A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Da Vinci Code | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: The Da Vinci Code (2006)

17. júlí '13 11:05 The Da Vinci Code

„The Da Vinci Code er svo dauðhreinsuð að manni líður eins og maður sé á gangi um bandarískt apótek frekar en Louvre safnið.“

Fréttir af því að Ron Howard og Tom Hanks ætli sér að gera bíómynd eftir Inferno, fjórðu skáldsögu Dans Brown um táknfræðinginn Robert Langdon, gefur ágætt tilefni til þess að endurskoða The Da Vinci Code sem var óumdeilanlega mesti bíóbömmer sumarsins 2006 þótt hún hafi skilað aðstandendum bullandi gróða.

Ég mun seint gleyma því þegar ég sá The Da Vinci Code, með þeim allra fyrstu í heiminum geri ég ráð fyrir, á fjölmiðlasýningu í Cannes. Viðurkenni fúslega að ég var ekki beint í toppformi. Einhvers staðar mitt á milli þess að vera þunnur og fullur, eins og lög gera ráð fyrir í Cannes. Breytir því ekki að ef ég hefði verið vel sofinn og allsgáður hefði ég samt þurft að berjast við að halda mér vakandi yfir leiðindunum á tjaldinu. Held ég hafi aðeins dottað einu sinni og þegar ég hrökk upp heyrði ég hrotur bergmála yfir risastóran bíósalinn og hugsaði með mér: „Vá, heimspressan hrýtur. Frábært.“ Þarna höfðu eitthvað um 3000 gagnrýnendur frá öllum heimshornum kveðið upp sinn dóm og myndin varla hálfnuð.

Þegar við gengum svo út úr Palais de Festival beið haugur sjónvarpsfréttamana, með tökuvélar á lofti, við dyrnar. Æstir í að fá að heyra frá einhverjum, bara einhverjum, hvernig myndin hefði verið. Sessunautur minn gekk í flasið á einum þeirra og svaraði einfaldlega: „It was shit.“

Eftirvæntingin eftir The Da Vinci Code var gríðarleg og væntingarnar að sama skapi miklar og Howard svosem ekki öfundsverður að fá það verkefni að færa hina ótrúlega vinsælu sögu yfir á kvikmynd. Hann hefur sjálfsagt ætlað að vanda sig rosalega en mistókst algerlega.

Söguþráðinn þekkja sjálfsagt flestir en myndin hefst á því að morðingjamunkurinn Silas drepur roskinn safnvörð Louvre safnsins í París. Þeim gamla tekst að skilja eftir nokkrar torræðar vísbendingar um ástæðurnar fyrir glæpnum en þær getur enginn ráðið nema bandaríski táknfræðingurinn Robert Langdon, sem góðu heilli einmitt staddur í París á fyrirlestraferðalagi. Lögreglan grunar fræðimanninn hins vegar um glæpinn og hann endar á flótta undan bæði lagana vörðum og munknum drápfýsna. Sophie, barnabarn þess myrta, slæst í för með Langdon og saman komast þau að mögnuðum leyndarmálum sem kirkjan hefur náð að fela í 2000 ár.

Skáldsaga Dans Brown er í raun nauðaómerkilegur reyfari sem er klæddur í skrautbúning táknfræðimennsku og guðfræði. Brown blandar þessu þó ákaflega vel saman og því hættir mörgum til þess að taka Da Vinci lykilinn bókstaflega. Bókin er samt býsna góð fyrir sinn hatt þó bókmenntalegt gildi hennar sé álíka mikið og í The Bourne Identity (sem er miklu betri þriller) eftir Robert Ludlum.

Bókin er æsispennandi og þrátt fyrir að hún sé ofhlaðin upplýsingum og vitneskjan renni í stríðum straumum upp úr Langdon og á síðurnar er varla annað hægt en að lesa hana í einum rykk. Þessi spenna skilar sér ekki í bíómyndinni þannig að Howard og félagar eru í vondum málum enda stendur þá lítið eftir annað en kjaftavaðallinn í Hanks.

Bókin er byggð upp eins og bíómynd og nær upp keyrslu með stuttum köflum sem allir enda með einhvers konar hápunkti sem þvingar lesandann til að halda áfram. Þá er atburðarásinni pakkað saman í einn sólarhring þannig að þetta er svolítið eins og 24 þættirnir.

Kvikmyndaaðlögunin er beinlínis klaufaleg. Fyrirfram hefði maður til dæmis búist við að sagan, sem er nógu andskoti flókinn, hefði verið einfölduð í handritinu en þvert á móti tekst handritshöfundunum beinlínis að flækja söguna. Myndin reynir því það mikið á athyglisgáfu áhorfandans að maður verður hreint út sagt þreyttur af því að horfa á hana. Og ekki batnar það þegar maður skoðar hana í annað sinn. Matreiðsla Howards á sögunni er svo bragðdauf að dramatíkin verður grín og spennan álíka mikil og ökuferð til Keflavíkur.

Hlutverkaskipanin er líka alveg út í hött. Það er eitthvað meira en lítið brogað við Tom Hanks í hlutverki Langdons og þá er ég ekki bara að tala um hárið. Persónan er leiðinleg en verður þegar verst lætur skopleg. Audrey Tautou finnur sig heldur ekki í hlutverki Sophie og það er nákvæmlega engin spenna á milli hennar og Hanks.

Svalasti Frakki í heimi er einnig utangátta í hlutverki löggunar Bezu Fache enda er Jean Reno einfaldlega of kúl fyrir hlutverkið. Paul Bettany þarf svo sem ekki að beita sér mikið sem morðinginn Silas. Sir Ian McKellen er eini leikarinn sem virkilega nýtur sín í myndinni og Sir Leigh Teabing er hrein og klár himnasending loksins þegar hann er kynntur til sögunnar um miðbik myndarinnar. Kallinn er alveg í essinu sínu og nýtur þess greinilega að romsa upp úr sér línum þessa kúnstuga sérvitrings.

The Da Vinci Code hafði svo sem fulla burði til þess að vera spennandi sumarsmellur og fyrst og fremst hlýtur að vera við Howard að sakast. Hann er þreytandi leikstjóri og myndirnar hans eru iðulega sterílar. Það vantar ekki að þær séu flottar og það er lítið hægt að setja út á áferð og útlit The Da Vinci Code annað en það að hún er svo dauðhreinsuð að manni líður eins og maður sé á gangi um bandarískt apótek frekar en Louvre safnið.

 

Leikstjóri: Ron Howard
Handrit: Akiva Goldsman
Leikarar: Tom Hanks, Audrey Tautou, Ian McKellen, Jean Reno, Paul Bettany, Alfred Molina, Jürgen ProchnowSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða