A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

This is 40 | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: This is 40 (2012)

27. febrúar '13 13:16 This is 40

„Apatow er frábær með leikara og fjári góður handritshöfundur en hér verður honum fótaskortur. Sem framleiðandi og leikstjóri þarf hann vera tilbúinn að fórna góðum atriðum ef það bætir flæðið og styrkir heildina.“

Í þessu sjálfstæða framhaldi gamanmyndarinnar Knocked Up fylgjast áhorfendur með hjónunum Pete og Debbie og basli þeirra. Debbie er að fara halda upp á 38 ára afmælið sitt í þriðja skiptið og hefur ýmsar hugmyndir um hvernig megi lappa upp á samband þeirra hjóna nú þegar þau eru bæði orðin fertug.

Leikstjórinn, handritshöfundurinn, framleiðandinn og allt í öllu maðurinn Judd Apatow leikstýrir hér sinni fimmtu kvikmynd. Apatow teygir anga sína víða og tengist hann nánast til þriðju hverri gamanmynd sem ratar í kvikmyndahús. Apatow hefur sent frá sér stórfínar gamanmyndir á borð við The 40 Year Old Virgin, Funny People og einmitt Knocked UpSeth Rogen og Katherine Heigl fóru með aðalhlutverkin í Knocked Up þar sem persónurnar Debbie og Pete komu við sögu. Lengd mynda Apatows hafa verið hans helsti veikleiki en hingað til hefur verið hægt að horfa framhjá þessu en lengdin og stefnuleysið í This is 40 kemur niður á myndinni sem er einar 133 mínútur á lengd.

Apatow hefur þrusugóð tök á leikurum en hér leikstýrir hann eiginkonu sinni og börnum og virðist ekki vita í hvorn fótinn hann eigi að stíga. Það er auðvitað fullt af atriðum sem má hlæja að en yfirkeyrðar uppákomur sem eru ítrekað trompaðar eiga til að vera góðar en undir lokin er þetta orðið meira en nóg. Undanlátssemi Apatows dregur myndina niður. Ekki fer á milli mála að fjölmörg atriði hefðu betur mátt enda á klippigólfinu enda óljóst hvort myndin eigi að fjalla um hjónin, fjárhagskröggur þeirra, börnin, fjölskylduna, furðulegar persónur, vinnuna eða allt heila klabbið.

Ómögulegt er að skilja sumar ákvarðanir Apatows en heilmikið tilstand í kringum sjónvarpsseríuna Lost er eitt dæmi um hlut sem ekki er hægt að botna upp né niður í. Fjölmörg atriði úr sjónvarpsseríunni voru sýnd og þar á meðal bláendirinn á seríunni sem öll þáttaserían fór í að undirbyggja. Auglýsingar í kvikmyndum eru ekki nýjar af nálinni en endalausar auglýsingar fyrir Apple-vörur tröllríða myndinni og virðist ekkert lát vera á hversu oft er hægt að nota eða tala um iPad eða iPhone eða nota MacBook-fartölvur.

Leslie Mann og Paul Rudd eru traust í hlutverkum sínum sem hjónin í krísu. Persóna Mann er að vísu hvöss og afar andstyggileg á köflum en hún fer vel með hlutverkið. Rudd er samur við sig, er einlægur og stutt í kjánaskapinn. Albert Brooks stelur senunni sem pabbi Petes, og dætur Manns og Apatow, þær Maude og Iris Apatow, leika dætur hjónanna. Í minni hlutverkum eru Megan Fox, Jason Segel og Melissa McCarthy.

Apatow er frábær með leikara og fjári góður handritshöfundur en hér verður honum fótaskortur. Sem framleiðandi og leikstjóri þarf hann vera tilbúinn að fórna góðum atriðum ef það bætir flæðið og styrkir heildina. Sem foreldri þarf hann auðvitað að hafa fleiri atriði með dætrum sínum og þegar upp er staðið veit ég ekki hvort hann gerði This is 40 fyrir áhorfendur eða sjálfan sig.

Leikstjóri: Judd Apatow
Handrit: Judd Apatow
Leikarar: Paul Rudd, Leslie Mann, Maude Apatow, Iris Apatow, Jason Segel, Megan Fox, Albert BrooksSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða