A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Total Recall | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Total Recall (1990)

13. ágúst '12 13:37 Total Recall

„Sharon Stone er bráðskemmtileg, grimm og banvæn í hlutverki frúarinnar og segja má að hún taki hér ágætis upphitun fyrir ódauðlegt hlutverk hennar í Basic Instinct nokkrum árum síðar þegar Verhoeven fékk hana til að láta skína í skonsuna í hlutverki hinnar snaróðu Catherine Tramell. “

Þar sem endurgerð Len Wiseman á Total Recall er nýbyrjuð í bíóum á Íslandi er vel við hæfi að draga 22 ára gamla frummyndina úr bunkanum á Grensásvídeói sem er varnarþing Svarthöfða.

Árið 1990 gerði subbukallinn Paul Verhoeven alveg hreint stórfína sci-fi-mynd eftir smásögunni We Can Remember It For You Wholesale eftir  Philip K. Dick og maður hefði hiklaust slengt fjórum stjörnum á Total Recall þegar maður sá hana í bíó á sínum tíma.

Þetta hörkuflottur vísindaskáldskapur, löðrandi í hressilegu ofbeldi að hætti hins klikkaða hollenska leikstjóra. Þá var Arnold Schwarzenegger líka á hátindi frægðar sinnar og þótt sá annars ágæti maður hafi aldrei getað leikið af nokkru viti þótt líf hans lægi við. Nema auðvitað morðótt vélmenni, þá var maður svo vanur klunnalegum leik hans og stirðum talanda að annmarkar hans trufluðu ekki vitund. Enda var í þá daga, og er í raun enn, ekki ætlast til annars af Arnold í kvikmyndum en að hann sé duglegur að drepa fólk.

Austurríska buffið stendur því vel fyrir sínu í hlutverki byggingaverkamannsins Doug Quaid sem á huggulegt heimili og ofboðslega fallega og sexí konu sem Sharon Stone leikur. Þrátt fyrir notalegt líf finnst Doug eitthvað vanta enda er hann þjakaður af þrálátum draumum þar sem hann er í bráðum háska á Mars.

Draumarnir verða til þess að hann sækir þjónustu fyrirtækisins Rekall sem plantar fölskum en spennandi minningum, sem viðskiptavinir geta síðan ornað sér við, í huga fólks. Doug ætlar nú bara að kaupa sér minningar um ferðalag til rauðu reikistjörnunnar en lætur til leiðast og kaupir minningapakka þar sem hann er þrautþjálfaður njósnari sem lendir í krassandi ævintýrum. Ekki tekst þó betur til en svo að eitthvað fer úrskeiðis áður en minningunni er hlaðið inn í heila Dougs og þeir hjá Rekall ákveða að fela klúðrið með því að senda Quaid rænulausan heim í leigubíl.

Hann er þó varla vaknaður almennilega þegar vinnufélagi hans, ásamt einhverjum fautum, reynir að kála honum en sér að óvörum býr Quaid yfir ótrúlegri vopnfimi og slagsmálahæfni þannig að hann stútar öllu hyskinu fyrirhafnarlaust. Blóðugur og í miklu uppnámi kemur hann heim í faðm eiginkonunnar en þar tekur ekki betra við þar sem hún reynir strax að drepa hann.

Sharon Stone er bráðskemmtileg, grimm og banvæn í hlutverki frúarinnar og segja má að hún taki hér ágætis upphitun fyrir ódauðlegt hlutverk hennar í Basic Instinct nokkrum árum síðar en þar tefldi  Verhoeven henni fram sem hinni snaróðu Catherine Tramell sem lét skína í skonsuna í eftirminnilegu yfirheyrsluatriði. Arnold hefur Stone undir með erfiðismunum og kemst að því að hún er ekki konan hans og að allt líf Dougs er byggt á fölskum minningum. Hún bjó einungis með honum til þess að hafa á honum gætur og sjá til þess að það myndi ekki rifjast upp fyrir honum að hann er í raun njósnari að nafni Hauser.

Eftir þetta taka leikar heldur betur að æsast og Michael Ironside blandar sér í eltingarleikinn við Quaid/Hauser og leikur illmennið Richter með miklum tilþrifum. Frammistaða hans er einhvers konar bergmál af ekki síðri frammistöðu Kurtwood Smith í hlutverki glæponsins Boddicker í Robo Cop sem Verhoeven gerði þremur árum áður. Þá stelur Ironside illgirnislegu glotti Jacks Nicholson með tilætluðum áhrifum. Ronnie Cox, sem var aðal vondi kallinn í Robo Cop, er á svipuðu róli í Total Recall sem ómennið Cohaagen sem stjórnar nýlendunni á Mars harðri hendi þar sem hann ræður yfir öllu súrefni á stjörnunni.

Quaid kemst að því að Hauser var helsti og besti liðsmaður Cohaagens í baráttunni við stökkbreytt uppreisnarfólk á Mars áður en honum snerist hugur og hann gekk til liðs við uppreisnina. Quaid heldur starfi síns rétta og fyrra sjálfs áfram án þess að átta sig á að hann er leiksoppur í útsmognu plotti Cohaagens.

Total Recall var frumleg, ofbeldisfull og töff á sínum tíma og vændiskonan með brjóstin þrjú lifir sjálfsagt enn í minningu margra auk dásamlegs „hjónaskilnaðar“ Schwarzeneggers og Stone og sígilds atriðis í rúllustiga þar sem Arnold notar óbreyttan borgara sem skjöld í kúlnahríð vondu kallanna. Svo má auðvitað ekki gleyma því þegar hann togar staðsetningartæki úr hauskúpu sinni í gegnum nefnið. Það atriði var klikkað í þá daga og er það enn.

Total Recall eldist í raun ótrúlega vel þótt óhjákvæmilega sé margt sem var smart 1990 orðið frekar hallærislegt í dag. Arnold er auðvitað átakanlega lúðalegur undir öllum vöðvunum en það verður samt ekki af honum tekið að hann er „meðidda“. Ofbeldi Verhoevens, sem var yfirgengilegt í den hreyfir auðvitað ekki við nokkurri sálu í dag en húmorinn í myndinni er greinilega sígildur og virkar enn vel.

Nýja Total Recall-myndin stendur þessari gömlu langt að baki og í raun er hún ekki samanburðarhæf. Verhoeven útfrærir allar lausnir og flækjur miklu betur en Len Weisman nú og í raun er óskiljanlegt hvers vegna Weisman gekk bara ekki skrefinu lengra og stal meiru frá Verhoeven en hann virðist þvert á móti hafa lagt sig fram um að sleppa öllu því snjallasta frá Hollendingnum. Nema mellunni með brjóstin þrjú en hún kemur eins og skrattinn úr sauðaleggnum í nýju myndinni. Einhver furðuleg rökleysa sem var aftur á móti mjög eðlilegur einstaklingur í furðuveöldinni sem Verhoeven skóp á Mars.

Vilji fólk sökkva sér á kaf í minningarugl og ævintýri Quaids þá er farsælla að fara í Grensásvídeó og leigja sér Schwarzenegger-myndina frekar en horfa á Colin Farrell í bíó. Gamla Total Recall virkar enn og er enn þann dag í dag fjögurra stjörnu stykki.
 

Leikstjóri: Paul Verhoeven
Handrit: Ronald Shusett, Dan O'Bannon, Jon Povill, o.fl.
Leikarar: Arnold Schwarzenegger, Sharon Stone, Rachel Ticotin, Michael IronsideSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða