A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Long Kiss Goodnight | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: The Long Kiss Goodnight (1996)

24. maí '13 16:59 The Long Kiss Goodnight

„The Long Kiss Goodnight er með allra bestu handritum Blacks en sorglega vanmetin spennumynd. Líklega vegna þess að í henni snýr Black hefðbundnum kynhlutverkum hasarmyndanna við þannig að unun er á að horfa.“

Shane Black, leikstjóri og handritshöfundur Iron Man 3, á heiðurinn af handritum frábærra spennumynda eins og Lethal Weapon, The Last Boyscout og The Long Kiss Goodnight og glöggir áhorfendur sjá hann leika með ýmis kunnugleg minni úr fyrri myndum sínum í myndinni um Járnkarlinn.

The Long Kiss Goodnight er með allra bestu handritum Blacks en sorglega vanmetin spennumynd. Líklega vegna þess að í henni snýr Black hefðbundnum kynhlutverkum hasarmyndanna við þannig að unun er á að horfa. Geena Davis leikur harðjaxlinn og aðalhetjuna í myndinni en sjálfur Samuel L. Jackson er sívælandi og nöldrandi myndina út í gegn og stendur sig engan veginn í stykkinu sem karlhetjan. Þáverandi eiginmaður Geenu, Finninn Renny Harlin, leikstýrði myndinni sem hlýtur að teljast hans besta verk. Miklu betri en Die Hard 2, til dæmis.

The Long Kiss Goodnight kom út 1996. Töluvert fyrir tíma Angelinu Jolie sem hasarhetju og ég setti þá fram þá kenningu að myndin hafi ekki gengið betur en raun var vitni vegna þess að Bandaríkjamenn gætu einungis sætt sig við Sigourney Weaver sem sterka konu og sigurvegara í hasarmyndum. Og þá helst í baráttu við geimverur frekar en hið alræmda feðraveldi.

Davis leikur Samönthu Caine, hlédræga konu, móður og kennara sem lifir ósköp notalegu lífi með dóttur sinni og huggulegum eiginmanni. Hún á það þó til að sýna ótrúlega færni í meðferð til dæmis búrhnífa og smám saman kemur í ljós að hún hefur bælt niður minningar um sitt fyrra líf. Þá var hún leigumorðinginn Charlie Baltimore. Toppmanneskja í sínu fagi sem var svikin af félögum sínum. Charlie tekur smám saman yfir og Samantha og fjölskylda hennar eru um leið í bráðri lífshættu.

Charlie/Sam grípur þá til sinna ráða og rekur slóð fjenda sinna með sínu gamla njósnarainnsæi og stútar öllum sem verða á vegi hennar. Í þessum hildarleik lendir hún í slagtogi með vonlausum einkaspæjara og svikahrappi, Mitch Henessey, sem Samuel L. Jackson leikur. Jackson hegðar sér og lítur út eins og hann hafi stigið beint út úr Pulp Fiction (1994) yfir í The Long Kiss Goodnight, fyrir utan það að hann hefur ekki snefil af þeirri hörku og grimmd sem Jules Winnfield bjó yfir í mynd Tarantinos.


Hann er í raun „kjéllingin“ í sambandi hans og Charlie/Sam sem gerir allt það sem ætlast er til af körlum eins og Jackson. Nöfn persónu Davis eru að sjálfsögðu augljós vísbending þar sem Charlie og Sam virka bæði sem karla og konunöfn. Sam/Charlie nuddar Mitch endalaust upp úr ræfildómi hans og er svo mikill nagli að þegar hún mætir óvinum sínum segir hún þeim hiklaust að sjúga á tittlinginn á sér. Semsagt, alveg fyrsta flokks gender bender og meiri töffari en margur karlinn í spennumyndum. Og það mátti að því er virðist ekki 1996.

Höfðingjarnir Brian Cox og David Morse eru í fantaformi í hlutverkum lærimeistara Charlie og eins höfuðóvinarins og pyntinga atriðið þar sem Charlie sækir byssu í klof síns gamla kennara er sérlega eftirminnilegt. Craig Bierko er leikari sem á sérlega auðvelt með að vera óþolandi og hann hefur líklega aldrei verið betri en skíthællinn Timothy sem á óuppgerðar sakir við skólakennarann ljúfa sem reyndist vera grjótharður morðingi.

Sígild setning: Charlie: Suck my dick, every one of you bastards.

Leikstjóri: Renny Harlin
Handrit: Shane Black
Leikarar: Geena Davis, Samuel L. Jackson, Brian Cox, David Morse , Craig BierkoSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða