A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Wolverine | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: The Wolverine (2013)

26. júlí '13 14:00 The Wolverine

„The Wolverine á góða spretti og það er flott að sjá persónuna flutta yfir í framandi umhverfi og ekki leynir sér að Mangold hefur sótt innblástur til japönskra kvikmynda og vestra.“

Wolverine hefur sagt skilið við ofbeldi og X-mennina og lifir nú fábrotnu lífi í litlum bæ í Bandaríkjunum. Ung kona nálgast hann og biður hann um að ferðast með sér til Japans til þess að kveðja gamlan vin. Þegar þangað er komið reynist vinurinn vera dauðvona og biður Wolverina um að gera sér einn greiða að lokum. Og áður en langt er liðið er Jarfi kominn með klærnar á loft og farinn að sneiða mann og annan.

Eftir tvær fantagóðar X-Men myndir, eina slappa og eina hrikalega slappa sjálfstæða mynd er Wolverine mættur aftur á hvíta tjaldið og það í leikstjórn James Mangold. Hugh Jackman endurtekur rullu Wolverine en rétt eins og með Robert Downey Jr. og Tony Stark, þá hefur Jackman slegið eign sína á hlutverkið.

Jarfi er stór í Japan í The Wolverine en X-Mennirnir draga sig í hlé í þessari lotu. Wolverine verður miðdepill fjölskyldudeilna, lendir upp á kanti við forna reglu ninja, yakuza-mafíuna og samúræja. Sá póll sem handritshöfundarnir og Mangold taka í hæðina á söguþræðinum, að gera jarðbundnari ofurhetjumynd og stilla Wolverine upp sem Ronin (samúræi án meistara), er útaf fyrir sig frábær og fer persónunni vel. Myndin er einkum stílhrein og fallega tekin í Japan.

Upphafsatriði myndarinnar, þar sem Wolverine er staddur í fangabúðum Japana í Nakasaki í seinni heimstyrjöldinni, er virkilega grípandi. Þrátt fyrir aðstæður tekur hann óvininn undir sinn verndarvæng og atriðið leggur grunninn að hugarfari Wolverine í myndinni.

Mangold er þrælgóður leikstjóri og í sjálfu sér er ekki mikið hægt að setja út á leikstjórn hans hér en handritið hefði mátt vera betra. Fyrri hluti myndarinnar heppnast mjög vel en myndin fellur flöt í seinni hlutanum þegar lokaatriðið fer úr takti við heildina og út í algera dellu.

Eins og fyrr segir hefur Jackman gert Wolverine að sínum og erfitt væri að hugsa sér annan leikara í hlutverkinu. Meðleikarar hans í myndinni eru þó slakari og þá aðalega Svetlana Khodchenkova sem stökkbreytingur og Rila Fukushima sem hjálparhella Jarfa en flestir aukaleikararnir eru Japanir. Enska og japanska eru talaðar á víxl í myndinni en þetta kryddar hlutina töluvert og brýtur myndina aðeins upp og gerir hana frábrugðna hefðbundnum ofurhetjumyndum.

The Wolverine á góða spretti og það er flott að sjá persónuna flutta yfir í framandi umhverfi og ekki leynir sér að Mangold hefur sótt innblástur til japönskra kvikmynda og vestra. Myndinni hefði líka farið það betur ef Mangold hefði haldið sig við stíl slíkra mynda allt til enda frekar en að missa sig í yfirkeyrðum og dæmigerðum myndasöguhasar í lokin.

Leikstjóri: James Mangold
Handrit: Mark Bomback, Scott Frank
Leikarar: Hugh Jackman, Tao Okamoto, Rila Fukushima, Hiroyuki Sanada og Svetlana KhodchenkovaSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða