A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Lone Ranger | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: The Lone Ranger (2013)

5. júlí '13 15:07 The Lone Ranger

„The Lone Ranger hefur auðvitað alla burði til þess að halda uppi góðri hasarmynd en eins ótrúlega og það hljómar þá eru Bruckheimer og Verbinski ekki réttu mennirnir til þess að leiða kúrekann á vit almennilegra ævintýra.“

Svo allrar sanngirni sé nú gætt þá má ofurframleiðandinn Jerry Bruckheimer eiga það að hann hefur í gegnum árin fært okkur stórfínar hasarmyndir og trausta sumarskemmtun þótt inn á milli hafi flotið alls konar rusl sem orðum er ekki eyðandi á. Hann, leikstjórinn Gore Verbinski og Johnny Depp hafa átt mjög ábatasamt samstarf á síðustu árum með Pirates of the Caribbean-myndunum. Þeir halda áfram að grafa eftir gulli en nú á sléttum Texas í villta vestrinu og dusta rykið af hinum fornfræga laganna verði The Lone Ranger sem hélt illþýði í skefjum, þeysandi á hestinum Silver og hinn trausta indíána Tonto sér við hlið.

The Lone Ranger hefur auðvitað alla burði til þess að halda uppi góðri hasarmynd en eins ótrúlega og það hljómar þá eru Bruckheimer og Verbinski ekki réttu mennirnir til þess að leiða kúrekann á vit almennilegra ævintýra. Bruckheimer lætur best að sprengja hluti í tætlur og keyra áfram heiladofna spennu. Hann er ekki góður sögumaður og það er Verbinski ekki heldur eins og Pirates-myndirnar bera svo skýrt vitni. Sú fyrsta var fyrirmyndar skemmtun en síðan urðu þær leiðinlegri og leiðinlegri, sagan þvældari og óþolandi flókin. The Lone Ranger er sama marki brennd og mætti í raun stimpla hana „Pirates 5“.

Semsagt. Verbinski og Bruckheimer eiga ekki að reyna að segja sögur en því miður leggja þeir eina ferðina á það vað og ætla sér að tromma upp með magnaða sköpunarsögu The Lone Ranger. Saman við þetta hræra þeir helfararsögu indíána í Bandaríkjunum og alls konar hliðarsögum og plottum í allar áttir. Alveg eins og í Pirates. Persónurnar eru því allt of margar og þeim félögum tekst engan veginn að koma sögum þeirra allra frá sér og enda með þetta allt í einum graut og mynd sem er í það minnsta klukkutíma of löng. Í raun er það ekkert annað en móðgun við áhorfendur að ætlast til þess að þeir taki þátt í eyðimerkurgöngu The Lone Ranger og Tonto í tæpar þrjár klukkustundir.

Verbinski hefur úr allt of miklu fé að moða hérna og Bruckheimer hefur greinilega allt of mikla trú á honum sem leikstjóra og það verður að teljast mesta furða að í jafn umfangsmikilli og kostnaðarsamri framleiðslu hafi ekki ein einasta manneskja, á einhverju tímapunkti rétt upp hönd og sagt: „Hey, við erum í tómu rugli með þetta.“

Ef til vill er ekki útilokað að einhver hafi aulað þessu upp úr sér og þá er næsta víst að Bruckheimer hefur yppt öxlum og sagt. „Ókei, skelliði þá Rossini á fóninn.“ Myndin tekur nefnilega ágætis krampakipp í lokin loksins þegar forleikur Rossinis að Vilhjálmi Tell er settur í botn og grímukæddi riddarinn skellir loks alveg á skeið. Maður fékk þá í það minnsta gæsahúð einu sinni á þessari allt of löngu mynd og auðvitað er það fyrir neðan allar hellur að þessi mannskapur þurfi að treysta á tónskáld sem lést 1868 til þess að redda sér fyrir horn með því að koma með kraft í myndina.

Forleikur Rossinis er einkennislag The Lone Ranger, mjög svo viðeigandi og hefur fylgt honum í gegnum áratugina og því hefði verið nær að byrja myndina með Rossini og tilheyrandi stuði frekar en að tapa sér í handónýtru handriti og óspennandi sögu. Sjálfsagt á þessi mynd að vera grunnur að nýjum myndaflokki en sköpunarsaga hetjunnar er svo óspennandi og Armie Hammer litlaus í aðalhlutverkinu að maður á þá ósk heitasta að Tonto og Rangerinn ríði út í sólarlagið og komi aldrei til baka.

Depp stendur fyrir sínu í hlutverki Tontos, sem er að þessu sinni nett bilaður á geði, en leikarinn má samt fara að hugsa sinn gang þar sem munurinn á sjóræningjanum Jack Sparrow og indíánanum er hættulega lítill og Depp leikur Tonto eins og hann sé enn með tremma og sjóriðu eftir Sparrow. Ef leikarinn næði sambandi við andaheiminn yrði lykilorð vitrunarinnar STÖÐNUN! 

Myndin er þó ekki alslæm og tekur spretti af og til með vel útfærðum hasaratriðum og þokkalegu gríni. Þessir sprettir eru bara of stuttir og allt of langt á milli þeirra þannig að þeir verða eins og vin í endalausri eyðimörk. The Lone Ranger er allt of lengi að byrja og það sem verra er að hún er enn lengur að klárast. En sem betur fer er Depp þó þarna og bjargar því sem bjargað verður en The Lone Ranger og goðsögn hans er enginn greiði gerður með þessu rándýra klúðri.

Leikstjóri: Gore Verbinski
Handrit: Ted Elliott, Terry Rossio, Justin Haythe
Leikarar: Johnny Depp, Armie Hammer, William Fichtner, Tom Wilkinson, Ruth Wilson, Helena Bonham Carter



Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða