A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Hobbit: The Desolation of Smaug | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: The Hobbit: The Desolation of Smaug (2013)

9. janúar '14 14:10 The Hobbit: The Desolation of Smaug

„The Hobbit: The Desolation of Smaug lullast áfram löturhægt og þótt það vanti hvorki hasar né hamagang þá skortir Jackson og handritsteymi hans efnivið í þessa 160 mínútna mynd.“

Ævintýri Bilbó Baggins og hans fjöruga föruneytis um Miðgarð heldur áfram og færist hópurinn stöðugt nær Fjallinu eina þar sem drekinn Smaug heldur sig og sefur á fjarsjóði miklum.

Fjölmargar ástæður eru fyrir því að kvikmyndagerðarfólki reynist oft erfitt að gera miðkaflann í þríleik og þær eru fáar miðmyndirnar sem eru betri en upphafskaflinn. Í tilfelli Hobbitans hefur leikstjórinn og handritshöfundurinn Peter Jackson tekið miðlungsþykka bók og flatt hana út í þrjár langar kvikmyndir og The Hobbit: The Desolation of Smaug ber þess greinileg merki.

Þráðurinn er tekinn upp þar sem skilið var við áhorfendur í The Hobbit: An Unexpected Journey, rétt eftir að hafa komist lífs af undan orkum og drýslum. Í The Hobbit: The Desolation of Smaug lullast söguþráðurinn áfram löturhægt og þótt það vanti hvorki hasar né hamagang þá skortir Jackson og handritsteymi hans efnivið í þessa 160 mínútna mynd. Og þegar líða fer á myndina byrjar maður að finna hversu mikið er búið að teygja lopann með útúrdúrum.

Það er skondið að hugsa til þess að þótt finna megi fjölmörg spennandi og skemmtileg atriði í myndinni þá eru atriðin sem virka of löng eða einfaldlega óþörf nánast jafn mörg. Í blálok myndarinnar er skilið við áhorfendur í miðju atriði sem kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti. Ferðin að Fjallinu eina tekur því nokkuð á. Það er engu líkara en að allar persónurnar hafi þurft að láta ljós sitt skína í þessari mynd en föruneytið hefur tekið litlum breytingum eftir atburði fyrri myndarinnar, að Bilbó undanskildum sem er orðinn veraldarvanari, kominn með harðari skráp og gerir sér lítið fyrir og slátrar nokkrum risaköngulóm.  Dvergarnir þrettán og vitkinn Gandalfur eru sjálfum sér líkir eins og búast mátti við.

Martin Freeman virðist almennt vera öruggari í hlutverki hobbitans Bilbó. Hann hefur að minnsta kosti meira að gera í þessari en þeirri fyrri og á afar góð atriði með drekanum Smaug sem félagi Freemans úr sjónvarpsþáttunum Sherlock, Benedict Chumberbatch, talar fyrir. Gamla brýnið Ian McKellen er alltaf jafn traustur sem Gandalfur. Orlando Bloom endurtekur hlutverk sitt úr Hringadróttinssögu sem álfurinn fimi Legolas og Evangeline Lilly lætur orkanna finna fyrir því í hlutverki álfsins Tauriel. Sá mæti snillingur Stephen Fry kemur einnig fram í stuttu hlutverki sem spilltur borgarstjóri sem girnist fjársjóðinn mikla.

Það verður að segjast eins og er að The Hobbit: The Desolation of Smaug reyndist vera ögn veikara innslag í þennan metnaðarfulla kvikmyndabálk en maður bjóst við. Ferðalag þeirra kumpána heldur áfram næstu jól í The Hobbit: There and Back Again og vonast ég til þess að botninn verði sleginn í þessa æðislegu ævintýrasögu með viðeigandi og almennilegum hætti.

Leikstjóri: Peter Jackson
Handrit: Peter Jackson, Fran Walsh, Philippa Boyens, Guillermo del Toro
Leikarar: Martin Freeman, Ian McKellen, Richard Armitage, Orlando Bloom, Evangeline Lilly, Stephen FrySvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða