A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

The Woodsman | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: The Woodsman (2004)

30. janúar '13 13:49 The Woodsman

„Myndin setur áhorfandann í þá óþægilegu stöðu að geta ekki komist hjá því að finna til með níðingnum. Barnaníðingurinn er kynntur til leiks sem manneskja en ekki skrímsli og það gerir manni óhjákvæmilega erfitt að afgreiða hann sem úrþvætti sem hefur fyrirgert tilverurétti sínum. “

Barnaníðingar eru í brennidepli samfélagsumræðunnar um þessar mundir og því vel við hæfi að draga The Woodsman úr bunkanum. Þótt myndin sé ekki gallalaus þá tekst hún ágætlega á við þá snúnu stöðu sem fólk er í gagnvart níðingunum þar sem þeir eru þrátt fyrir allt manneskjur en ekki skímsli sem hægt er að afgreiða eða útrýma utan dóms og laga

Walter er sleppt úr fangelsi eftir að hafa afplánað 12 ára dóm fyrir kynferðislega misnotkun á tveimur ungum stúlkum. Hann reynir að fóta sig í samfélaginu á ný, brennimerkur af glæpum sem fyrnast aldrei. Hann leigir sér íbúð gegnt leikskóla, eins viðeigandi og það nú er, og vinnur á trésmíðaverkstæði þar sem hann reynir að halda skuggalegri fortíð sinni leyndri fyrir vinnufélögunum.

Walter er vænsti drengur sem hefur skömm á sjálfum sér og hneigðum sínum og berst vonlítilli baráttu gegn barnalönguninni sem hann fær lítið við ráðið. Draumur hans er að verða „eðlilegur“  og geta horft á og talað við litlar stelpur án þess að girnast þær kynferðislega.

Kevin Bacon gerir persónu Walters frábær skil í The Woodsman en myndin setur áhorfandann í þá óþægilegu stöðu að geta ekki komist hjá því að finna til með níðingnum. Barnaníðingurinn er kynntur til leiks sem manneskja en ekki skrímsli og það gerir manni óhjákvæmilega erfitt að afgreiða hann sem úrþvætti sem hefur fyrirgert tilverurétti sínum. Walter er því búinn að vinna okkur á sitt band þegar hneigðirnar taka völdin og hann fer að fara á fjörurnar við 12 ára stúlku sem hann hefur augastað á en þau atriði eru virkilega óþægileg á að horfa.

Barátta Walters við sjálfan sig og umhverfi sitt er áhugaverð stúdía en þar sem hann er svo góður gæi þrátt fyrir brenglunina og félagslega einangrunina missir myndin nokkurn kraft þegar upp er staðið. Lausnin á flækjunni er líka full ódýr og maður er ekki alveg sáttur við hvað myndin og aðalpersóna hennar komast létt fram hjá þeim viðbjóði sem þær hverfast um

Nicole Kassell fær þó stórt prik fyrir þetta glæsilega byrjendaverk sitt og bæði leikstjórinn og ekki síst Kevin Bacon í aðalhlutverkinu sýna mikið hugrekki með því að sýna kynferðisglæpamann í þessu mannlega ljósi. The Woodsman er áhrifarík og eftirminnileg mynd sem hefði getað orðið frábær ef níðingurinn hefði ekki fengið smá Hollywoodglassúrslettu á sig.

 

Leikstjóri: Nicole Kassell
Handrit: Steven Fechter, Nicole Kassell
Leikarar: Kevin Bacon, Kyra Sedgwick, Mos DefSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða