A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Bag Man | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: The Bag Man (2014)

18. mars '14 21:13 The Bag Man

„The Bag Man er skólabókardæmi um mynd sem hefði aldrei átt að komast af handritstiginu...“

Maður hristir óhjákvæmilega höfuðið í örvæntingu og spyr sig hvað hafi eiginlega komið fyrir hinn geðþekka leikara John Cusack á síðustu árum. Síðustu myndir hans eiga það nefnilega sameiginlegt að vera svo vondar að þær eiga ekkert erindi í kvikmyndahús. Þetta sárnar manni auðvitað þar sem maður hefur átt samleið með leikaranum síðan í gamanmyndinni Better Off Dead og horft á hann gera góða hluti í Say Anything, Bullets Over Broadway, Grosse Pointe Blank, Being John Malkovich og High Fidelity svo nokkrar séu nefndar.

Í seinni tíð hefur Cusack boði manni upp á hroðbjóð á borð við Hot Tub Time Machine, The Raven og nú ofbeldisspennumyndina The Bag Man, sem er eiginlega bara vandræðaleg. Einhver nákominn leikaranum má til með að benda honum á að hann er ekki og verður aldrei harðhaus. 

Í The Bag Man leikur hann svakalega klárann leigumorðingja, eða eitthvað álíka. Stórhættulegur glæpakóngur, sem Robert De Niro leikur, fær honum það verkefni að sækja tösku og bíða þess í afskekktu móteli, í herbergi númer 13 (af öllum mögulegum númerum) eftir því að taskan verði sótt. Og hann má alls ekki kíkja í töskuna. Það er fyrir öllu.

Þessi leiðangur byrjar ekki vel og okkar maður mætir á mótelið með skotsár á hendi og lík í skottinu. De Niro virðist nefnilega eiga fullt af útsendurum sem ætla sér að kála aumingja Cusack. Og líkin hrannast því upp. Mótelið og allt umhverfi þess er eins og eitthvað beint út úr Twin Peaks eða Wild at Heart. Lynchísk martröð þar sem stórfurðulega persónur þvælast um og gera Cusack lífið leitt. Þar ber hæst dularfulla konu í rauðu leðurkorsiletti með blátt hár, skúrk sem heldur að hann sé Samuel L. Jackson í hlutverki Nicks Fury og morðóðan dverg í jogging-galla.

Þessar persónur blása smá lífi í þessa moðsuðu og nokkur ruddaleg ofbeldisatriði lyfta geði manns aðeins en þetta er bara allt svo arfavitlaust og fullkomlega tilgangslaust að betur hefði verið heima setið en af stað farið. Sá bráðskemmtilegi leikari Crispin Glover stelur nokkrum senum sem mótelstjórinn. Hann á líka eina brandarann í myndinni sem, mjög svo fyrirsjáanlega, er vísun í Norman Bates og Psycho.

Taskan og innihald hennar er það sem Hitchcock kallaði „McGuffin“ - þetta eitthvað sem keyrir söguna áfram og hér er örugglega á ferðinni hallærislegasta McGuffinn sem sögur fara af. The Bag Man er skólabókardæmi um mynd sem hefði aldrei átt að komast af handritstiginu en sagan er eftir aukaleikarann James Russo. Hann lék á sínum tíma í The Blue Iguana, fyrir Sigurjón Sighvatsson, og síðast sást hann í Django Unchained. Hann hefur gert mikið af því að leika hrotta í gegnum tíðina og kann sitthvað fyrir sér í ofbeldi en veit greinilega ekkert um hvernig spinna á góðan krimma.

Rebecca Da Costa setur svip á ruglið í hlutverki mellunnar með bláa hárið og er ætlað að standa undir öllum kynþokka og slíku fíneríi. Hún rétt passar í þröngt korsilettið sem á vandræðalega erfitt með að hemja þrýstinn barm hennar. De Niro er greinilega farinn að taka að sér hvaða hlutverk sem er og það er beinlínis óþægilegt að horfa upp á hann hérna og fall hans er vitaskuld umtalsvert hærra en hjá Cusack, en báðir þessir menn ættu að fara að hugsa sinn gang alvarlega. The Bag Man er bara kjánaleg mynd sem rétt nær að halda athygli manns í þessa tæpu tvo tíma sem hún rúllar.

Leikstjóri: David Grovic
Handrit: David Grovic, Paul Conway, James Russo
Leikarar: John Cusack, Rebecca Da Costa, Robert De Niro, Crispin GloverSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða