A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Tombstone | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Tombstone (1993)

7. ágúst '13 16:36 Tombstone

„Í þessu tilfelli munar mest um framlag Vals Kilmer sem ber myndina á veikburða herðum Doc Holliday og fleytir sögunni yfir mestu moðsuðuskaflanna þannig að eftir stendur barasta nokkuð eftirminnilega og skemmtilegt mynd. “

Vestrar voru frekar áberandi upp úr 1990 þar sem óskarsverðlaunamyndirnar Dances with Wolves (1990) og Unforgiven (1992) bar hæst en á meðal vestra sem rötuðu í bíó á árabilinu 1990-1999 má nefna Back to the Future Part III, Young Guns II, The Last of the Mohicans, Posse, Bad Girls og draslið Wild Wild West sem á sér ákveðna hliðstæðu í samtímanum með The Lone Ranger, stjörnum prýdd og fokdýr brellumynd sem skilaði litlu og skildi ekkert eftir sig. Og lítil hætta er á að The Lone Ranger ýti af stað nýrri vestraskriðu.

Hinn goðsagnarkenndi laganna vörður Wyatt Earp, eða Vætu Erpur eins og hann hét í Lukku-Láka bókunum, var áberandi á þessu tímabili. Kurt Russell lék hann í Tombstone 1993 og ári síðar mætti Kevin Costner til leiks í hlutverkinu í hinni miklu og löngu Wyatt Earp. Tombstone telst seint til bestu vestra þessa áratugar en mikið andskoti hafði maður gaman að henni á sínum tíma og manni leiðist hreint ekkert yfir henni núna, tuttugu árum síðar.

Wyatt Earp er þegar hér er komið við sögu orðinn nafntogaður fyrir vaska framgöngu sem löggæslumaður í hinu villta vestri. Hann hefur hins vegar pakkað pístólunum saman og mætir ásamt bræðrum sínum, þeim Virgil og Morgan, til Tombstone til þess að auðgast á alls konar braski. Bræðurnir fá þó ekki mikinn frið til þess að maka krókinn þar sem rumpulýður sem kallar sig Kúrekana eru duglegir við að snapa fæting og eru lítt hrifnir af Earp-bræðrum og orðspori þeirra.

Góðu heilli er Doc Holliday, berklasjúkur góðvinur Vætu Erps, mættur til bæjarins í von um að hitinn haldi meini hans niðri. Munar um minna þegar slær í brýnu við O.K. - Réttina þar sem einn frægasti skotbardagi villta vestursins fór fram. Holliday er nefnilega, þrátt fyrir tannlæknismenntunina og krankleika sinn, miklu skjótari en þeir bræður að skjóta og er síkópati ofan í kaupið þannig að hann munar ekkert um að senda skítalabba til heljar sér til ánægju og yndisauka.

Val Kilmer leikur tannlækninn með tilþrifum og heldur myndinni gangandi þótt hann sé fölur, fár og kaldsveittur. Kurt Russell er heldur litlaus og leiðinlegur við hlið Kilmers sem hefur úr miklu meira að moða. Erkitöffarinn Sam Elliott er svalur í hlutverki Virgils en sögulegar staðreyndir koma í veg fyrir að hann fái notið sín til fullustu. Bill Paxton er síðan sjálfum sér líkur í hlutverki yngsta bróðurins, Morgans, sem er ekki nándar nærri sama hörkutólið og bræður hans og þá sérstaklega Wyatt.

Ómenninn Curly Bill Brocius og Johnny Ringo fara fyrir Kúrekunum. Þeir eru illskan uppmáluð og ekki er annað að sjá en þeir ágætu leikarar Powers Boothe og Michael Biehn virðast skemmta sér konunglega í hlutverkum þeirra. Wyatt og Curly Bill er stillt upp sem aðalgæjunum hvorum sínu megin við víglínuna en auðvitað blasir við að Doc Holliday og Johnny Ringo eru aðal andstæðuparið. Eða samhverfan öllu heldur þar sem fleira tengir þá saman en skilur þá að.

Báðir eru kaldrifjaðir morðingjar og úrvalspatar og í raun ræður því ekkert nema tilviljun og gömul vinátta að Holliday sé í liði með góðu gæjunum. En hann veit hvað við er að etja í Ringo og þegar hann útskýrir eðli Ringos fyrir Wyatt er hann um leið að lýsa sjálfum sér:

A man like Ringo has got a great big hole, right in the middle of him. He can never kill enough, or steal enough, or inflict enough pain to ever fill it.

Besta sena Tombstone er því að sjálfsögðu óhjákvæmilegt uppgjör siðblindingjanna. Báðir leikararnir eru í stuði og Kilmer fáránlega svalur. Styrkur Tombstone liggur einmitt fyrst og fremst í stökum senum, töffarastælum, góðum spretti nokkurra leikara og kúl setninga. Heildin er aftur á móti losaraleg moðsuða en það sem er töff í þessari mynd er svoooo töff að hún rétt sleppur og þolir áhorf á svona eins og tíu ára fresti.

Tombstone líður nokkuð fyrir að þar ægir saman allt of mörgum persónum sem gleymast, týnast eða eru þarna í fullkomnu tilgangsleysi. Í sögulegu ljósi gerir þetta myndina samt sem áður áhugaverða enda er aukaleikarahópurinn vægast sagt skrautlegur og þar taka misgóða spretti hvorki meira né minna en Billy Bob Thornton (niðurlægður í hlutverki heimsks fauta), Michael Rooker (töff að vanda í undarlegu hlutverki sem er hvorki fugl né fiskur), Jason Priestley (hann Brandon úr Beverly Hills 90210, þið munið, eitthvað að reyna að vera annað en Brandon og ferst það vægast sagt illa), Billy Zane (á hápunkti fegurðar sinnar og kynþokka og fær enda ekki að gera neitt annað en vera sjúklega sætur og fáránlega sexí), Thomas Haden Church og Frank Stallone eru svo þarna í mýflugumynd og Dana Delany leikur sexúallí virka leikkonu sem heillar Vætu Erp upp úr skónum en Delany varð síðar ein mest óþolandi aðþrengda eiginkonan, Katherine Mayfair, í samnefndum sjónvarpsþáttum.

Gamli byssubrjálæðingurinn Charlton Heston dúkkar upp í smáhlutverki og auðvitað alltaf til í tuskið svo lengi sem hann er með rifill í gigtarlúkunum. Hópurinn er svo negldur saman með einum harðasta töffara kvikmyndasögunnar, Robert Mitchum, sem leggur til hrjúfa rödd sína sem sögumaður. Vel þess virði að leggja við hlustir þegar hann leiðir áhorfendur inn í söguna og síðan út úr henni aftur að blóðbaðinu loknu.

Leikstjórinn George Pan Cosmatos skráði nafn sitt ekki á spjöld kvikmyndasögunnar fyrir nein sérstök stórvirki. Hér lánast honum að segja einfalda sögu sem fjallar fyrst og fremst um vináttuna og þær römmu taugar sem binda stundum sveitta karlpúnga í órjúfanlegt fóstbræðralag (í raun sama meginþema og í til dæmis Sin City). Í þessu tilfelli munar mest um framlag Vals Kilmer sem ber myndina á veikburða herðum Doc Holliday og fleytir sögunni yfir mestu moðsuðuskaflanna þannig að eftir stendur barasta nokkuð eftirminnileg og skemmtilegt mynd. Þá verður líka ekki af Cosmatos tekið að honum var nokkuð lagið að útfæra heiladauðan hasar og ofbeldi.

Rambo: First Blood Part II og Cobra! Defence rests. Denny Crane!

Leikstjóri: George Pan Cosmatos
Handrit: Kevin Jarre
Leikarar: Kurt Russell, Val Kilmer, Sam Elliott, Bill Paxton, Powers Boothe, Michael BiehnSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða