A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Punisher | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: The Punisher (2004)

26. júní '13 17:39 The Punisher

„Myndin er sem sagt full róleg fyrir aðalpersónuna og það eru allt of fáir drepnir þó Castle taki vissulega góða syrpu í lokin.“

Frank Castle, betur þekktur sem The Punisher, er í hópi skemmtilegustu Marvel-hetjanna, ekki síst vegna þess að hann sker sig úr hópnum. Hann býr ekki yfir neinum yfirnáttúrulegum hæfileikum og notar byssur og önnur vopn, líkamsstyrk sinn og herþjálfun í eins manns herferð sinni gegn glæpahyski sem hann hefur ákveðið að útrýma af einurð og festu í endalausum hefndarleiðangri fyrir fjölskyldu sína sem féll í skotbardaga á milli mafíugengja.

The Punisher er heldur ekki bundinn af mórölskum vangaveltum og tekur harðar á skúrkunum en aðrar Marvel-hetjur. Hann útdeilir réttlætinu á sinn hátt og ræðst gegn andstæðingum sínum með það fyrir augum að drepa þá. Hann á því oft í útistöðum við hinn hjartahreina Spider-Man, hinn stálheiðarlega Daredevil og ólíkindatólið Wolverine.

The Punisher mætti fyrst til leiks í bíó 1989 þegar sjálfur Dolph Lundgren lék Castle í mynd sem var frekar hallærisleg í þá daga og er í besta falli hlægileg í dag. Þá lék sá harði nagli Ray Stevenson (Rome, Thor, Dexter) Frank í Punisher: War Zone árið 2008 sem er óumdeilanlega besta Punisher-myndin og sú sem kemst næst kjarna persónunnar.

Hér erum við síðan með The Punisher frá 2004. Mynd sem hefði átt að marka upphaf almennilegs ferils Castle í bíó en tókst engan veginn að heilla áhorfendur og ryðja refsivendinum braut á hinum breiða vegi velgengninnar sem aðrar Marvel-hetjur höfðu fetað áður og gera enn. Thomas Jane er að vísu kjörinn í hlutverk Castle en nær ekki að fóta sig í tætingslegri sögunni.

Búningur The Punisher er hér einfaldur og laus við allt prjál. Bara svartur stuttermabolur með hauskúpulógói og svartur leðurfrakki. Hann er semsagt miklu meiri töffari en Spider-Man og Daredevil fyrir utan það að hann er laus við alla manngæsku og drepur vondu kallana miskunnarlaust.

Teiknimyndasöguhöfundurinn Garth Ennis lífgaði Castle við í sögunni Welcome Back Frank fyrir nokkrum árum og þessi nýja Punisher-mynd byggir að hluta til á þeirri sögu sem er auðvitað hið besta mál. Að ósekju hefði þó mátt byggja myndina eingöngu á sögu Ennis þar sem handritið er veikasti hlekkurinn í þessari annars ágætu hasarmynd. Hér eru í raun sömu mistökin og gerð voru með Daredevil-myndina endurtekin en handrit þeirrar myndar var kokkað upp úr nokkrum frægum Daredevil-teiknimyndasögum í stað þess að byggja eingöngu á verkum Franks Miller. En hvaða fífl sem er hefði átt að gera sér grein fyrir því að það væri eina leiðin til að skila DD á hvíta tjaldið.

Þessi feill er þó ekki jafn alvarlegur í tilfelli The Punisher þar sem leikstjórinn og handritshöfundurinn eru með grunneðlisþætti Refsarans á hreinu auk þess sem Jane er hárréttur maður til að túlka morðóða brjálæðinginn. Jane er fjallmyndarlegur þó hann sé alls ekkert súkkulaði enda karlmennskan uppmáluð ólíkt Ben Affleck sem steingeldi Daredevil í rauða, kerlingarlega latex samfestingnum sínum. Þá er The Punisher mun ruddalegri en aðrar nýlegar ofurhetjumyndir, sem er líka hið besta mál. Þetta er engin barnamynd.

John Travolta er frekar slappur í hlutverki vonda kallsins sem lætur myrða stórfjölskyldu Castles sem má því horfa upp á pabba sinn, mömmu, eiginkonu og son drepinn. Sjálfur kemst hann undan við illan leik og ákveður að endurgjalda Travolta í sömu mynt. Hann telur sig þó hins vegar ekki vera að hefna fjölskyldu sinnar heldur einfaldlega að refsa hinum seku og þá er ekki tekið á málum með neinum silkihönskum.

Sem fyrr segir er sagan helsti veikleiki myndarinnar en hún eyðir of miklum tíma í aðdraganda refsingarinnar og The Punisher leggur allt of mikið upp úr flóknum plottum til að grafa undan óvininum. Sem einlægur aðdáandi Castles vildi ég bara sjá hann skella sér í leðrið, kippa með sér nokkrum stórum byssum og skjóta allt kvikt í klessu. Myndin er sem sagt full róleg fyrir aðalpersónuna og það eru allt of fáir drepnir þó Castle taki vissulega góða syrpu í lokin.  

Leikstjóri: Jonathan Hensleigh
Handrit: Jonathan Hensleigh, Michael France
Leikarar: Thomas Jane, John Travolta, Roy Scheider, Laura Harring, Ben FosterSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða