A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Bird With the Crystal Plumage | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: The Bird With the Crystal Plumage (1970)

28. september '12 11:15 The Bird With the Crystal Plumage

„Í raun má segja að The Bird With the Crystal Plumage sé mestmegnis Hitchock með dass af De Palma. Þótt myndin yfirkeyri dálítið á vonleysi og móðursýki þá stendur hún alveg fyllilega fyrir sínu þar sem myndin treystir á einfaldan söguþráð með spennuþrunginni stemmingu.“

 

Ítalski spennu- og hrollvekjuleikstjórinn Dario Argento er einn heiðursgestanna á RIFF - Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík og af því tilefni skautar Svarthöfði yfir fyrstu mynd leikstjórans, The Bird With the Crystal Plumage eða L'uccello dalle piume di cristallo eins og hún heitir í ítalíu, og sögunnar að baki hennar.
 

Eftir að hafa fiktað við kvikmyndagagnrýni á Ítalíu til nokkura ára fékk Argento það verkefni að taka viðtal við spagettí vestra-meistarann Sergio Leone og þeir báru bækur sínar saman. Leone þótti mikið til Argento koma og bauð honum í kjölfarið að skrifa með sér og Bernardo Bertolucci meistarastykkið Once Upon A Time in the West árið 1968.
 

Tveimur árum síðar, þegar Argento var þrítugur, sendi hann frá sér sína fyrstu kvikmynd, The Bird With the Crystal Plumage. Fljótlega eftir frumsýningu hennar var honum hampað sem ítalskum Hitchcock, rétt eins og Henri-Georges Clouzot var kallaður hinn franski Hitchcock.
 

Argento er oftar en ekki bendlaður við giallo-kvikmyndastefnuna þar sem áherslan var á spennutrylla með kynferðislegum blæ. Oftar en ekki spilaði tónlistin stóran þátt í myndunum þó að síðar meir hafi blóð og hryllingur einkennt myndirnar frekar en spennuþrungin uppbygging.
 

Þessi kynferðislegi blær giallo-myndanna er undirliggjandi í The Bird With the Crystal Plumage og þá sérstaklega í tónlist Ennios Morricone þar sem heyra má lágværar stunur. Þegar morðinginn er kynntur til sögunnar má sjá hann handleika hnífa sína eins og um heilaga hluti væri um að ræða. Söguþráðurinn er afskaplega staðlaður með tilheyrandi ráðgátu en heldur þó spennu í upphafi og enda myndarinnar.
 

Notkun Argentos á myndavéinni er sérstaklega skemmtileg. Hann notast hann meðal annars við fyrstu persónu skot sem eykur á spennuna og takmarkar sjónarsvið áhorfandans. Stílbragðið kryddar atburðarásina og áhorfandinn er ýmist í sporum morðingjans eða fórnarlambsins og fær því bæði að leggja á flótta eða djöflast með hnífinn á lofti.
 

Argento hafði greinilega áhrif á upprennandi kvikmyndagerðamenn og áhugafólk og hann gerði sig strax gildandi með The Bird With the Crystal Plumage. Brian De Palma er einn þeirra sem hefur fengið sitthvað lánað frá Argento rétt eins og hann sótti markvisst í smiðju Hitchocks.
 

Í raun má segja að The Bird With the Crystal Plumage sé mestmegnis Hitchock með dass af De Palma. Þótt myndin yfirkeyri dálítið á vonleysi og móðursýki þá stendur hún alveg fyllilega fyrir sínu þar sem myndin treystir á einfaldan söguþráð með spennuþrunginni stemmingu.

Leikstjóri: Dario Argento
Handrit: Dario Argento
Leikarar: Tony Musante, Suzy Kendall og Enrico Maria SalernoSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða