A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Hobbit: An Unexpected Journey | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: The Hobbit: An Unexpected Journey (2012)

2. janúar '13 12:15 The Hobbit: An Unexpected Journey

„Fyrsti hluti Hobbitans, The Hobbit: An Unexpected Journey, bendir ekki til þess að hér stefni í alveg jafn tilkomumikinn myndabálk og The Lord of the Rings en þrátt fyrir allt er myndin fínn upptaktur fyrir stórskemmtilegt ævintýri sem á eftir að springa út í næstu tveimur myndum og biðin er nú þegar byrjuð.“

Ungur Bilbó Baggins leggur í ævintýraleiðangur og fjársjóðsleit um Miðgarð með skrautlegu föruneyti þrettán dverga. Á vegi þeirra verða alls kyns einstaklingar og furðuverur sem gegna veigamiklum hlutverkum í baráttu góðs og ills.

Eftir að hafa gert það gott í þremur bíómyndum eftir Hringadróttinssögu heldur leikstjórinn Peter Jackson aftur til Miðgarðs í þessum fyrsta hluta Hobbitans en hann kaus að skipta þessari ástækæru barnabók hins dáða J.R.R. Tolkien niður í þrjár kvikmyndir. Sem þykir nú býsna vel í lagt en þessi stutta saga er, eins og flestir vita, forleikurinn að hinum þykka bálki um Hringadróttinssögu.

Jackson er með sama teymi handritshöfunda og hann vann með að Hringadróttinssögu, þær Philippa Boyens og Fran Walsh, auk Guillermo del Toro sem er nýr þessum heillandi ævintýraheimi. Barnabókin Hobbitinn hefur fengið sömu meðferð og Hringadróttinssaga og höfðar í kvikmynd frekar til unglinga og fullorðinna. Handritshöfundarnir gera einnig gott betur en að aðlaga Hobbitann að kvikmyndaforminu þar sem þeir brúa bilið milli Hringadróttinssögu-þríleiksins með viðbótar efni sem sótt er í eftirmála The Lord of the Rings, glósur höfundarins og bókinni Silmerillinn. Þannig að þrátt fyrir að fjöldi áhorfenda gjörþekki sögu Hobbitans eftir ótal lestra þá tekst Jackson og hans fólki að koma nokkuð á óvart.

Viðbætur, hagræðing og dekkri nálgun á Hobbitann eru til fyrirmyndar og lengd myndarinnar er það eina sem stendur í manni. Fyrsti hlutinn fer hægt af stað þar sem miklum tíma er eytt í að tengja við Hringadróttinssögu en þessi hluti hefði aldeilis mátt lenda á klippigólfinu. En þegar komið er yfir þennan hjalla fer sagan að rúlla og allt fer á fleygiferð.

Margslunginn og skrautlegur leikhópur myndarinnar er falinn bakvið tonn af sminki og tölvubrellum að þeim Ian McKellen, Martin Freeman og Richard Armitage undanskildum. McKellen þekkir hlutverk Gandalfs eins og handabakið á sér og Freeman fer vel með hlutverk Bilbós. Armitage leikur Þorinn og er í tilfinningríkasta hlutverki myndarinnar og gaman verður að sjá persónuna þroskast og dafna í framhaldinu. Kamelljónið Andy Serkins leikur Gollum á ný auk þess sem Hugo Weaving, Cate Blanchett, Iam Holm, Elijah Wood og Christopher Lee endurtaka rullur sínar úr Hringadróttinssögu.

Í gegnum myndina ganga fjölmörg atriði þar sem notast er við tölvubrellur þar sem áður var notast praktískar brellur í Hringadróttinssögu. Fyrir vikið drukkna mörg hasaratriðanna í tölvubrelluhafi og virka hálf flöt. Galdurinn liggur í að blanda fyrrnefndum brellum saman og það ætti Jackson að vita og kunna.

Fyrsti hluti Hobbitans, The Hobbit: An Unexpected Journey, bendir ekki til þess að hér stefni í alveg jafn tilkomumikinn myndabálk og The Lord of the Rings en þrátt fyrir allt er myndin fínn upptaktur fyrir stórskemmtilegt ævintýri sem á eftir að springa út í næstu tveimur myndum og biðin er nú þegar byrjuð.

Leikstjóri: Peter Jackson
Handrit: Peter Jackson, Fran Walsh, Philippa Boyens, Guillermo del Toro
Leikarar: Martin Freeman, Ian McKellen, Richard Armitage, Andy Serkis, Hugo Weaving, Cate Blanchett, Elijah Wood, Christopher LeeSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða