A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Thinner | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Thinner (1996)

21. mars '14 14:33 Thinner

„Thinner mun seint teljast með því besta sem kvikmyndað hefur verið upp úr bókum Kings en nær þó að hefja sig upp yfir helsta ruslið í þeim stafla sem hefur verið klúðrað.“

Nú þegar líf margra hverfist um lágkolvetnakúra, 5:2, Biggest Loser og ótal trix til þess að ná af sér aukaspiki er ekki úr vegi að rifja upp öflugasta og árangursríkasta megrunarkúr sem sögur fara af. Eins og þeir vita, sem þekkja Thinner, virkar nefnilega ekkert betur til þess að grenna sig en sígaunabölvun. Eini gallinn er vitaskuld að þessi megrun dregur mann að lokum til dauða, en við drepumst nú hvort eð er öll.

Stephen King skrifaði Thinner undir dulnefninu Richard Bachman en útbreiðsla bókarinnar varð umtalsvert meiri eftir að í ljós kom hvaða höfðingi var að baki Bachmans. Þegar Tom Holland kvikmyndaði Thinner árið 1996 var hún því vitaskuld kennd við Kónginn sjálfan.

Lögmaðurinn Billy Halleck er sílspikaður og klístraður enda hefur hann hagnast á því að verja skúrka og skíthæla. Hann étur viðstöðulaust og ræður ekkert við matarfíknina. Eftir að honum tekst að fá mafíósann Richie Ginelli sýknaðann heldur hann upp á sigurinn með því að fara út að borða með eiginkonu sinni. Þrátt fyrir að hafa skellt í sig nokkrum drykkjum ákveður okkar maður að keyra heim og á leiðinni ákveður frúin að verðlauna hann með því að totta hann undir stýri. Sú kynlífsæfing endar nú ekki betur en svo en að Billy keyrir niður gamla sígaunakonu og drepur hana.

Með hjálp lögreglustjórans í bænum og dómara sleppur lögmaðurinn frá slysinu án frekari eftirmála. Þangað til fjörgamall faðir hinnar látnu tekur sig til og leggur bölvun á þremenningana. Sá gamli afgreiðir Billy einfaldlega með því að strúka fúlum fingri eftir fanga hans og segja „visnaðu.“ Og það er eins og við manninn mælt. Billy byrjar að hríðhorast og breytir þá engu hversu miklu hann treður í sig. Hann skreppur saman á methraða og við blasir að feitabollan mun drepast úr hungri fljótlega. Þá mætir sýknaði mafíósinn til leiks og saman reyna þeir félagar að þvinga sígaunan til þess að afturkalla bölvunina.

Thinner mun seint teljast með því besta sem kvikmyndað hefur verið upp úr bókum Kings en nær þó að hefja sig upp yfir helsta ruslið í þeim stafla sem hefur verið klúðrað. Fituklessugervi Roberts John Burke í hlutverki Hallecks er bjánalegt en eftir því sem spikið rennur af honum verður leikarinn betri og meira sannfærandi. Sá ágæti maður Joe Mantegna er samt sá eini sem getur talist almennilegur leikari í myndinni og lyftir henni aðeins í hlutverki Ginellis. Svo verður því ekki neitað að Kari Wuhrer er andskoti ógnvekjandi og flott sem barnabarn sígaunaskrattans. Skæð gella sem blaffar kúlulegum úr teygubyssu af mikilli list. Michael Constantine er svo mátulega yfirdrifinn og ógeðslegur í hlutverki þess gamla og keyrir upp ýktan hroll.

Sögu Kings er fylgt nokkuð vel eftir í myndinni sem verður aldrei neitt sérstaklega spennandi né ógeðsleg enda er Thinner nú þegar allt kemur til alls ekkert sérstaklega skemmtileg bók. Endirinn stendur samt alltaf fyrir sínu og myndin nær að halda manni vakandi og Billy má eiga það að persóna hans tekur áhugaverðum breytingum eftir því sem kílóin hrynja af henni.

Leikstjóri: Tom Holland
Handrit: Michael McDowell, Tom Holland, Stephen King
Leikarar: Robert John Burke, Joe Mantegna, Lucinda Jenney, Michael Constantine, Kari WuhrerSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða