A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

V for Vendetta | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: V for Vendetta (2005)

5. nóvember '12 12:18 V for Vendetta

„Inntak sögunnar heldur sér hins vegar og V for Vendetta er býsna hvöss samfélagsádeila. Þetta er svolítið reið mynd sem er hið besta mál og það gleður mann alltaf þegar Hollywood þorir að senda gerráðum valdhöfum heima fyrir tóninn.“

Fimmti nóvember er sá dagur sem uppreisnarseggurinn V lætur til skarar skríða gegn fasistastjórn í Bretlandi. Hann er innbásinn af Guy Fawkes og tilraun hans til þess að sprengja breska þingið í loft upp einmitt þann 5. nóvember árið 1605. Fawkes er jafnan minnst 5. nóvember ár hvert og á mánudaginn heiðruðu uppreisnarseggir og minningu hans.

V for Vendetta er helvíti góð bíómynd. Vel gerð, spennandi, áhugaverð og það sem mestu máli skiptir er að hún hreyfir við áhorfendum. Að þessu sögðu verður maður auðvitað að réttlæta og afsaka þessa afstöðu þar sem meistari Alan Moore getur varla tekið undir þetta og manni finnst maður svolítið vera að svíkja kallinn með því að hrósa þessari annars ágætu mynd.

V for Vendetta byggir á samnefndri myndasögu eitursnjalla Moore. Hollywoodmaskínan hefur farið ansi illa með hann og óhætt er að segja að kvikmyndaútfærslur á frábærum myndasögum hans, The League of Extraordinary Gentlemen og From Hell, eru argasta móðgun við frumtextann. Moore er orðinn svo langþreyttur á þessu að hann afneitaði á sínum tíma V for Vendetta með öllu.

Hér er vissulega mörgu sleppt enda er saga Moores svo margbrotin og listilega vel fléttuð að það er ekki heiglum hent að koma henni á hvíta tjaldið. Inntak sögunnar heldur sér hins vegar og V for Vendetta er býsna hvöss samfélagsádeila. Þetta er svolítið reið mynd sem er hið besta mál og það gleður mann alltaf þegar Hollywood þorir að senda gerráðum valdhöfum heima fyrir tóninn.

Moore byrjaði að skrifa sögu sína bandsjóðandi vitlaus út í stjórn Thatcher í Bretlandi árið 1982. Sögusvið Moores var fasistaríkið Bretland árið 1997 þar sem þegnarnir lifðu í stöðugum ótta við geggjaðan einræðisherra sem var með alvarlegan stórabróðurkomplex í anda Orwells. Í bíómyndinni er sagan færð til dagsins í dag sem er býsna vel til fundið þar sem byltingarboðskapur hennar fær aukinn slagkraft og þjóðfélagsgagnrýnin meiri vigt.

Dularfullur byltingarmaður sem kallar sig V rís upp gegn ofríkinu og nær fyrirtaks árangri í árásum sínum á undirstöður fasistaveldisins. Hann er keyrður áfram af hatri í garð valdhafa, sterkri réttlætistilfinningu og ekki síst ást á menningu, bókmenntum og öðrum listgreinum sem yfirvöld hafa nánast þurrkað út.

Hugo Weaving leikur V með miklum tilþrifum og skilar flókinni persónunni alla leið þótt hann sé falinn bak við grímu alla myndina. Natalie Portman kemst einnig vel frá sínu sem Evey, ung stúlka sem fyrir tilviljun verður lærisveinn uppreisnarseggsins. Öll vandræði með enskan hreim og annað breiðir hún yfir með þeim yfirþyrmandi þokka sem hefur gert hana að einni mest heillandi leikkonu samtímans. Eðalmenn á borð við Stephen Rea, Stephen Fry, John Hurt og Tim Pigott-Smith setja einnig sinn svip á myndina og sjá til þess að manni líður eins og fyrir augu beri breska eðalframleiðslu en ekki útspil The Matrix-systkinanna sem voru að vísu bræður þegar myndin var gerð.

Í ljósi bakgrunns leikstjóranna kemur skemmtilega á óvart að stílfærðum bardagaatriðum í anda The Matrix er stillt verulega í hóf þannig að sagan og persónurnar fá að njóta sín. Ef til vill spillir einna helst fyrir hversu handritshöfundarnir reyna að gagnrýna margt í einu þannig að einhver skeytin missa óhjákvæmilega marks.

Í það heila tekið er V for Vendetta þó þrælskemmtileg og hressandi mynd sem ætti að kveikja baráttuneista í hjörtum þeirra sem eru ekki alveg skyni skroppnir. Ég verð í það minnsta alltaf jafn byltingaróður þegar ég sé V sprengja  opinberar byggingar í tætlur við dúndrandi undirspil forleiks Tsjaíkovskís að 1812.

Leikstjóri: James McTeigue
Handrit: Andy Wachowski og Lana Wachowski
Leikarar: Natalie Portman, Hugo Weaving, Stephen ReaSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða