A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Counselor | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: The Counselor (213)

18. nóvember '13 13:04 The Counselor

„Scott og leikhópurinn stendur sig með prýði en handritið hefði mátt vera þéttara og skortir skýrari heildarsýn á myndina. En þrátt fyrir það, þá leynir The Counselor vissulega á sér.“

Lögmaður færir út kvíarnar og ætlar að græða tá á fingri með eiturlyfjabraski. Áður en langt um líður er hann sokkinn djúpt í háskalegan heim sem hann hefur hvorki skilning á né taugar til þess að takast á við.

Þrátt fyrir að vera kominn á áttræðisaldur heldur Ridley Scott áfram að moka út myndum. Hann vílar ekki fyrir sér að þeyta í eitt stykki vísindaskáldskap, spennutrylli eða tímabilsmynd og er í hópi afkastamestu leikstjóranna sem starfa í Bandaríkjunum.

Það verður ekki af Scott tekið að hann er firnagóður leikstjóri en eins og oft vill verða þegar kappið er meira en forsjáin og afköstin of mikil þá á slíkt til að koma niður á gæðunum. Oftast nær má helst skrifa það á reikning handritsins þegar Scott tekst illa upp og þótt leikstjórn og handrit fylgist vitaskuld að þá væri óskandi að handritin sem Scott vinnur með væru alltaf í samræmi við gæði hans sem leikstjóra.

Scott leikstýrir hér frumsömdu handriti rithöfundarins Cormacs McCarthy en skáldsögur hans, No Country for Old Men og The Road, hafa áður verið kvikmyndaðar. Kaldur, raunsær og fráhrindandi stíll McCarthys var í þeim myndum útfærður á magnaðan hátt.

McCarthy virðist í The Counselor hafa góðan (eða að minnsta kosti sannfærandi) skilning á víðsjárverðum dópheiminum og hvernig kaupin ganga fyrir þar. Þungamiðja myndarinnar er í raun sú að eins manns dauði er annars brauð, hvernig græðgin getur leitt fólk út á hálar brautir og hvernig og hvers vegna fólk velur sér ákveðin hlutverk í lífinu.

Áhorfendur fylgjast með samskiptum lögmannsins við nokkrar áhugaverðar og eftirminnilegar persónur á ferð hans um undirheimana. Atriðin eru í sjálfu sér mjög vel skrifuð en það er eins og það vanti betri tengingu milli þeirra. Útkoman virkar því einhvern veginn eins og búið sé að kvikmynda gott smásagnasafn með óskýrri heildarsýn. Atburðarásin er því sundurslitin og virkar á köflum óljós og jafnvel fráhrindandi.

Hvergi er veikan hlekk að finna í leikarahópnum með Michael Fassbender fremstan í flokki í hlutverki lögfræðingsins sem leikur sér að eldinum. Fassbender er á nokkrum árum orðin einn efnislegasti leikarinn í Hollywood og hér sýnir hann afbragðsleik sem rangur maður, á röngum stað innan um vonda menn.

Leikkonan Cameron Diaz kemur nett á óvart sem Malkina, óútreiknanlegt tálkvendi, sem hefur eiturlyfjasalann Reiner, sem Javier Bardem, leikur í vasa sínum. Penélope Cruz og Brad Pitt leika minni hlutverk og eru góð að vanda. Persóna Cruz hefði mátt fá meira vægi í myndinni og hefði verið gott að kynnast henni ögn betur. Þá skjóta Dean Norris, Rosie Perez, Édgar Ramírez og Bruno Ganz upp kollinum í litlum hlutverkum.

Það er hægara sagt en gert að mæla með The Counselor við hvern sem er. Myndin er vissulega spennumynd en öll spennan felst í samtölum og ósögðum orðum þar sem myndmál spilar stórt hlutverk. Scott og leikhópurinn stendur sig með prýði en handritið hefði mátt vera þéttara og skortir skýrari heildarsýn á myndina. En þrátt fyrir það, þá leynir The Counselor vissulega á sér.

Ridley tileinkar bróður sínum, Tony Scott, myndina en hann lést meðan tökur stóðu yfir.

Leikstjóri: Ridley Scott
Handrit: Cormac McCarthy
Leikarar: Michael Fassbender, Cameron Diaz, Javier Bardem, Brad Pitt, Penélope Cruz, Dean Norris, Rosie Perez, Édgar Ramírez, Bruno Ganz



Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða