A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Training Day | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Training Day (2001)

15. október '12 14:17 Training Day

„Það stormar af Washington í hlutverkinu og það fer honum svakalega vel að vera skúrkur og hann bjargar myndini fyrir horn þegar halla fer undan fæti undir lokin þegar frumleg og áhugaverð sagan rennur út í hefðbundið uppgjör...“

Antoine Fuqua tók þroskakipp sem leikstjóri eftir The Replacements Killers og skilaði af sér frambærilegu löggudrama með Training Day. Myndin er rétt mátulega spennandi en dettur að vísu ofan í gamalt klisjuhjakk í restina. Denzel Washington heldur henni uppi enda í banastuði sem vondi kallinn. Hann leikur aumingjann Ethan Hawke sundur og saman en sá þrautleiðinlegi leikari fær það vandasama verkefni að leika óreynda löggu sem gefst kostur á að fá að vinna með flottasta löggutöffara borgarinnar, sem Washington leikur með meiriháttar tilþrifum, þannig að getuleysi Hawkes, sem leikara, verður sorglega áberandi í samanburðinum.


Washington er svo ekki allur þar sem hann er séður og er, þrátt fyrir að vera súperlögga, vondi kallinn í myndinni, alveg gerspilltur og morkinn, þannig að helst er hægt að finna persónunni hliðstæðu í túlkun Harvey Keitels í Bad Lieutenant. Það stormar af Washington í hlutverkinu og það fer honum svakalega vel að vera skúrkur og hann bjargar myndini fyrir horn þegar halla fer undan  fæti undir lokin þegar frumleg og áhugaverð sagan rennur út í hefðbundið uppgjör þess góða og vonda. Þessi endalausu lokaslagsmál orðin alveg svakalega hallærisleg og þreytt.
 

Þá koma þriðja flokks leikarar á borð við Scott Glenn og Tom Berenger ánægjulega á óvart og setja skemmtilegan svip á þessa ágætu glæpamynd sem hefði orðið enn sterkari og eftirminnilegri ef menn hefðu lagt sig aðeins fram um að klára dæmið öðruvísi en gert hefur verið í nánast öllum hasarmyndum síðustu tuttugu ára. Þetta skiptir höfuðmáli hér, þar sem Training Day byrjar ekki sem dæmigerð hasarmynd og hefði staðið stekari eftir sem mannlegur harmleikur og dramatísk löggumynd ef hægt hefði verið að sneyða hjá klisjupakkanum í lokin.

Leikstjóri: Antoine Fuqua
Handrit: David Ayer
Leikarar: Denzel Washington, Ethan Hawke, Scott GlennSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða