A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Thor: The Dark World | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Thor: The Dark World (2013)

8. nóvember '13 13:51 Thor: The Dark World

„Síðan Marvel smalaði saman öllum helstu ofurhetjunum sínum undir sinn hatt hefur varla fölsk nóta verið slegin og er Thor: The Dark World engin undantekning þar á.“

Þrumuguðinn Þór snýr aftur eftir að hafa, ásamt félögum sínum í The Avengers-teyminu, bjargað heiminum frá Loka og geimveruhyski í New York. Þór er þó rétt búinn að koma á reglu í alheiminum þegar forn ættbálkur, með skúrkinn Malekith fremstan í flokki, lætur á sér kræla. Áætlun þeirra er að steypa alheiminum í myrkur.

Kvikmyndadeild myndasögurisans Marvel teflir ofurhetjunni Þór nú fram í þriðja skipti en hann hefur áður látið til sín taka í Thor og The Avengers og nú Thor: The Dark World. Thor var prýðileg skemmtun og The Avengers er auðvitað sér kapítuli út af fyrir sig í flokki ofur-ofurhetjumynda.

Leikarinn og leikstjórinn Kenneth Branagh leikstýrði Thor og tekur nú Alan Taylor við í Thor: The Dark World. Ef myndirnar tvær eru bornar saman gengur atburðarásin betur fyrir sig og bardagaatriðin standa framar í þeirri nýju þar sem þau eru þéttari og flottari. Taylor er flestum hnútum kunnugur í bardagasenum eftir að hafa leikstýrt þónokkrum þáttum af Game of Thrones, meðal annars þeim sem voru teknir upp hérlendis.

Það vantar hvorki hasarinn né eyðilegginguna í myndina en þess á milli er slegið á létta strengi. Persónurnar hafa þróast milli mynda og tvíeykið, þeir bræður Þór og Loki, eru óborganlegir í hnyttnum tilsvörum. Almennt séð er myndin fyndnari og skemmtilegri en forverinn og Taylor og handritshöfundunum hefur tekist sérlega vel að blanda saman fantasíu, geimhasar og vísindaskáldskap í myndinni sem er kærkomin viðbót við Marvel-heiminn. Samband þeirra Þórs og hinnar mennsku Jane Foster, sem Natalie Portman leikur, virkar ögn þvingað en það er svosem auðvelt að horfa framhjá því.

Rétt eins og Robert Downey Jr. hefur slegið eign sinni á Iron Man hefur Chris Hemsworth gert persónu Þórs að sinni. Downey Jr. er að vísu búinn að gæða Iron Man sínum eigin kostum og göllum en Hemsworth er ansi vígalegur í hlutverkinu. Í Thor var Þór eins og þorskur á þurru landi en hér er hann allsráðandi og tekur sig vel út á heimavelli. Portman fær meira vægi í hlutverki Foster í þessari og fer áreynslulaust með það, og mætti gjarnan fá enn stærra hlutverk í næstu mynd. 

Tom Hiddleston leikur Loka í þriðja sinn og rétt eins og í Thor stelur hann senunni hér. Sá trausti leikari Stellan Skarsgård er ekki síðri sem vísindamaðurinn Erik Selvig sem á ófá fyndin atriði í myndinni. Þá er Anthony Hopkins ávallt jafn traustur og Idris Elba er betur nýttur í hlutverki Heimdalls í þessari en þeirri fyrri. Christopher Eccleston leikur skúrkinn Malekith og hefur úr litlu að moða í hlutverkinu.

Líkt og í hinum Marvel-framleiðslunum er umgjörðin óaðfinnanleg og er gaman að sjá atriði tekin upp á Íslandi. Undurfagurt umhverfi Ásgarðs er áberandi og er heillandi að fylgjast fjölskrúðugu umhverfinu.

Síðan Marvel smalaði saman öllum helstu ofurhetjunum sínum undir sinn hatt hefur varla fölsk nóta verið slegin og er Thor: The Dark World engin undantekning þar á. Afhverju er ekki goðafræði í skólum kennd á jafn skemmtilegan og fyndinn máta og hér?

Leikstjóri: Alan Taylor
Handrit: Christopher Yost, Christopher Markus, Stephen McFeely
Leikarar: Chris Hemsworth, Natalie Portman, Tom Hiddleston, Stellan Skarsgård, Idris Elba, Kat Dennings, Ray Stevenson, Tadanobu Asano, Jaimie Alexander, Rene Russo, Anthony HopkinsSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða