A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Human Centipede | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: The Human Centipede (2009)

8. nóvember '11 11:11 The Human Centipede

„Þótt grunnhugmynd Tom Six að The Human Centipede sé svo viðbjóðslega sjúk og fráhrindandi að það hálfa væri nóg er myndin þar fyrir utan ósköp lítið annað en dæmigerð hryllingsmynd... “

The Human Centipede er viðbjóður en þó ekki næstum því jafn ógeðsleg og fólk virðist ímynda sér út frá innihaldslýsingu. Þar sem Tom Six, leikstjóri myndarinnar, er væntanlegur til landsins í vikunni til þess að vera viðstaddur forsýningu The Human Centipede 2 er ekki úr vegi að rifja upp fyrstu myndinina í því sem Six ætlar að hafa þríleik.

Dr. Heiter er snargeðbilaður skuðrlæknir sem er hættur störfum. Hann sérhæfði sig í að aðskilja síamstvíbura þegar hann var upp á sitt besta en nú er allt komið á hvolf í hausnum á honum og hann lætur sig dreyma um að sauma þrjár manneskjur saman, munn við rass, og búa þannig til mennska margfætlu.

Læknirinn býr í afskektu stórhýsi í þýskum skógi þar sem hann hefur komið sér upp fínni skurðstofu með öllu tilheyrandi sem þarf til þess að láta sjúkan draum sinn rætast. Drungalega rigningarnótt fær Heider óvænt og ánægjulegt tækifæri til þess að hefjast handa fyrir alvöru þegar bandarísku ferðakonurnar Lindsay og Jenny banka upp á hjá honum í bölvuðum vandræðum með sprungið dekk undir bílaleigubílnum sínum. Heider er snöggur til, gefur stelpunum rohypnolmengað vatn og þær vakna til meðvitundar kyrfilega bundnar við sjúkrarúm í kjallara brjálæðingsins.

Heider rænir síðan japananum Katsuro og byrjar síðan saumaskapinn á fullu. Heider er einhvers konar kokteill úr Jósef Mengele og dr. Frankenstein en er svo huggulegur að deyfa og svæfa fórnarlömb sín áður en hann steypir þeim saman í tólfættan óskapnað. Nægur er viðbjóðurinn og þjáningin samt. Hápunkturinn í sjúkleikanum er svo eins og gefur að  skilja það ónotalega augnablik þegar fremsti maður getur ekki haldið í sér lengur og gerir númer tvö upp í millistykkið sem óneitanlega er óheppnasta manneskjan í halarófunni.

The Human Centipede er eins og gefur að skilja þvottekta pyntingaklám en ólíkt Hostel, Saw og öðrum myndum sem sverja sig í sömu ætt tekur líknandi dauðinn ekki við af tímabundnum píslum fórnarlamba í höndum brjálaðra kvalara sinna. Heider ætlar margfætlunni sinni langt líf og niðurlæging þremenninganna í halarófunni er einhvern veginn verri en kvalafullur dauðdagi og enginn þarf að láta sér detta til hugar að nokkur manneskja komist heil á  geði frá gróteskri skrúðgöngu Heiders.

Þótt grunnhugmynd Tom Six að The Human Centipede sé svo viðbjóðslega sjúk og fráhrindandi að það hálfa væri nóg er myndin þar fyrir utan ósköp lítið annað en dæmigerð hryllingsmynd um ungt fólk sem lendir í klónum á geðsjúklingi sem að þessu sinni er með skurðhníf á lofti frekar en vélsög eða sveðju. Og myndin er meira að segja nokkuð góð sem slík. Vel yfir meðallagi spennandi, ógeðsleg og fyndin á köflum. Six hrúgar stundum saman öllum klisjum unglingahrollvekjanna svo grímulaust að maðurinn hlýtur að vera að djóka og ef hann er með húmor er honum ekki alls varnað.

Dieter Laser er ógeðslegur og ógnvekjandi í hlutverki Heiders en um leið eini maðurinn í myndinni sem má segja að reyni að leika af einhverju viti. Stelpurnar sem leika Lindsay og Jenny eru sætar en leikhæfileikar þeirra myndu varla koma þeim í gegnum miðlungsvonda klámmynd. Allt gengur þetta þó einhvern veginn upp á skemmtilega sjúkan hátt og þeir sem treysta sér í gegnum örfá stutt og sérlega ónotaleg atriði uppskera ágætan hroll sem gleymist seint án þess þó að valda áhorfendum varanlegu andlegu tjóni.
 

Leikstjóri: Tom Six
Handrit: Tom Six
Leikarar: Ashley C. Williams, Ashlynn YennieSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða