heimi sem virðist ekki eiga neitt sameiginlegt með þeim sem við byggjum á vesturlöndum. Þegar betur er að gáð er þó skuggalega lítill munur á þeirri pólitísku spillingu sem böðlarnir velta sér upp úr, löðrandi í kvenfyrirlitningu og siðleysi, og því sem gengur og gerist í okkar heimshluta. Í raun rennir myndin stoðum undir þann grun manns að í grunninn séu allir siðvillingar og morðingjar eins. Óháð því hvernig þeir klæða sig og koma fram.

Sviðsetningar morðingjanna á eigin illvirkjum eru svo óbærilega hallærislegar að þær verða nánast gróteskar á köflum. Slagkrafturinn í þeim er samt ótrúlegur og þótt sviðsetningarnar virki á tjaldinu sem spéspegill heimskra gamalmenna með svarta samvisku hittir sú nístandi þjáning og viðbjóður sem býr þeim að baki áhorfandann í hjartastað.

Hér mætti skrifa langt mál um hversu The Act of Killing virkar á mörgum plönum, hversu margt hún hefur að segja um dekkri hliðar mannsandans og það hversu stutt er í óargadýrið í fólki. En sjón er sögu ríkari. The Act of Killing er mynd sem maður verður að upplifa og allir ættu að sjá. Einhver merkilegasta heimildarmynd sem ratað hefur í bíó á Íslandi lengi enda kannski ekki við öðru að búast þegar einn framleiðendanna er sjálfur Werner Herzog en hann kann meira fyrir sér en margur þegar heimildarmyndir eru annars vegar.

Leikstjóri: Joshua Oppenheimer
Handrit:
Leikarar: Anwar Congo, Haji Anif, Syamsul Arifin, Sakhyan AsmaraSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða