A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Last Stand | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: The Last Stand (2013)

7. febrúar '13 21:09 The Last Stand

„The Last Stand kom undirrituðum töluvert á óvart og reyndist vera þessi fínasta skemmtun þar sem hasar og húmor eru í fyrirrúmi, og vitaskuld fær Schwarzenegger plús í kladdann fyrir að standa við sín fleygnu orð, „I'll be back" og komi hann fagnandi.“

Eiturlyfjabarón er á flótta undan alríkislögreglunni og flóttaleið hans liggur í gegnum smábæ sem er við landamæri Mexíkó. Það eina sem stendur í vegi fyrir að hann geti um frjálst höfuð strokið í Mexíkó er lögreglustjórinn í bænum og teymi hans.

„I'll be back" lofaði maðurinn og eftir tæplega áratugar fjarveru frá hvíta tjaldinu er Arnold Schwarzenegger snúinn aftur í The Last Stand. Að vísu hefur hann komið fram í minni hlutverkum í kvikmyndum á þessum tíma en The Last Stand er raunveruleg endurkoma hans enda er hann stjarna myndarinnar.

Kim Jee-woon leikstýrir hér sinni fyrstu kvikmynd á ensku en hann gerði meðal annars hina stórskemmtilegu The Good, the Bad and the Weird sem er ein besta ævintýramynd síðastliðinna ára. The Last Stand er í raun nýstárlegur vestri þar sem ólíklegur og skrautlegur hópur stendur vörð um bæinn sinn og mörg hver eru hasaratriðin glettilega fjörug og skemmtileg.

Ólíkt starfsbróður sínum, Sylvester Stallone, hefur Schwarzenegger með The Last Stand valið sér hlutverk sem er sniðið að aldri hans. Og það er ekkert verið að fara leynt með það. Aldurinn, og þá sérstaklega ástandið, er snúið honum í hag og í ófá skipti er haft orð á því hversu „gamall” hann sé.

Frægðarsól Schwarzeneggers stóð í hádegisstað í kringum tíunda áratuginn og löngu var farið að halla undan fæti áður hann sneri sér að starfi ríkisstjóra Kaliforníu. Hver myndin hafði þá komið á fætur annari þar sem hann sat illa í hlutverkum og reyndi of mikið að vera það sem hann áður var. Hér passar hann furðuvel í hlutverk lögreglustjórans og fer með bjagaðar en um leið fleygnar setningar eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. Sem er eiginlega alveg málið.

Skrautlegur hópur leikara sem samanstendur af Johnny Knoxville, Luis Guzmán, Jamie Alexander og Rodrigo Santoro leggur Schwarzenegger lið í myndinni og vel má hlæja að uppátækjum þeirra. Peter Stormare er alltaf jafn traustur í hlutverki steríotýpíska skúrksins og alltaf má treysta á að Forest Whitaker ofleiki persónur. Menn gerast varla leiðinlegri og þurrari en hann.

Aðdáendur sem hafa beðið eftir endurkomu Schwarzenegger, líkt og um endurkomu Krists væri að ræða, gætu orðið fyrir vonbrigðum. Hann fer aldrei úr skyrtunni, ber ekki trjábol á öxlinni eða hleypur með vélbyssu og sallar niður mannskapinn. Heldur gerir hann þetta á sínum eigin hraða og ekkert er út á það að setja.

The Last Stand kom undirrituðum töluvert á óvart og reyndist vera þessi fínasta skemmtun þar sem hasar og húmor eru í fyrirrúmi, og vitaskuld fær Schwarzenegger plús í kladdann fyrir að standa við sín fleygnu orð, „I'll be back" og komi hann fagnandi.

Leikstjóri: Jee-woon Kim
Handrit: Andrew Knauer, Jeffrey Nachmanoff, George Nolfi
Leikarar: Arnold Schwarzenegger, Luis Guzmán, Jaimie Alexander, Johnny Knoxville, Peter Stormare, Forest WhitakerSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða