A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The LEGO Movie | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: The LEGO Movie (2014)

27. febrúar '14 18:36 The LEGO Movie

„The LEGO Movie er ein skemmtilegasta og ánægjulegasta fjölskyldumynd sem komið hefur í kvikmyndahús í þónokkurn tíma.“

Líf LEGO-kallsins Emmet umturnast þegar hann finnur forláta kubb sem sögur segja af að sá útvaldi eigi að finna og að hann sé sá einni sem geti bjargað heiminum frá illa einræðisherranum forseta Business.

Hinir dönsku LEGO-kubbar eru meðal vinsælustu leikfanga í heiminum og það einfaldlega hlaut að koma að því að kvikmynd sem byggir á þeim yrði gerð og nú er hún loksins komin. Sem aðdáandi kubbanna vinsælu reyndi ég að hafa væntingar í lágmarki en eftir á að hyggja var það óþarfi þar sem myndin er ótrúlega meiriháttar.

Þeir félagar Phil Lord og Chris Miller sem gerðu teiknimyndina frábæru Cloudy with a Chance of Meatballs og gamanmyndina 21 Jump Street leikstýra þessari litríku, steiktu og æðislegu teiknimynd. Í The LEGO Movie má finna sama húmor, hraða og frumleika og einkennir fyrrnefndar myndir og þeir skila LEGO-myndinni af sér með glæsibrag.

Atburðarásin er ótrúlega fjörug og hress þar sem Emmet ferðast milli mismunandi LEGO-heima og eignast nýja vini í stórskemmtilegri atburðarás sem kemur sífellt á óvart. Bráðfyndnar uppákomur og samtöl, stórskrýtnar persónur og dass af góðum boðskapi ná ansi langt.

Þótt myndin beri þess ekki merki þá leynist í sögunni samfélagsgagnrýni og gagnrýni á neyslusamfélagið sem vill steypa alla í sömu stöðluðu mótin. Allir horfa á sama heiladauða sjónvarpsþáttinn, hlusta á sömu tónlistina og svo framvegis þannig að sköpunargáfan er óþörf og sjálfstæð hugsun og allt sem er „öðruvísi“ er litið hornauga.

Þótt meginstraumurinn geti verið ánægjulegur þá er sá heimur sem meðtekur fjölbreytni og sköpunargleði í allri sinni dýrð alltaf betri en stöðluð veröld þar sem allir fara eftir fyrirfram gefnum leiðbeiningum, eða teikningum eins og í myndinni. Boðskapur myndarinnar er einfaldur og hún hvetur til þess að sköpunargleðinni sé leyft að leika lausum hala. Þessum skilaboðum er beint jafnt til barna og foreldra og þau ættu að hitta í mark hjá ungum sem öldnum.

Chris Pratt, Will Arnett, Elizabeth Banks, Liam Neeson, Alison Brie, Will Ferrell og Morgan Freeman ásamt öðrum ljá fjölskrúðugum LEGO-köllum raddir sínar og er leikhópurinn eins og hann leggur sig frábær í stórum sem smáum hlutverkum. Gamanleikarinn Arnett fer til dæmis með hlutverk Batmans af stakri snilld og Freeman sem þurr en bráðfyndinn forsprakki hópsins sem Emmet gengur til liðs við í baráttunni við forseta Business.

Auk Batmans eru Han Solo, Chewbacca, Abraham Lincoln, Green Lantern, William Shakespeare og Gandálfur á meðal þeirra fjölda persóna sem bregður fyrir í myndinni. Jonah Hill og Channing Tatum, sem gerðu 21 Jump Street með leikstjórateyminu, fara með minni hlutverk sem ofurhetjurnar Green Lantern og Superman.

Tölvuteikningin í myndinni er ótrúlega flott og virkar eins og um stop-motion kvikmynd væri að ræða og nostrað er við hvert smáatriði til þess að gera stóran og öflugan LEGO-heiminn lifandi og gæti hann þess vegna verið byggður í kjallara hjá einhverjum.

Án frekari málalenginga er bara hægt að segja að The LEGO Movie ein skemmtilegasta og ánægjulegasta fjölskyldumynd sem komið hefur í kvikmyndahús í þónokkurn tíma. Það er ekki annað hægt en að elska þessa sniðugu og snjöllu mynd.

Leikstjóri: Phil Lord og Christopher Miller
Handrit: Phil Lord, Christopher Miller, Dan Hageman, Kevin Hageman
Leikarar: Chris Pratt, Will Arnett, Elizabeth Banks, Will Ferrell, Alison Brie, Morgan Freeman, Liam Neeson, Charlie Day, Jonah Hill, Channing Tatum, Dave FrancoSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða