A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

They Live | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: They Live (1988)

25. nóvember '11 16:18 They Live

„They Live er stórkostlega vanmetin Carpenter-mynd. Líklega vegna þess að hún er svolítið á skjön við það sem hann er þekktastur fyrir...“

Höldum aðeins áfram að róta í Carpenter-hrúgunni af því að hann er svo skemmtilegur. They Live er stórkostlega vanmetin Carpenter-mynd. Líklega vegna þess að hún er svolítið á skjön við það sem hann er þekktastur fyrir. Þetta er útúrspeisað tilbrigði við Invasion of the Body Snatchers-stefið og frekar undarlegur bræðingur hryllings og svarts gríns og er bara fyndin en ekkert ógnvekjandi.

Flækingurinn John Nada, leikinn af Roddy Piper sem virðist helst vera að leika Kurt Russell að leika Nada, kemur til Los Angeles. Bullandi kreppa og atvinnuleysi þjaka Bandaríkjamenn en Nada tekst þó að fá vinnu á byggingasvæði. Kvöld nokkur röltir hann fram hjá kirkju og finnur þar fyrir utan papakassa fullan af sólgleraugum.

Þetta eru samt engin venjuleg Ray Ban-sólgleraugu vegna þess að þegar maður horfir í gegnum þau sér maður heiminn í réttu ljósi. Og þegar Nada fer að líta í kringum sig sér hann raunverulegan boðskap auglýsinga sem snúast allar um að hvetja fólk til þess að fjölga sér og vera duglegt að kaupa drasl. Það versta er samt að skyndilega birtist fjöldi samborgaranna Nada sem ógeðslegar verur sem helst minna á húðflegnar manneskjur.

Í framhaldinu kemst okkar maður að því að hér eru á ferðinni geimverur sem hafa yfirtekið jörðina og fylla flokk þeirra ríku og valdamiklu á meðan blindaður pöpullinn er lítið annað en vinnumarurar sem kaupa og ríða og halda þannig hagkerfi geimveranna gangandi.

Þetta kallar að sjálfsögðu á uppreisn og Nada byrjar að dreifa sólgleraugum af miklu kappi og leiðir andspyrnuhóp sem hefur það lokatakmark að eyðileggja loftnet sem sendir út þær blekkingarbylgjur sem byrgja fólki sýn á raunveruleikann.

Öll er þessi sýra bráðskemmtileg fyndin og fjörug en eftirminnilegasta atriði myndarinnar er einhver lengsta slagsmálasena myndarinnar þar sem Nada reynir að sannfæra vinnufélaga sinn um að setja upp sólgleraugu og öðlast nýja sýn. Barsmíðar þeirra halda einhvern veginn áfram út í hið óendanlega og verða hallærislegri og fyndnari eftir því sem af köppunum dregur.

They Live var frumsýnd fyrir 23 árum en boðskapurinn stendur enn fyrir sínu og eiginlega er það þyngra en tárum taki að Nada hafi ekki komið með sólgleraugun sín til Íslands í gróðærinu.


 

Leikstjóri: John Carpenter
Handrit: Ray Nelson, John Carpenter
Leikarar: Roddy Piper, Keith David, Meg FosterSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða