A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Man with the Iron Fists | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: The Man with the Iron Fists (2012)

27. febrúar '14 16:21 The Man with the Iron Fists

„Kung Fu-mynd af gamla skólanum frá jafn miklum aðdáanda og RZA stærir sig af því að vera hefði verið betur þegin.“

Járnsmiður blandast inn í deilur milli tveggja ættbálka í þorpi einu í Kína þar sem hann ætlar að verja íbúa þess fyrir grimmum stríðsmönnum, glæpamönnum og morðingjum.

Rapparinn RZA, sem þekktastur er fyrir að vera stofnmeðlimur rapphópsins Wu-Tang Clan, hefur verið að reyna fyrir sér kvikmyndaleik í nokkur ár með misgóðum árangri. RZA er að eigin sögn Kung Fu-gúru og gegnir hvorki meira né minna en fjögur hlutverkum við gerð bardagamyndarinnar The Man with the Iron Fists.

Eli Roth skrifar handritið með RZA, sem tekur sér hlutverk leikstjóra, handritshöfundar, tónskálds og fer með aðalhlutverkið í myndinni. Í sjálfu sér hljómar The Man with the Iron Fists ótrúlega vel á blaði í ljósi þess að hann fær vin sinn Quentin Tarantino til þess að leggja blessun sína yfir myndina en útfærslan er þvæld og gengur einfaldlega ekki upp.

Kung Fu-myndir eru ekki þekktar fyrir umfangsmikinn eða innihaldsríkan söguþráð en hér er þessu þveröfugt farið og sagan er svo plássfrek að hún kemst ekki nógu vel til skila. Í raun hefði mátt gera aukamynd til þess eins að segja söguna alla. Það vantar hvorki hasarinn né blóðsúthellingarnar og ofursvöl bardagaatriði eru á sínum stað, en snöggar klippingar og kvikmyndataka valda því að þau njóta sín ekki.

Auk RZA leika Lucy Lui, David Bautista, Jamie Chung, Byron Mann og Rick Yune í myndinni. Þó fær enginn meira vægi í myndinni en en Russell Crowe í hlutverki perversks drápsglaðs Breta sem leggur járnsmiðnum hjálparhönd í baráttunni við ættbálkanna.

Það er engu líkara en að RZA hafi tekið of stórt upp í sig þegar hann lagði upp með að fara með jafn mörg lykilhlutverk í einni kvikmynd og virkar fyrir vikið virkar hann sjálfumglaður því að hann er enginn Clint Eastwood eða Orson Welles. Kung Fu-mynd af gamla skólanum frá jafn miklum aðdáanda og RZA stærir sig af því að vera hefði verið betur þegin.

Leikstjóri: RZA
Handrit: RZA, Eli Roth
Leikarar: RZA, Russell Crowe, Lucy Lui, David Bautista, Jamie Chung, Byron Mann, Rick YuneSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða