A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

This is Sanlitun | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: This is Sanlitun (2013)

7. október '13 15:45 This is Sanlitun

„Sagan getur seint talist frumleg og í raun mætti segja að í grunninn sé hér á ferðinni íslensk/kínversk endurgerð gamanmyndarinnar The Jerk sem Steve Martin lék í árið 1979.“

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Róbert I. Douglas vakti talsverða lukku fyrir þrettán árum með gamanmyndinni Íslenski draumurinn. Þar var lúserinn Tóti í forgrunni uppfullur af snilldarhugmyndum til þess að auðgast hratt og fyrirhafnarlaust. Róbert býður upp á tilbrigði við þetta stef í sinni nýjustu mynd, This is Sanlitun. Hann er að vísu kominn hinum megin á hnöttinn. Myndin gerist í Kína og mislukkaði lukkuriddarinn er að þessu sinni Breti í algeru reiðileysi í Peking.

Gary er lúði alger lúði sem kemur til Peking þar sem hann ætlar að auðgast á því að selja skallameðal frá Norður-Kóreu og endurheimta um leið fyrrverandi eiginkonu sína og ungan son. Gaurinn er algerlega áttavilltur í Peking þar til hann hittir fyrir tilviljun ástralska auðnuleysingjann Frank. Sá þykist heldur betur veraldarvanur og á heimavelli í Kína þótt hann kunni í raun ekkert fyrir sér annað en hanga heima og lepja bjór.

Í minnimáttarkenndarmenguðum hrokanum nær hans samt góðu taki á Gary og gerist leiðbeinandi hans um öngstrætli lísins og borgarinnar. Með frekar dapurlegum árangri, eins og búast mátti við. This is Sanlitun tekur nokkra spretti í gríninu en heildin er losaraleg og ekki nándar nærri nógu þétt. Sagan getur seint talist frumleg og í raun mætti segja að í grunninn sé hér á ferðinni íslensk/kínversk endurgerð gamanmyndarinnar The Jerk sem Steve Martin lék í árið 1979.

Myndin er sett fram sem heimildarmynd og persónurnar gera mikið af því að horfa beint í myndavélina og ávarpa áhorfendur. Þessi frásagnarmáti er vandmeðfarnari en ætla mætti í fyrstu og framan af hefur maður á tilfinningunni að þessi aðferð hafi orðið fyrir valinu til þess að auðvelda frásögina, stytta sér leið með því að láta persónurnar einfaldlega troða sér og hugsunum sínum ofan í áhorfendur með minnstri fyrirhöfn. Þetta vest þó þegar á líður og maður gengst inn á þetta áður en yfir lýkur.

Carlos Ottery ofleikur Gary ágætlega en verður fljótt þreytandi enda er hann svo yfirgengilega mikill aumingi og fífl að hann getur ekki annað en stuðað mann. Hann er eiginlega of mikið fífl til þess að geta verið raunhæf aðalpersóna í heimildarmynd. Lærimeistarinn Frank reddar myndinni hins vegar alveg og Christopher Loton er dásamlegur í hlutverki þessa einfalda besserwissa sem er fyrirferðarmikill í belgingnum en er innst inni lítil og viðkvæm sál.

Þessi aukapersóna er þungamiðjan í myndinni og sá sem vekur mestan áhuga og samúð. Myndin nær mestu flugi þegar Frank er í mynd en þess á milli dúkka upp góðir brandarar af og til sem rétt duga til þess að halda áhuganum út í gegn. Gary er algjör rati sem hefði verið lítið gaman að þvælast með um Peking einum síns liðs en sem betur fer, kannski frekar fyrir áhorfendur en Gary, er Frank sjaldan langt undan og skilar okkur sæmilega sáttum á leiðarenda.

Leikstjóri: Róbert I. Douglas
Handrit: Róbert I. Douglas, Carlos Ottery, Christopher Loton
Leikarar: Carlos Ottery, Christopher Loton, Ai Wan, Cromwell CheungSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða