A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Wicker Man | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: The Wicker Man (1973)

29. nóvember '11 11:34 The Wicker Man

„Hryllingurinn kraumar undir niðri og fyrnasterkt lokaatriðið hefur svo djúpstæð áhrif á mann, að maður getur einhvern veginn ekki hugsað sér að sjá þessa kynngimögnuðu mynd aftur.“

The Wicker Man er snilldarhrollvekja frá árinu 1973. Myndin greinir frá réttsýnum og sannkristnum lögreglufulltrúa sem kemur til afskekktrar skoskrar eyju til að rannsaka dularfullt hvarf ungrar stúlku. Hann kemst hægt og rólega að því að samfélag eyjarskegga er meira en lítið brenglað og hundheiðið. Atburðarásin er róleg og einhvern veginn finnst manni lítið vera að gerast. Myndin gengur mikið út á samtöl persóna og nánst ekkert ofbeldi er sýnt, en hryllingurinn kraumar undir niðri og fyrnasterkt lokaatriðið hefur svo djúpstæð áhrif á mann, að maður getur einhvern veginn ekki hugsað sér að sjá þessa kynngimögnuðu mynd aftur.

Edward Woodward, sem gerði garðinn frægan í The Equalizer í árdaga Stöðvar 2, leikur lögreglufulltrúann snilldarlega, þannig að áhorfandinn fær strax mikla samkennd með honum og lifir sig sterkar inn í örvæntingu hans, eftir því sem hann kemst nær hroðalegum sannleikanum. Tveir traustir hryllingsleikarar úr Hammer-genginu, þau Christopher (Dracula) Lee og Ingrid Pitt eru stórgóð í hlutverkum sínum og þáttur Lees í að gera myndina jafn ógnvekjandi og raun ber vitni verður seint vanmetinn. Hann er hreint út sagt frábær sem Summerisle lávarður, sem stjórnar snarbrengluðum trúarsöfnuðinum sem eyjarskeggjar fylla.
Britt Ekland er einnig í veigamiklu hlutverki og stripplast svoldið fyrir okkur og fór það aðtriði svo í taugarnar á kærastanum hennar, raularanum afbrýðisama Rod Stewart, að hann reyndi að kaupa upp öll eintök myndarinnar og koma þannig í veg fyrir dreifingu hennar.

The Wicker Man er stórlega vanmetin mynd, sem hefur ekki hlotið þann sess sem henni ber í hryllingsmyndavirðingarstiganum, en hér er tvímælalaust á ferðinni mynd sem skilur ekki síður mikið eftir sig en til dæmis Don´t Look Now (sem er ein sú allra magnaðasta) eftir Nic Roeg.

Fyrir nokkrum árum var The Wicker Man endurgerð með Nicolas Cage í hlutverki löggunnar sem dregst grunlaus ofan í hyldýpi ofsatrúar og mannfórna en sú mynd er svo skelfilega vond að réttast væri að Rod Stewart keypti frekar upp öll eintök hennar og léti brenna á báli. Þá hefur The Wicker Man í það minnsta verið stæld í tvígang í frekar slöppum myndum, Spellbinder og Darklands, en allir sem hafa áhuga á góðum hryllingi og finnst lúmskur hrollur notalegur ættu að kíkja á frummyndina.

The Wicker Man er tær snilld og einstaklega áhrifarík og áleitin hryllingsmynd og það segir sína sögu að þegar ég horfði á hina annars ágætu Evil Dead og The Wicker Man í röð fyrir mörgum árum þá virkaði sú fyrrnefna nánast sem léttmeti á borð við Pretty Woman í samanburðinum, þótt hún geri út á líkamlegan viðbjóð og ódýr og sígild bregðutrix.


 

Leikstjóri: Robin Hardy
Handrit: Anthony Shaffer
Leikarar: Edward Woodward, Christopher Lee, Britt EklandSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða