A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Monuments Men | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: The Monuments Men (2014)

7. mars '14 12:17 The Monuments Men

„Eins mikið og The Monuments Men vill vera Ocean's Eleven í seinni heimstyrjöldinni þá virkar hún einfaldlega ekki sem slík.“

Stjórnvöld í Bandaríkjunum gerðu út hóp sérfræðinga í seinni heimstyrjöldinni til þess að endurheimta stolin listaverk úr klóm nasista sem fóru ránshendi um þau lönd sem þeir hertóku.

The Monuments Men, The Guns from Navarone, The Dirty Dozen, Inglourious Basterds og jafnvel The Expendables tilheyra ákveðnum undirflokki kvikmynda sem hverfast um menn í sendiför (e. men on a mission) þar sem valinn maður er í hverju rúmi og allir þjóna ákveðnum tilgangi. Þá má einnig setja Ocean's Eleven í þennan flokk kvikmynda.

Þúsundþjalasmiðurinn George Clooney framleiðir, skrifar, leikstýrir og fer með aðalhlutverkið í The Monuments Men sem byggir á sönnum atburðum. Í myndinni leiðir hann hóp vaskra „minnisvarða" sem fengu þessu stórmerkilega verkefni úthlutað. Starf þeirra er mjög áhugavert en handritið, sem Grant Heslov og Clooney skrifa, gerir hvorki mönnunum né starfi þeirra nægilega góð skil. Ekki hjálpar heldur til hversu illa myndin er klippt þar sem hraðinn á atburðarásinni er afar ójafn og  engu líkara en að hún hafi verið stokkuð í annarri röð en handritið var skrifað í.

Efniviðurinn, leikhópurinn og leikstjórnin eru til staðar en Clooney tekst ekki að gera heilsteypta kvikmynd úr þessu handriti. Í upphafi er áætlun hópsins kynnt til sögunnar, mannskapnum smalað saman og strengir stilltir saman en svo fellur frásögnin kylliflöt og þótt að þeir virðist ekki koma neinu í verk þá eiga þeir að vera brillera í starfi sínu. Auk þess eru reglulega teknir útúrdúrar sem þvælast fyrir og hægja bara á sögunni.

Clooney hefur til umráða vígalegan hóp leikara, þar á meðal Matt Damon, Cate Blanchett, Jean Dujardin, Bob Balaban, John Goodman og Bill Murray. Hópurinn virkar sem heild en þegar persónurnar eru paraðar saman þá virðist ekkert ganga nema hjá þeim Balaban og Murray. Heiðarleg tilraun er gerð til þess að skapa rómans milli persóna Damons og Blanchetts sem mistekst hraparlega og gerir persónu Blanchetts nánast óþarfa fyrir atburðarásina. Jafnvægið milli húmors og alvöru er alveg kengruglað svo leikararnir vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga stíga í. Fyrir utan Murray sem er bara sígildur Bill Murray.

Eins mikið og The Monuments Men vill vera Ocean's Eleven í seinni heimstyrjöldinni þá virkar hún einfaldlega ekki sem slík. Mikilvægi starfs þessara manna, sem lögðu líf og limi í hættu til þess að  menningarleg arfleið þeirra þjóða sem hyski Hitlers herjaði á héldi velli, er óumdeilt og handritið hafði mátt gera meira úr því en raun ber vitni.  

Leikstjóri: George Clooney
Handrit: George Clooney, Grant Heslov
Leikarar: George Clooney, Matt Damon, Bill Murray, John Goodman, Jean Dujardin, Bob Balaban, Hugh Bonneville, Cate BlanchettSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða