A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Transformers: Age of Extinction | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Transformers: Age of Extinction (2014)

27. júní '14 16:27 Transformers: Age of Extinction

„Sem aðdáandi Transformers og Transformers: Dark of the Moon hef ég getað horft framhjá ýmsu klaufalegu en í þessari þriggja tíma kvikmynd gengur ekkert upp í handritsdeildinni.“

Vísindamaður og fjölskylda hans eru á flótta undan yfirvöldum eftir að hann kaupir ryðgaðan trukk sem reynist vera vélmennið Optimus Prime. Vélmennin eru á undanhaldi eftir atburðina í Chicago og er markmið sérstaks hóps sérsveitarmanna að öll vélmennin verði fundin og þau upprætt.

Sprengjusérfræðingurinn Michael Bay er einstakur kvikmyndagerðamaður og þótt margir halda annað þá er hann góður í sínu fagi. Í kvikmyndum Bays, í þessu tilfelli Transformers-bálknum, leggur hann upp með að gera hávaðasamar hasarmyndir með helling af sprengingum, skotbardögum og urrandi vélmennum - og honum tekst það. En kokkur verður aldrei betri en hráefnið leyfir.

Handrit Ehren Kruger Transformers: Age of Extinction er nefnilega afleitt. Eins mikið og maður reynir að horfa framhjá sundurtættri atburðarás eða glötuðum samtölum í myndinni þá skortir alla persónusköpun og skraufþurr frásagnarmátinn hjálpar ekki myndinni. Glórulaus framvinda og ákvörðunartökur persónanna koma sífellt á óvart og enn einu sinni tekst að flækja sáraeinfaldan sumarsmell með of mörgum persónum og óþarfa plottum þeim tengdum. Fyrir vikið verður myndin langdregin og þvæld enda 165 mínútur að lengd.

Aðdáendur, sem og sumir áhorfendur, kvörtuðu sáran yfir því að leikarinn Shia LaBeouf færi með aðalhlutverkið í hinum þremur myndunum. Nú er hann fjarri góðu gamni og er ég ekki frá því að það sé jafnvel verra. Í hinum myndunum var vélmennið Bumblebee, vinur persónu LaBeouf, helsta tenging áhorfandans við vélmennin en í þessari eru vélmennin afar óvinveitt og á köflum auvirðileg. Vélmennin eru auðvitað rosa flott og eru hin framandi risaeðluvélmenni skemmtileg viðbót.

Mark Wahlberg tekur við kyndlinum af LaBeouf sem aðalleikari þessarar myndar og hefur hann úr litlu að moða í hlutverki Cade Yeager, vísindamannsins sem bjargar lífi Optimus Prime. Yeager talar sífellt um að vernda dóttur sína, sem Nicola Peltz leikur, en hann hugsar þannig um hennar hag að hann kemur henni ítrekað í meiri hættu en áður. Svo oft að það verður hálfpartinn fyndið.

T.J. Miller leikur frænda Yeagers, Lucas Flannery, sem er áhugaverðasta persóna myndarinnar framan af, eða þangað til einhver fékk þá hugdettu að drepa persónuna. Í seinni hlutanum er það Stanley Tucci sem stelur senunni og slær á létta strengi sem hrokafullur stjórnandi fyrirtækis sem smíðar sín eigin Transformers-vélmenni. Þeir John Goodman og Ken Watanabe ljá nýjum vélmennum raddir sínar og Peter Cullen snýr aftur sem Optimus Prime.

Eins og áður segir er Bay góður í sínu fagi samkvæmt mínum bókum og ef dæmt væri út frá sprengingum, hávaða og skotbardaga þá fengi þessi fjórar sprengjur af fimm mögulegum. Sem aðdáandi Transformers og Transformers: Dark of the Moon hef ég getað horft framhjá ýmsu klaufalegu en í þessari þriggja tíma kvikmynd gengur ekkert upp í handritsdeildinni. Fyrir utan það að Bay sprengir yfir sig.

Leikstjóri: Michael Bay
Handrit: Ehren Kruger
Leikarar: Mark Wahlberg, Nicola Peltz, Jack Reynor, Stanley Tucci, Kelsey Grammer, Titus Welliver, T.J. Miller, John Goodman, Ken WatanabeSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða