A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Wolf of Wall Street | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: The Wolf of Wall Street (2013)

27. desember '13 14:59 The Wolf of Wall Street

„Með The Wolf of Wall Street hafa Scorsese og DiCaprio gert eina bestu mynd ársins sem á fullt erindi á lista yfir bestu kvikmyndir leikstjórans trausta.“

Verðbréfasalinn Jordan Belfort fór geyst á Wall Street á tíunda áratugnum og varð á skömmum tíma einn umsvifamesti miðlarinn á Wall Street, að vísu með svikum, prettum og hjálp góðra vina.

Þrátt fyrir að vera kominn á áttræðisaldur lætur meistari Martin Scorsese ekki deigan síga og mætir nú galvaskur í kvikmyndahús með The Wolf of Wall Street. Þessi súrelíska saga af risi og falli Belforts er lyginni líkust og rétt eins og áður þegar Scorsese á í hlut er hvergi dregið úr.

Leonardo DiCaprio, sem leikur Belfort, sagði við blaðamenn að hann teldi sig með The Wolf of Wall Street vera að gera nútíma útgáfu af költ-myndinni Caligula. Því fer ekki fjarri, slíkt er sukkið og kynsvallið í myndinni en þeir eru fáir leikstjórarnir sem gætu gert þessari sögu jafn góð skil á hvíta tjaldinu og haldið skemmtanagildinu um leið en einmitt Scorsese.

Terence Winter, sem skóp sjónvarpsþættina Boardwalk Empire, skrifar handrit myndarinnar sem byggir á bókum Belforts um ævintýri hans í verðbréfabraski undir áhrifum vímuefna, peningaþvætti og tilheyrandi framhjáhaldi. Frá fyrstu mínútu þurfa áhorfendur að hafa sig alla við að fylgjast með kaótískri frásögn Belforts sem spannar nokkur ár, fjölda milljarða og fleiri kílógrömm af kókaíni.

Atburðarásin gæti virkað sundurlaus en hraðinn og keyrslan á öllum hlutum eru slík að annað er ekki hægt. Líkt og um vímuefni væri að ræða þá ánetjast áhorfendur þessari kröftugu persónu sem Belfort er og það er ekki annað hægt en að bíða í ofvæni eftir næsta uppátæki hans. Snargeggjuð atburðarásin er hreint kostuleg og er handritið geysilega vel skrifað.

Það er í raun hægt að líkja The Wolf of Wall Street við meistarastykkið Goodfellas þar sem áhorfendur fylgdust með ungum Henry Hill vinna sig upp metorðsstigann í ítölsku mafíunni og sita svo að lokum uppi allslaus. Óumflýjanleg örlög Belforts hanga ómeðvitað yfir honum og ekki leynir sér í hvað stefnir.

Þess á milli er atburðarásin gjörsamlega óútreiknanleg. Það mætti halda að Scorsese hefði yngst um tvo áratugi við gerð The Wolf of Wall Street. Slíkur er krafturinn í meistaranum í myndinni. Þótt það vanti aðeins eina mínútu upp á að myndin sé þrír tímar verður myndin hvorki leiðinleg eða langdregin og rennur vel í gegn.

Leikhópurinn í heild sinni slær ekki feilnótu með DiCaprio í fremstan í röð fjölda stórgóðra leikara. Það er kynngimagnað að fylgjast með DiCaprio taka bólfestu í jafn skrautlegum persónuleika og Belfort er og ýkjulaust má fullyrða að DiCaprio hafi aldrei verið betri en nú. Það er til dæmis magnað að fylgjast með DiCaprio í ham predika, eins og liðþjálfa að stappa stálinu í hermenn í skotgröfinni, yfir fjölda starfsmanna á skrifstofu Belforts, vitandi hvað bíður þeirra að lokum.

Leikarinn Matthew McConaughey heldur áfram að vinna bug á áratuga dilkadrætti í hlutverkavali þegar honum bregður fyrir sem læriföður Belforts. Hlutverkið er ef til vill lítið en er veigamikið og hann stelur senunni yfir hádegisverði þar sem rætt er um að slökun og kókaín séu lykilinn að farsælum frama. Sama má segja um Jonah Hill sem er óborganlegur sem Donnie Azoff, hægri hönd Belforts, sem er djúpt sokkinn í þann ólifnað sem fylgir Belfort og vellystingum velgengninnar.

Ástralska leikkonan Margot Robbie leikur eiginkonu Belforts og fer með eina kvennhlutverkið í sóðalegum heimi undirförulla karla á Wall Street. Scorsese leikstýrir hvorki meira né minna en þremur þekktum leikstjórum í myndinni í misstórum hlutverkum, þeim Rob Reiner, Jon Favreau og Spike Jonze. Reiner er í stærsta hlutverkinu og sýnir góða takta sem faðir Belforts. Jean Dujardin, Jon Bernthal og Kyle Chandler fara einnig með hlutverk í myndinni.

Orðatiltæki grínistans Robins Williams, „kókaín er leið Guðs til þess að segja þér að þú þénar of mikinn pening," hefur sjaldan átt betur við en einmitt í grátbroslegri sögu Belforts. Þá bergmálar ódauðlegt slagorð Gordons Gekko „græðgi er góð,“ um The Wolf of Wall Street en með henni hafa Scorsese og DiCaprio gert eina bestu mynd ársins sem á fullt erindi á lista yfir bestu kvikmyndir leikstjórans trausta.

Leikstjóri: Martin Scorsese
Handrit: Terence Winter
Leikarar: Leonardo DiCaprio, Jonah Hill, Margot Robbie, Matthew McConaughey, Kyle Chandler, Rob Reiner, Jon Bernthal, Jean Dujardin, Jon Favreau, Spike JonzeSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða